Kynningarrit í bókmenntum
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það vekur alltaf andstyggð mína þegar stjórnmálamenn taka sér það bessaleyfi að draga listamenn í flokkspólitíska dilka. Og ekki verð ég glaðari þegar listamenn láta draga sig í slíka dilka og ekki fundust mér orð hv. þm. Halldórs Blöndals góð þegar hann fór að telja upp hverjir hefðu hlotið náð fyrir augum þeirra sem skrifuðu bæklinginn. Engu betri fannst mér síðan listi hæstv. menntmrh. þegar hann fór að telja upp þá sem vantaði því að það vantaði ekki að þar voru flokkspólitískar merkingar sem hann tók sem dæmi um hvað þetta væri nú hlutlaus bæklingur.
    Ég ætla ekki að ræða hér um bæklinginn sjálfan eða hverjir ( Menntmrh.: Þetta er misskilningur hjá hv. þm.) Er það misskilningur? (Gripið fram í.) Já, mér er alveg ljóst hvað liggur að baki slíku mati og slíkri flokkun. Ég ætla ekki að gera hér að umtalsefni hverjir hljóta náð í slíkum bæklingi og hverjir ekki en ég vil benda á að það skiptir öllu máli þegar verið er að gefa út slík rit eða kynna okkar list á hvern veg sem það er, að þar komi margir við sögu. Ég vil taka dæmi sem ég þekki best og það eru skrif á erlendum tungum um leiklist. Það verður að segjast eins og er að það hefur verið í höndum eins manns sl. 20 ár. Með því er ég ekki að leggja mat á hans verk hvort þau eru góð eða vond, en hann hlýtur eins og allir aðrir að hafa eitthvert sérstakt sjónarhorn sem er það eina sjónarhorn sem komist hefur að sl. 20 ár. Þess ber að gæta í svona skrifum að sem flestir njóti sín og sem flestra sé getið.