Skipulag á Hvaleyrarholti
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 65 hef ég beint fsp. til félmrh. um staðfestingu skipulags á Hvaleyrarholti sem hljóðar svo, leyfi með forseta:
,,1. Hvaða athuganir hafa farið fram vegna skipulags fyrir byggð á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði með tilliti til mengunar frá álbræðslu í Straumsvík?
    2. Hver er afstaða skipulagsyfirvalda til málsins?
    3. Hvaða viðbótarathugana er talin þörf áður en hægt er að taka afstöðu til skipulagsins?``
    Ég hef ætíð haft verulegar áhyggjur af mengunarhættu frá álverinu í Straumsvík, hvað þá heldur ef það á að byggja viðbótarálver á þessum sama stað.
    Í skýrslu Hollustuverndar ríkisins frá því sumarið 1986 kemur fram að mengunarvörnum var þá verulega ábótavant hjá álverinu í Straumsvík. Ekki veit ég hversu mikið er búið að gera síðan varðandi athuganir á mengun frá álverinu en þessi skýrsla er frá 1986.
    Í dagblaðinu Þjóðviljanum þann 3. október sl. er frétt á forsíðu um mengunarhættu. Það er talað um óvissa mengunarhættu á Hvaleyrarholti og þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Nú er í undirbúningi bygging á nýju íbúðarhverfi á Hvaleyrarholti og hafa spurningar vaknað um hvort ekki stafi hætta af álverinu í næsta nágrenni, sérstaklega ef ákveðið verði að stækka það.`` --- Síðar segir í þessu sama viðtali sem er við Gunnar Rafn bæjarritara: ,,Við eigum því alls ekki von á öðru en að fá skipulagið samþykkt af skipulagsstjórn ríkisins og bíðum einmitt eftir því nú.``
    Ég vildi þar af leiðandi leggja fram þessar spurningar til félmrh. varðandi það hvað almennt er gert þegar verið er að skipuleggja á þennan hátt og farið fram á staðfestingu skipulags vegna þeirrar hættu sem þarna getur stafað af stóriðjunni.