Skipulag á Hvaleyrarholti
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr um í þremur liðum atriði er varða staðfestingu skipulags á Hvaleyrarholti. Í fyrsta lagi er spurt um hvaða athuganir hafa farið fram vegna skipulags fyrir byggð á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði með tilliti til mengunar frá álbræðslu í Straumsvík.
    Því er til að svara að Hollustuvernd ríkisins hefur samið greinargerð um athugun á hugsanlegri mengun frá iðnfyrirtækjum í fyrirhugaðri íbúðarbyggð á Hvaleyrarholti. Greinargerðin var unnin fyrir bæjarskipulag Hafnarfjarðar. Heilbrigðis- og skipulagsnefndir Hafnarfjarðar hafa einnig haft til athugunar hugsanleg mengunaráhrif í byggð vegna reksturs núverandi og fyrirhugaðra iðnfyrirtækja við Straumsvík. Sem lið í þessum athugunum var Hollustuvernd ríkisins falið að gera grófa dreifingarútreikninga.
    Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði tóku nýlega í notkun mælistöð til að fylgjast með mengun frá álverinu í Hvaleyrarholti. Fyrst í stað er einungis mælt brennisteinstvíildi en mest ástæða er talin til að fylgjast með því efni. Síðan er ætlunin að hefja mælingar á fleiri mengunarefnum og á fleiri stöðum í bænum. Niðurstöður verða m.a. notaðar sem grundvöllur að hertum kröfum um mengunarvarnir ef þær gefa til þess tilefni. Þegar hefur verið ákveðið að fram fari ítarlegar athuganir á hugsanlegum mengunaráhrifum og annarri röskun lífríkis og að fyrstu niðurstöður liggi fyrir áður en ákvarðanir um framkvæmdir verða teknar.
    Reglulega hefur verið fylgst með flúormengun frá álverinu og hefur sérstök nefnd ríkisstjórnarinnar og Alusuisse annast framkvæmd þeirrar athugunar.
    Í öðrum lið fsp. er spurt um hver sé afstaða skipulagsyfirvalda til málsins. Skipulagsstjórn ríkisins hefur til umfjöllunar ósk bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um að hún afgreiði til staðfestingar félmrh. breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar sem er fólgin í því að á svæði sem ætlað var til íbúðarbyggðar eftir árið 2000 eða í lok skipulagstímabilsins verði íbúðarbyggð á yfirstandandi skipulagstímabili. Skipulagsstjórn ríkisins hefur enn ekki tekið endanlega afstöðu til þess hvort hún mælir með staðfestingu breytingarinnar.
    Í þriðja lagi er spurt hvaða viðbótarathugana er talin þörf áður en hægt er að taka afstöðu til skipulagsins.
    Að mati Hollustuverndar ríkisins þyrfti, áður en afstaða er tekin til skipulagsins, að liggja fyrir nákvæmari könnun á svæðinu án þess að sú könnun hafi verið skilgreind nánar. Heilbrigðis- og skipulagsnefndir í Hafnarfirði hafa þegar hafið fullkomnari könnun á svæðinu og mælingar, en fyrri könnun náði einungis til útreikninga á hugsanlegri mengun. Í framhaldi af því mun skýrsla um þá athugun verða lögð fyrir skipulagsstjórn ríkisins sem þá tekur afstöðu til þess hvort hægt sé, á grundvelli þeirra upplýsinga, að afgreiða málið til staðfestingar ráðherra.