Höfundaréttargjald af innfluttum myndbandsspólum
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Þann 28. mars 1989 undirritaði hæstv. menntmrh. reglugerð um innheimtu höfundaréttargjalds við tollafgreiðslu á óáteknum myndböndum og óáteknum segulböndum ásamt fleiri tækjum. Ég leyfi mér á þskj. 35 að leggja eftirfarandi fyrirspurn fyrir ráðherrann:
    ,,Hver er skýringin á því að greitt er höfundaréttargjald af óáteknum myndbandsspólum við tollafgreiðslu?``
    Ástæðan er einfaldlega sú að ég sé ekki rökin fyrir því að höfundar eigi einhvern rétt á greiðslum af slíkum vörum, þar sem ekki er verið að vernda rétt þeirra á neinu efni. Þetta er mest notað til einkanota heimilanna og ef eitthvað efni er tekið upp, t.d. upp úr sjónvarpi, þá er það sennilega í 95% tilvika erlent efni hvort sem er.