Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Ingi Björn Albertsson: (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að fara fram á það að hæstv. hagstofuráðherra fái tækifæri til að svara þeirri spurningu sem ég bar hér fram líkt og hæstv. fjmrh. var gefið orðið á ný. Það eru mjög alvarlegar ásakanir, ef svo má að orði komast, sem hæstv. hagstofuráðherra lætur sér um munn fara í viðtali við dagblað í dag, þar sem hann segir, staðhæfir, að það sé engu líkara en áhrifamiklir menn innan ríkisstjórnarinnar ætli sér að láta þennan iðnað lognast út af. Þingheimur krefst svara við þessari spurningu. Hvað er ráðherrann að fara? Hvaða menn eru þetta sem vilja þennan iðnað feigan? ( Forseti: Ég vil spyrja hv. 5. þm. Vesturl. hvort hann geti ekki sætt sig við að spyrja þessarar spurningar næstkomandi mánudag, þegar umræða um þessi mál fer að nýju fram.) Hæstv. forseti. Það var gefið fordæmi fyrir því hér fyrir nokkrum mínútum að manni sem var búið að meina að tala í annað sinn var gefið orðið á ný. Ég sé persónulega ekkert því til fyrirstöðu að hæstv. ráðherra Hagstofu verði veitt tækifæri til þess að svara þessari spurningu. Ef hins vegar hæstv. ráðherra treystir sér ekki til þess á þessari stundu þá er ég tilbúinn að bíða til mánudags. ( Forseti: Ég vil benda hv. þm. á að ráðherra Hagstofu hefur ekki beðið um orðið og forseti mun ekki skipa honum að taka til máls. --- Óskar ráðherra Hagstofu að taka til máls? Þá er honum heimilt að hefja mál sitt.)