Reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda þá voru fyrstu drög að reglugerðum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga kynnt þeim þingnefndum sem fjölluðu um frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga sl. vetur. Það var síðan strax í apríl sl. að þessi drög voru send til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Þessi reglugerðardrög voru nokkuð lengi til umfjöllunar hjá Sambandi sveitarfélaga eða þar til í lok september eða í um sex mánuði. Er það skiljanlegt vegna þess að hér er um mjög umfangsmikla og ítarlega reglugerð að ræða sem skiptir miklu máli fyrir sveitarfélög í landinu hvernig úr garði verður gerð.
    Frá því ráðuneytið fékk reglugerðardrögin aftur eftir umfjöllun Sambands sveitarfélaga, eða í lok september, hefur verið unnið að því að ganga frá reglugerðinni í ráðuneytinu. Nokkrar brtt. bárust frá Sambandi sveitarfélaga og nánari útfærsla á einstökum atriðum. Þessi mál hafa nú verið til skoðunar sl. 4--5 vikur í ráðuneytinu. Þessi reglugerð verður gefin út næstu daga og væntanlega í síðasta lagi um miðjan þennan mánuð. Ég geri mér ljóst, eins og reyndar kom fram í máli fyrirspyrjanda, að það er mikilvægt að þessi reglugerð verði sett hið fyrsta þannig að sveitarfélögin hafi svigrúm til þess að átta sig á innihaldi hennar áður en hún tekur gildi um næstu áramót.