Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Reykv. fyrir að bera þessa fsp. fram sem ekki er að ófyrirsynju. Lögin um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga voru sett á síðasta Alþingi og þegar fulltrúar sveitarfélaganna komu til fjvn. í haust, þá voru þessi mál gersamlega óljós fyrir þessum ágætu sendimönnum sveitarfélaganna víðs vegar af landinu. Enn er það svo að ekki hefur fengist sett reglugerð við lögin til þess að skýra hvernig þau eigi að framkvæma í mörgum atriðum.
    Nú er það svo að fyrir liggur vinna fjvn. að þessu máli vegna þess að fjvn. á að koma að uppgjöri á skuldum ríkisins vegna framkvæmda ríkis og sveitarfélaga frá fyrri árum. Meðan þessi mál eru öll eins óljós og fyrir liggur, þá verður það til þess að tefja þessa vinnu og e.t.v. hindra hana því að þær upplýsingar hafa verið gefnar, m.a. frá menntmrn., að verið sé að ræða við samtök sveitarfélaganna en lítið sem ekki farið að ræða við einstök sveitarfélög um þessi mál eins og nú standa sakir. Hins vegar verði sú vinna hafin nú og henni hraðað á næstu vikum og mánuðum. Meðan svo slælega er að verki staðið í þessum efnum, þá verður það að áteljast og ekki að ófyrirsynju, eins og ég hef hér þegar sagt, að fyrirspurnir um þetta mál komi hér fram á Alþingi.