Reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrir að koma fram með þetta mál hérna. Ég hef reyndar fyrir líklegast hálfum mánuði síðan lagt fram fsp. til hæstv. félmrh. þar sem ég fór fram á skriflegt svar varðandi einstaka þætti þessa máls. Það brennur mjög á smærri sveitarfélögum þar sem þannig hefur staðið á spori með framkvæmdir að þau hafa verið að ljúka stærri framkvæmdum á síðasta ári og þurft að fara á því ári verulega fram úr fjárveitingum. Það brennur mjög á þessum sveitarfélögum núna að fá svar við því hvernig ríkisvaldið hyggst standa að því að gera þessar framkvæmdir upp. Ég hef heyrt að það verði í gegnum Jöfnunarsjóðinn, í gegnum það sérstaka framlag sem á að fara til þess að styrkja framkvæmdir minni sveitarfélaga en menn hafa áhyggjur af því að hafa þetta ekki fast í hendi og eins að þessi upphæð sem þarna er til ráðstöfunar verði lág.