Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. framsögumanni þessa máls fyrir það að hafa hafið þessa umræðu þó að hún byggist fyrst og fremst á því hvað gerst hefur á Akureyri, uppsögnum starfsmanna Slippstöðvarinnar þar. Hann nefndi einnig að þessir hlutir væru að gerast víðar og við vorum að frétta það núna um mánaðamótin að það væri verið að segja upp öllu starfsfólki skipasmíðastöðvarinnar Skipavíkur í Stykkishólmi. Og nákvæmlega sama blasir við innan stutts tíma í flestöllum skipasmíðastöðvum landsins, a.m.k. þeim sem að einhverjum hluta hafa byggt afkomu sína á nýsmíði.
    Við þingmenn Vesturlands vorum í fyrradag uppi á Akranesi og fengum þá þær upplýsingar þar að svipaðir hlutir blöstu við á Akranesi í hinni stóru skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts þegar því stóra verkefni sem hæstv. fjmrh. nefndi hér áðan væri lokið. Þar mundi ekki annað blasa við vegna verkefnaskorts en að segja starfsfólkinu upp að stórum hluta. Þetta er það sem blasir við í íslenskum skipasmíðaiðnaði í dag, ekki neitt sérstakt sem er að gerast á Akureyri og það er alveg rangt að tengja þá stöðu sem er á Akureyri við það að þeir hafi farið í þessa nýsmíði. Það getur gert hlutina að einhverju leyti erfiðari, en það er fyrst og fremst framtíðarverkefnaskortur sem þarna er orsökin.
    Ég segi það sem stjórnarsinni að mér finnst vera ansi langt í jafnvægið í íslenskum þjóðarbúskap ef það blasir við að jafnstór atvinnurekstur, undirstöðuatvinnurekstur eins og járniðnaðurinn í skipasmíðastöðvunum á að stöðvast. Það er allt annað en jafnvægi sem blasir við.