Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Tilefni þessarar utandagskrárumræðu eru fréttir nú í vikunni um uppsagnir 220 starfsmanna Slippstöðvarinnar á Akureyri. Þetta kemur í kjölfar þess að þar hefur starfsmönnum fækkað á skömmum tíma úr því að vera í kringum 300. Til viðbótar þessu er atvinnuöryggi fjölmargra annarra í skyldum iðnaði í hættu og síðast í morgun heyrðum við fréttir af uppsögnum fólks í skipasmíðaiðnaði í Stykkishólmi.
    Ég beini þessu máli mínu hér annars vegar til hæstv. fjmrh. sem fer með meirihlutaeign ríkisins í Slippstöðinni á Akureyri og hins vegar til hæstv. hagstofuráðherra sem ég vona að komi hér í salinn mjög fljótlega. Ég vil beina þessu til fjrh.: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að snúa við þeirri þróun sem nú er hjá Slippstöðinni á Akureyri sem líta má á sem nauðvörn til þess að skapa stöðu til að efla íslenskan skipasmíðaiðnað á ný?
    1. Er hæstv. fjmrh. tilbúinn til þess að beina verkefnum sem eru beint á vegum ríkisstofnana, svo sem Skipaútgerðar ríkisins, til innlendra skipasmíðastöðva?
    2. Er fjmrh. tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að stofnanir sem beint eða óbeint njóta stuðnings ríkisins, svo sem ferjufyrirtæki, beini fyrirhuguðum nýsmíðum til íslenskra skipasmíðastöðva?
    Það er jafnljóst að á tímum þegar að þrengir eins og núna, þá ber ríkisvaldinu að grípa til slíkra aðgerða eins og það er óskynsamlegt að grípa til slíkra aðgerða á þenslutímum.
    Ég vil í framhaldi af þessu undirstrika það að það er lífsnauðsyn fyrir innlendan skipasmíðaiðnað að hafa nýsmíðaverkefni og þarna tel ég að ríkið geti gripið inn í núna. Þessi nauðsyn hefur að vísu orðið til þess að fyrirtæki í þessum iðnaði hafa gripið til nýsmíða sem á stundum hafa orkað tvímælis.
    Ég vil í öðru lagi skora á hagstofuráðherra að við mótun atvinnustefnu sem nú fer fram á hans vegum verði þetta mál tekið upp sem sérverkefni. Í fyrsta lagi: Það verði mótuð stefna sem gangi út frá því að nauðsynleg endurbygging flotans fari fram innan lands eftir því sem kostur er og þar verði m.a. gripið til ráðstafana varðandi lánamál sjóðanna o.s.frv.
    Í öðru lagi vil ég að hann kanni sérstaklega hvernig standi á því að það er stöðugt aukin sókn í að flytja smærri sem stærri viðhaldsverkefni utan, úr landi og kanni hvað sé hæft í því að þar njóti menn betri kjara og betri lánafyrirgreiðslu eða trygginga frá íslenskum bankastofnunum.
    Að lokum vil ég í þessari umferð hér beina því til ríkisstjórnarinnar að nú er mjög rætt um stóriðju. Þar ræða menn um hlut innlends iðnaðar, innlends þungaiðnaðar við þá uppbyggingu og ég spyr: Hvaða innlendi þungaiðnaður, hvaða íslensku vélsmiðjur ef þær verða allar liðnar undir lok þegar að því kemur? Ég veit reyndar að við fáum tækifæri til þess að ræða þessi mál sérstaklega við iðnrh. nú eftir helgina.