Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Ég skal reyna að verða mjög stuttorður því að okkur gefst væntanlega tækifæri til að ræða þessi mál á mánudaginn á nýjan leik. En mig langar aðeins til þess að vekja athygli á því að það hefur komið fram hjá ýmsum forsvarsmönnum sjávarútvegsins í landinu að íslenskur skipasmíðaiðnaður sé ekki samkeppnisfær við erlenda skipasmíði. Þetta er rangt að mínum dómi vegna þess að ég hef í höndum tölur um að það er hægt að fá smíðað núna 300 tonna fiskiskip í íslenskum skipasmíðastöðvum fyrir innan við 300 millj. kr. Á sama tíma er verið að kaupa slík skip hjá erlendum skipasmíðastöðvum fyrir hærri upphæð eða rúmlega 300 millj. kr. Ég vísa því þar af leiðandi algerlega á bug að íslensk skipasmíði sé ekki samkeppnisfær. Það er því eitthvað annað sem er að og þar á ég við sjóða- og bankakerfið sem er ætlað að fjármagna skipasmíði. Hef ég í hyggju að fara rækilega ofan í þá sauma og mun það verða hluti af þeirri vinnu sem ég er núna að vinna þessar vikurnar um mótun nýrrar atvinnustefnu fyrir Íslendinga. Ég ætla skipasmíðaiðnaði og iðnaði tengdum sjávarútvegi verðugan sess í þeirri athugun.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er hægt að koma skipasmíðum í gang aftur á Íslandi. Um það bera vitni fjölmargar fyrirspurnir sem nú berast til íslenskra skipasmíðastöðva frá erlendum aðilum. Þar á ég t.d. við fyrirspurnir sem berast núna frá Arabalöndum sem mjög gjarnan vilja fá hlutdeild í þekkingu og reynslu Íslendinga af nútíma fiskveiðum. Þeir fulltrúar Arabalanda sem ég hef átt viðræður við segja að þeir hafi að rannsökuðu máli komist að þeirri niðurstöðu að það sé engin þjóð í heiminum sem eigi annan eins hátæknifiskveiðiflota og Íslendingar, kunni að reka slíkan fiskveiðiflota eins og Íslendingar og þar af leiðandi trúa þeir því að það sé engin önnur þjóð sem kunni að undirbúa og skipuleggja smíði slíkra skipa sem Íslendingar. Þetta eigum við að nota okkur en ekki láta útlendingum það einum eftir að mata krókinn á grundvelli reynslu okkar og þekkingar í sjávarútvegi.