Skipulag á Hvaleyrarholti
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Ég þakka ráðherra svörin og sé að það er reynt að taka á þessum málum og vona að það sé tekið tillit til mengunar þegar verið er að staðfesta skipulag. Þó svo að mengunarvarnir heyri að sjálfsögðu undir heilbrrh. og Hollustuvernd þá taldi ég samt rétt að beina þessum fsp. til félmrh. vegna þess að þarna er um að ræða staðfestingu skipulags. Ég lít á það sem mikið áhyggjuefni að það sé talin vera það mikil mengun, sérstaklega af brennisteins-díoxíði, að Hollustuvernd ríkisins hefur gert athugasemd við þá mengun. Hreinsunarbúnaður álversins í Straumsvík gerir ekki ráð fyrir hreinsun á brennisteins-díoxíði sem er verulegt áhyggjuefni því það er mengun sem þarf að hafa áhyggjur af svo sem af allri annarri mengun.
    Ég skora á félmrh. að taka þetta, í samvinnu við heilbrrh., föstum tökum og slaka ekki á neinum kröfum varðandi mengun vegna þess að það skiptir verulega miklu máli fyrir Hafnfirðinga að þarna sé ekki um neina óvissu að ræða vegna mengunarhættu. Talað er um að þarna verði framtíðaríbúðarhverfi Hafnfirðinga þar sem á að búa fjöldi fólks. Því má ekki vera nokkur vafi á að hættulaust sé fyrir fólk að búa þarna. Ég ítreka það að ég tel að áður en skipulagið er staðfest þurfi þetta að vera alveg ljóst og að ekki verði veittar neinar undanþágur að því er varðar mengunarvarnir.