Atvinnumöguleikar á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Rannveig Guðmundsdóttir:
    Virðulegi forseti. Í þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir er hreyft mikilvægu máli sem efling atvinnumöguleika fyrir konur á landsbyggðinni er og ég hef áhuga á að blanda mér í þá umræðu með hliðsjón af því hvernig ég tengdist málefninu í félmrn.
    Eins og fram hefur komið er ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um átak til að efla atvinnu fyrir konur í dreifbýli. Þessu ákvæði var á síðasta þingi fylgt eftir með samhljóða þáltill. og annarri þáltill. um úrbætur í atvinnumálum kvenna, sérstaklega hvað varðar starfsskilyrði þeirra sem starfa við iðnað, landbúnað og sjávarútveg á landsbyggðinni. Þá má einnig nefna að í norrænu samstarfsáætluninni á sviði jafnréttismála sem tekur til áranna 1989--1993 er gert ráð fyrir verkefnum sem snerta tækifæri kvenna í dreifbýli til þátttöku í atvinnulífinu.
    Á þeim tíma sem þessar þáltill. komu fram var starfandi óformlegur starfshópur í félmrn. um konur og rekstur fyrirtækja. Það mál hefur þróast í að verða eins konar samnorrænt verkefni og tengt ,,Brjótum múrana`` og var norræn ráðstefna um konur og rekstur fyrirtækja haldin á Helsingjaeyri í Danmörku í vor. Starfshópurinn stóð m.a. fyrir undirbúningi að þátttöku í þeirri ráðstefnu í samvinnu við verkefnisstjóra ,,Brjótum múrana`` og urðu þátttakendur af Íslands hálfu 14 og nutu styrkveitingar frá félmrn. og iðnrn.
    Þessi ráðstefna var hin fróðlegasta því að á Norðurlöndunum og reyndar á Vesturlöndum hefur mikil þróun átt sér stað í þessum málum. Á síðustu fimm árum hafa verið haldin mörg og mismunandi námskeið fyrir konur sem vilja stofna eða reka fyrirtæki. Sums staðar er konum boðinn sérstakur fjárstuðningur í því sambandi, en sums staðar er slíkur stuðningur líka bundinn því að viðkomandi hafi verið á atvinnuleysisskrá í ákveðinn tíma. Sérstök kvennahús hafa risið á vegum sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila þar sem konur geta leitað ráðgjafar, hlýtt á fræðsluerindi og jafnvel leigt atvinnuhúsnæði. Allt er þetta gert til að skapa nýja atvinnumöguleika, auka fjölbreytni í atvinnuframboði, vinna gegn byggðaröskun, auk þeirrar viðleitni stjórnvalda að styrkja stöðu kvenna á vinnumarkaði og í þjóðfélaginu.
    Starfshópurinn, þessi óformlegi, sem starfaði á vegum félmrn. eins og áður segir gerði tillögu til iðnrn. og félmrn. um skipun formlegs starfshóps til að móta tillögur um stefnu íslenskra stjórnvalda um sérstakar aðgerðir til stuðnings konum sem stofna og reka fyrirtæki, m.a. að afla upplýsinga um stuðning við konur sem reka fyrirtæki og kanna fjölda, stöðu og aðstæður þeirra kvenna sem stunda slíkan rekstur. Þessi tillaga ásamt þingsályktunartillögunum, sem ég hef áður lýst, komu allar fram um líkt leyti. Það var því skoðað í ráðuneytinu hvernig framgangur þessara mála gæti orðið bestur þar sem þessi mál eru öll mjög samtvinnuð.
    Haft var frumkvæði að fundi í febrúar sl. með fulltrúum frá iðnrn., landbrn., Byggðastofnun,

Stéttarsambandi bænda og Þjóðhagsstofnun þar sem þetta mál var til umræðu. Reyndar var fleiri fulltrúum boðið að taka þátt í fundinum en þeir áttu þess ekki kost að mæta.
    Þátttakendur þessa fundar voru sammála um að árangursríkast yrði að ráða starfsmann í 3--4 mánuði. Fyrst í stað yrði verkefni hans að safna saman upplýsingum um stöðu þessara mála og tillögur um meiri fjölbreytni í störfum kvenna í dreifbýli, þá ekki síst að kanna möguleika á fjárframlögum til að hrinda slíkum tillögum í framkvæmd, og hvaða stofnanir og sjóðir gætu síðar tengst verkefninu. Niðurstaðan varð að við félmrn. var ráðinn starfsmaður tímabundið í 3--4 mánuði til að sinna þessu verkefni og verður það kostað sameiginlega af iðnrn., félmrn.og landbrn.
    Þessar tillögur sem ég nefndi áðan ásamt fjölmörgum gögnum voru veganesti verkefnisstjórans sem ráðinn var, og er það Marta Jensdóttir sem áður starfaði hjá Iðntæknistofnun, en þar hefur einmitt verið unnið brautryðjendastarf fyrir konur í fyrirtækjarekstri og námskeið verið haldin víða um land. Og reyndar er staðreynd að fjölmargar konur hafa brotist í það að stofna eigin fyrirtæki í
erfiðri stöðu og gengið það mjög vel. Mun fleiri slík smáfyrirtæki eru í gangi, rekin af konum, en við gerum okkur grein fyrir þó að þegar við berum það saman sé hlutfall kvenna á móti körlum afskaplega rýrt.
    Verkefnisstjórinn sem ég greindi frá hefur frá því í sumar unnið í þessu verkefni, farið í ráðuneyti og stofnanir sem með einhverjum hætti tengjast verkefninu, auk þess sem hún hefur farið í alla landsfjórðunga, fjölda byggðarlaga í hverjum þeirra og átt fundi með sveitarstjórnum eða sveitarstjórnarmönnum, iðnráðgjöfum og áhugaaðilum ýmsum um nýbreytni í atvinnumálum kvenna. Það hefur komið í ljós að víða er verið að fást við þessi verkefni en skrefin eru mjög smá og ósamræmd. Það hefur líka komið í ljós að áhugi er mismikill úti um land á breytingum og að oft er það þannig að þar sem eitthvað er að gerast byggist það á áhugasamri konu eða konum á viðkomandi stað sem tekið hafa málið í sínar hendur. Það er full ástæða til að binda vonir við það verkefni sem félmrn. er að láta vinna núna og náðst hefur
samstaða um milli ráðuneytanna og það verður áhugavert að fylgjast með framvindu mála þegar skýrsla og tillögur verkefnisstjórans liggja fyrir, en það er von á að það verði núna næstu daga.
    Því segi ég að hver sem framvinda þeirrar till. til þál. sem hér liggur fyrir verður er það ákaflega þýðingarmikið að þessum málum er hreyft og þýðingarmikið að sameinast í átakinu um atvinnuuppbyggingu fyrir konur og sérstakan stuðning þeim til handa því eins og fram hefur komið er staða kvenna á vinnumarkaði um svo margt ólík stöðu karla og þó að konur hafi í mjög ríkum mæli haslað sér völl í atvinnulífinu og margar hverjar náð miklum árangri á sínu sviði og við lítum gjarnan til þess í umræðunni, þá verður ekki fram hjá þeirri staðreynd

komist að sá árangur hefur oft kostað annars konar fórnir. Konurnar í frumvinnslugreinunum eiga yfirleitt ekki kost á miklum frama og eiga þess ekki kost að skipta yfir í önnur störf og konurnar í dreifbýlinu eru enn verr settar með val. Því finnst mér það mjög ánægjulegt ef við getum sameinast um átak í þessum efnum.