Atvinnumöguleikar á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka kvennalistakonum fyrir að flytja þetta mál hér á Alþingi. Þetta er tillaga sem ég held að sé vel þess virði að við fylgjum eftir og sjáum til að fái þinglega meðferð nú í vetur og vilji Alþingis komi þar berlega í ljós.
    Ég hef eilítið fylgst með þeirri umræðu sem farið hefur fram um möguleika sem nútímatölvutækni gefur til þess að byggja upp atvinnulíf vítt og breitt um landið. Ég er þeirrar skoðunar að um allt land sé ungt vel menntað fólk, bæði karlar og konur, því mér hefur fundist þessi umræða hér bera nokkurn keim af því að vera einlit kvennaumræða, sem séu fullkomlega í stakk búin til þess að leiða starfsemi sem þessa og því þá heldur að þetta fólk vill í mörgum tilfellum ekkert frekar en geta stuðlað að eflingu atvinnulífs í sinni heimabyggð. Í öðru lagi, eins og hér hefur komið fram, er hér um atvinnu að ræða sem að mörgu leyti hentar mjög vel því fólki á landsbyggðinni sem erfiðast á með að fá atvinnu við sitt hæfi og mætir þeirri þörf sem oft hefur verið lýst sem dulbúnu atvinnuleysi.
    Ég ætla svo að lokum varðandi þessa umræðu að koma inn á einn þátt varðandi þetta mál. Það hefur mjög verið rætt um flutning ríkisstofnana út á land. Oftast hefur þeirri umræðu verið vísað til nefndar og í þeim nefndum hafa yfirleitt setið forstöðumenn viðkomandi stofnana og málið þar með sjálfdautt. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort þessi leið sé virkilega ófær, hvort ekki sé pólitískur vilji til þess að flytja ríkisstofnanir á þann hátt, því að margar þeirra eru þess eðlis að þær eru alveg eins vel komnar annars staðar eins og á höfuðborgarsvæðinu. Þarna hins vegar opnast kannski fyrir okkur möguleiki á að færa verulegan hluta af starfseminni út um land þó svo það verði að bíða betri tíma að höfuðstöðvarnar fylgi með. Og ég, eins og ég segi, geri mér miklar vonir um að einmitt starfsemi af þessu tagi geti komið slíku til leiðar.
    Þetta er það sem ég vildi koma á framfæri í þessari umræðu en ég ítreka að ég legg á það áherslu að þetta mál fái þinglega meðferð og við afgreiðum það til ríkisstjórnarinnar sem fyrst.