Fjögurra ára framkvæmdaáætlun fyrir fatlaða
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Áskorun þessara samtaka er eingöngu um húsnæðismál. Það hefur alls ekki komið fram í máli ráðherra að hann ætli að taka þau sérstaklega og gera áætlun um þau. Auðvitað er ég ekki að gera lítið úr þeirri upplýsingaöflun og skráningu sem fer fram. Ég fagna henni eins og allir að sjálfsögðu. En það er bara ekki það sem við erum að tala um akkúrat þessa stundina. Að sjálfsögðu ber ég fyllsta traust til ráðherrans í þessum málaflokki. Ég er hins vegar að reyna að krefja hana svara við ákveðnum málaflokki fyrir fatlaða sem eru húsnæðismálin og ég hef ekki fengið skýr svör.
    Mér finnst hins vegar alvarlegt þegar hv. þm. Karl Steinar Guðnason kemur hér upp og ásakar samtökin um það að hafa staðið fyrir útifundi og dreift þar villandi og sennilega, eftir því sem ég skildi hann, röngum upplýsingum. Ég tel að hann verði að standa fyrir því máli sínu.