Höfundaréttargjald af innfluttum myndbandsspólum
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Samkvæmt höfundalögum, nr. 78/1984, um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, var gefin út reglugerð um höfundaréttargjald af hljóð- og myndböndum, fyrst 15. mars 1985 af Ragnhildi Helgadóttur og síðan af mér fyrr á þessu ári. Innheimta höfundaréttargjaldsins af óáteknum myndbandsspólum við tollafgreiðslu grundvallast á þessum ákvæðum höfundalaganna. Þar er staðfest að höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, eiga rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra á hljóð- eða myndbönd til einkanota. Það eru rökin í málinu.
    Það er gert ráð fyrir því að greitt sé sérstakt gjald af þessum tækjum til upptöku verka á hljóð- og myndbönd til einkanota, svo og af auðum hljóð- og myndböndum og öðrum böndum sem telja má ætluð til hliðstæðra nota. Gjaldið er greitt af tækjum og böndum sem flutt eru til landsins og/eða framleidd hér á landi og hvílir skylda til að svara þessu gjaldi á innflytjendum og/eða framleiðendum.
    Gjald þetta er á einkaréttargrundvelli, þ.e. það flokkast ekki undir opinber gjöld og hafa höfundar sjálfir og eigendur höfundarréttar, hvort sem það eru tónskáld, hljómplötuframleiðendur, rithöfundar eða aðrir, forræði á gjaldinu í stofnun sem þeir reka og heitir Innheimtumiðstöð gjalda. M.a. í ljósi þess að nokkur óánægja var með þá tilhögun innheimtunnar sem í gangi var um skeið, og þá einkum það að óþarflega algengt var að aðilar kæmust hjá því að greiða þetta gjald, voru teknar upp viðræður milli Innheimtumiðstöðvar gjalda og Félags ísl. stórkaupmanna fyrir forgöngu menntmrn. til að finna lausn á þessu máli. Niðurstöður þeirra viðræðna voru þær að gert var samkomulag milli Innheimtumiðstöðvar gjalda og Félags ísl. stórkaupmanna um að leita eftir því við tollyfirvöld að innheimta gjald þetta í tolli.
    Framhald málsins var svo það eftir viðræður við fjmrn. að gefin var út reglugerð um innheimtu höfundaréttargjaldsins í tolli, reglugerð nr. 177/1989, sem ég hygg að sé sú reglugerð sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til. Þessi nýja tilhögun á innheimtu gjaldsins hefur verið í gildi frá því í apríl á þessu ári og er talin hafa skilað góðum árangri. Þó er framangreind reglugerð um innheimtu gjaldsins í endurskoðun, m.a. í ljósi þess að það virðist vera nauðsynlegt að finna nákvæmari skilgreiningu á einstökum tegundum mynd- og hljóðbanda sem ekki eru tök á að nota til einkaþarfa. Höfundaréttargjaldið og innheimta þess byggist sem sagt á skýrri lagaheimild höfundalaganna frá 1985 og ef sönnur eru færðar á það að myndböndin séu ekki notuð til upptöku vegna einkaþarfa, endurgreiðir Innheimtumiðstöð gjalda viðstöðu- og undanbragðalaust þetta gjald þegar um slíkt er að ræða. Ég vænti þess að hið síðastnefnda sé alveg skýrt og Innheimtumiðstöð gjalda standi að sínu leytinu til við lagaákvæði í þessu efni líka.

    Ég vænti þess, hæstv. forseti, að ég hafi svarað fsp. frá hv. 5. þm. Vesturl.