Fjögurra ára framkvæmdaáætlun fyrir fatlaða
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Ég stend nú hér upp, virðulegi forseti, til þess að leiðrétta það sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl. að ég ætli ekki að verða við þeirri áskorun sem fram hefur komið hjá fötluðum varðandi slíka áætlunargerð. Ég held að hv. þm. hafi lítið lagt við hlustirnar þegar ég svaraði honum hér áðan. Það er einmitt verið að vinna að slíkri áætlunargerð og ég taldi mig þurfa að taka nokkuð langt mál í það að skýra hvers vegna þessi undirbúningsvinna hefði tekið þennan tíma. Það kom fram í mínu máli að þessi vinna væri nú á lokastigi og að á grundvelli þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir væri verið að tölvuvinna hvað þörfin væri mikil fyrir sambýli, í húsnæðismálum, á vernduðum vinnustöðum, á vistheimilum og fleiri þáttum. Þegar það liggur fyrir, sem væntanlega verður innan nokkurra vikna, þá verður farið að gera hina eiginlegu framkvæmdaáætlun. Ég mundi áætla að upp úr áramótum gæti slík framkvæmdaáætlun legið fyrir.
    Þess vegna spyr ég hvort það séu eðlileg eða skynsamleg vinnubrögð þegar þetta mál er komið svo langt og að þessari áætlunargerð er raunverulega verið að vinna, hvort til hliðar við þessa áætlun eigi þá að fara að vinna sérstaka áætlun í húsnæðismálum fatlaðra. Á hverju á hún að byggja? Er ekki skynsamlegra að hún byggi þá á þeirri vinnu og þeim undirbúningi sem hefur verið gerður í þessum málum, m.a. að því er varðar húsnæðismálin? Þess vegna vísa ég því auðvitað alveg á bug sem fram kom hjá hv. þm. að ekki sé verið að vinna í þessum málum. Það er einmitt verið að vinna að því að undirbúa slíka framkvæmdaáætlun. Við getum síðan lagt á það mat þegar þetta liggur fyrir hvort við eigum að taka sérstaklega út húsnæðismálin og veita þeim þá forgang. Við höfum úr takmörkuðu fjármagni að spila í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum og þá þarf auðvitað að leggja mat á forganginn. Eigum við að láta
húsnæðismálin hafa forgang á kostnað kannski verndaðra vinnustaða eða meðferðarheimila? Þetta er auðvitað alltaf matsatriði. Og ég útiloka það ekkert að þegar þetta liggur fyrir sé hægt að gera alveg sérstaka framkvæmdaáætlun að því er varðar húsnæðismálin ein og sér. En ég hefði þó talið skynsamlegra að gera þessa heildaráætlun á öllum þjónustuþáttum fyrir fatlaða. Ég ítreka því að þessi vinna er í fullum gangi og að þessi framkvæmdaáætlun muni sjá dagsins ljós innan tíðar.