Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég skal með ánægju reyna að svara þessari spurningu. Ég hef nú ekki enn þá haft tækifæri til þess að lesa þetta viðtal en það er alveg rétt að ég gat um það að það væru þau viðhorf til innan ríkisstjórnarinnar að íslenskur skipasmíðaiðnaður ætti raunverulega ekki rétt á sér. Það eru að sjálfsögðu viðhorf sjávarútvegsins í landinu sem þar eru túlkuð og þarf ekkert að svara því nánar hverjir þar eru í forsvari. Það er alveg ljóst að sjávarútvegurinn telur að það svari ekki kostnaði að vera með innlenda skipasmíði. Sjávarútvegurinn vill fá að leita eftir hagstæðasta verði sem hann telur að fáist einungis erlendis. Þetta viðhorf túlka allir forsvarsmenn sjávarútvegsins og hæstv. sjútvrh. með.