Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að kveðja sér hljóðs um þetta mál hér á Alþingi. Það er ömurleg staðreynd að skipasmíðaiðnaðurinn skuli eiga svo undir högg að sækja sem raun ber vitni og er fyllsta ástæða til að óttast að hann sé að líða undir lok hér á landi. Til að koma í veg fyrir að svo verði þarf að verða hér stefnubreyting, bæði af hálfu stjórnvalda og ekki síður af hálfu útgerðarmanna. Það geta ekki verið hagsmunir útgerðarinnar þegar til lengri tíma er litið að ekki verði neinn skipasmíðaiðnaður stundaður hér á landi.
    Því hefur verið haldið fram af talsmönnum útgerðarmanna að íslenskar skipasmíðastöðvar standist ekki samanburð. Er það fyrst og fremst nefnt að íslenskar stöðvar geti ekki boðið sömu kjör og þær erlendu. Þarna held ég því miður að dæmið sé ekki reiknað til enda.
    Alvarlegar fréttir eru það einnig að íslenskum skipsmíðastöðvum er ekki gefinn kostur á að vera með þegar nýsmíðaverkefni eru boðin út. Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Sigurður Ringsted, forstjóri Slippstöðvarinnar á Akureyri, með leyfi forseta:
    ,,Straumur innfluttra skipa er hins vegar mikill og einungis á þessu ári eru í smíðum í útlöndum skip sem samsvara um 10 ára afkastagetu Slippstöðvarinnar.``
    Hann segir einnig að vandi þeirra séu ekki óseld skip heldur verkefnaleysi og það er mjög mikil einföldun sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. hér áðan að vandamál skipasmíðastöðvarinnar á Akureyri séu vegna þess skips sem þar er í smíðum. Hann verður að líta aðeins betur á málið áður en hann fullyrðir svona.