Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Norðurl. e. nefndi að það væri stjórnvöldum að kenna hve illa væri komið fyrir skipasmíðum á Íslandi. Ég vil kannski taka dýpra í árinni. Ég held að hér sé um að kenna viðhorfi stórra hagsmunaaðila í þjóðfélaginu sem hafa engan áhuga á því að styrkja innlenda skipasmíði eða innlendan iðnað yfirleitt. Hér takast nefnilega á hagsmunahóparnir í þjóðfélaginu og það er sorgleg staðreynd að þessi 250 þús. manna þjóð sem hér býr getur ekki komið sér saman um það að snúa bökum saman og vinna sameiginlega að sínum vandamálum. Snúa sér að baráttunni gagnvart samkeppnisaðilunum erlendis í stað þess að berast á banaspjótum innan lands. Mig langar til að lesa hér byrjun á greinargerð varðandi verkefni sem hefur verið í undirbúningi núna í sumar og í vor, en það hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Nú um nokkurt skeið hefur staðið yfir athugun á hagkvæmni þess að breyta nokkrum stærstu fiskimjölsverksmiðjum landsins úr eldþurrkun yfir í svokallaða heitloftsþurrkun eða gufuþurrkun. Markmiðið með þessum breytingum er að þurrka mjölið við lægra hitastig og bæta mengunarvarnir og er það trú manna að betra mjöl fáist. Hér er um töluverða fjárfestingu að ræða og hafa heyrst tölur á bilinu 200--300 millj. á verksmiðju en sex verksmiðjur hafa verið nefndar í þessu sambandi. Gæti því verið um að ræða fjárfestingu upp á um það bil 2 milljarða kr.``
    Í frétt í Morgunblaðinu 2. sept. sl. er fjallað um þetta mál og þar er haft eftir Jóni Reyni Magnússyni, forstjóra Síldarverksmiðja ríkisins, að ekki sé í bígerð að leita tilboða í búnaðinn hér heima. Stærstu aðilarnir í járniðnaði hérlendis séu umboðsmenn fyrir erlenda aðila sem eru að smíða þessar vélar og ef við semdum við einhvern slíkan hlyti hann að flytja hann inn í stað þess að smíða hann á Íslandi. Því viljum við snúa okkur beint til erlendu aðilanna í stað þess að fara í gegnum milliliði hér heima. Það er þetta viðhorfsvandamál sem við eigum við að stríða hér, en ekki vandamál þess að stjórnvöld hafi ekki gert sitt af hverju.