Fjögurra ára framkvæmdaáætlun fyrir fatlaða
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það ber oft við á hinu háa Alþingi þegar bornar eru fram annaðhvort fsp. eða þáltill. eða eitthvað þar sem verið er annaðhvort að spyrja um eða mælast til smáleiðréttinga að því er borið við að það séu heildaráætlanir sem verið sé að gera eða það sé verið að endurskoða lögin í heild. Með því er svo auðvelt að drepa á dreif ýmsum þeim atriðum sem hægt er að laga og þurfa ekki að bíða eftir heildarframkvæmdaáætlun eða heildarlagabreytingum. Það er einmitt það sem þetta mál snýst um. Þessir listar, sem forsvarsmenn fatlaðra eru að tala um, eru einmitt neyðarlistar og mér finnst skipta harla litlu máli hvort á þeim eru 108 eða tæplega 100. Það er auðvitað alltaf matsatriði, örlítið matsatriði, hvort neyð er nógu mikil eða nógu raunveruleg, en þarna er einmitt verið að biðja um forgang fyrir þá sem a.m.k. forsvarsmenn fatlaðra telja að séu í raunverulegri neyð. Það er auðvitað allra góðra gjalda vert að standa að framkvæmdaáætlun sem taki til allra þátta sem varða fatlaða og húsnæðismála þeirra allra o.s.frv. o.s.frv. en þessi fundur sem haldinn var hér á Austurvelli var einmitt til þess að vekja athygli á að það væru einstaklingar sem gætu ekki beðið. Ég tek það t.d. ekki sem góð og gild rök að einhverjir þurfi ekki að vera á neyðarlistum vegna þess að þeir búi við góða húsnæðisaðstöðu hjá foreldrum sínum. Það hlýtur að vera miklu meira virði hvort einstaklingarnir, eða foreldrarnir í þessum tilfellum, telji sér fært að sjá um þessa einstaklinga en hvort húsnæðið er gott. Þarna komum við enn einu sinni að einhverju veraldlegu mati sem tekur ekki til hins mannlega þáttar. Mér finnst það í rauninni heldur leiðinlegt að hlusta á að málflutningur snúist að stórum hluta til um það að hártoga hvort mat á neyð er réttmætt eða ekki. Mér fyndist miklu nær að allir sem hér eru inni reyndu að sameinast um að finna einmitt lausnir og hvernig standa megi að slíkri framkvæmdaáætlun, forgangsáætlun, fyrir þá einstaklinga sem þarna er um að ræða, hvort sem þeir eru 108, 98 eða 88. Það skiptir ekki öllu máli þó þeir væru bara 8.