Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Þótt hafa mætti mjög langt mál um ítarlega og merka ræðu hv. þm. þá skal ég reyna að stytta mitt mál, enda flestu beint til iðnrh. Ég skil vel áhyggjur hv. þm. af atvinnuástandi í ýmsum þjónustu- og samkeppnisgreinum hér á landi, en hins vegar þarf það ekki að koma mjög á óvart.
    Eins og a.m.k. óbeint kom fram í orðum hv. þm. þá hóf að halla mjög undan fæti á árunum 1987--1988 í þessum iðngreinum. Hann orðaði það svo að dregið hefði mjög úr skipasmíðum eftir þann tíma. Reyndar hef ég oft sagt að fastgengið á árinu 1987 og fram á mitt ár 1988 hafi orðið samkeppnisgreinunum og þjónustugreinunum langtum skaðlegra heldur en sjávarútvegi og fiskiðnaði því að fiskiðnaðurinn naut þó á þessum árum um það bil 15% hækkunar í verðmæti eins og þjóðhagstölur sýna og sanna. Sömuleiðis má vera ljóst að þegar samdráttur hefst í sjávarútveginum eins og verið hefur nú í tæp tvö ár, þá kemur það fyrr eða síðar niður á öllum greinum í hinu íslenska efnahagslífi. En það breytir ekki því að ég tek undir áhyggjur hv. þm. af ástandinu t.d. í skipaiðnaðinum og mörgum þjónustugreinum, og ég vil reyndar taka verslun inn í þá upptalningu, og ríkisstjórnin hefur vissulega um þau mál rætt.
    Spurningin er hins vegar sú hvort stjórnvöld hafa bolmagn til þess fjárhagslega að ráðast í eins víðtækar björgunaraðgerðir á þessum sviðum eins og gert hefur verið í útflutningsgreinum og mörgum samkeppnisgreinum. Ég þarf ekki að rekja það sem þar hefur verið gert. Menn þekkja það að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina mun þegar hann lýkur sínum störfum um áramótin hafa skuldbreytt um það bil 5,4 milljörðum kr. og veitt hagræðingarlán fyrir nálægt 1,1 milljarði kr. Sömuleiðis hefur Hlutafjársjóður Byggðastofnunar breytt í eigið fé eða samið um breytingar í eigið fé á ýmsum skuldum fyrirtækja sem hvað erfiðast stóðu sem munu verða eitthvað í kringum milljarð.
    Ég held að hv. þm. hafi nú hlotið að mismæla sig þegar hann sagði að þessi ríkisstjórn hefði verið skipuð til að halda uppi röngu gengi því að samkvæmt tölum Seðlabankans hefur gengi íslensku krónunnar verið breytt um nálægt 30% frá 28. sept. í fyrra svo að það er nú æðimikið meira en jafnvel hv. þm. taldi nauðsynlegt hér á haustmánuðum í mörgum athyglisverðum ræðum um stöðu atvinnulífsins. Reyndar kemur fram í tölum Seðlabankans að raungengið er núna komið töluvert niður fyrir það sem það hefur verið að meðaltali á þessum áratug, hvort sem er á grundvelli verðlags eða launa, og reyndar komið niður fyrir það sem það var 1987 og nálgast því mjög það sem það var 1986 þegar það var einna lægst. Það er því ekki nokkur vafi á því, og það kemur líka mjög glöggt fram í mati Seðlabankans, að samkeppnisstaða atvinnuveganna núna, útflutningsgreinanna, sé með því betra sem hún hefur verið á þessum áratug.
    Í þeim viðræðum sem voru við sjávarútveginn við

samningana var um það samið að byggt yrði á mati Þjóðhagsstofnunar. Nýjustu tölur Þjóðhagsstofnunar sem eru reyndar enn í ítarlegri skoðun segja að fiskvinnslan eða frystingin sé í plús núna um u.þ.b. 2% ef ég man rétt, frystingin hins vegar í mínus 2% eins og er, en fiskvinnslan í heild með jákvæða stöðu. Erfiðleikarnir eru fyrst og fremst á sviði bátaútgerðar þar sem er mjög mikill halli sem ekki verður leiðréttur með gengisbreytingu. Þvert á móti verka gengisbreytingarnar gegn afkomu á veiðum eins og ég veit að hv. þm. þekkir mjög vel. ( HBl: Þetta er nú algjör misskilningur hjá forsrh.) Misskilningur hvað? ( HBl: Að útflutningsatvinnuvegirnir ...) Útflutningsatvinnuvegirnir. Ég sagði bátaútvegur. Ég sagði bátaútvegur og veiðarnar almennt, að afkoma þeirra fellur eða versnar með lækkun gengis. Það er enginn að tala um rangt gengi. Það væri gaman að vita hvað hv. þm. telur að þurfi að fella gengið mikið enn. Hann nefndi að vísu engar tölur áðan, en það er best að ég spyrji hann að því. Ég vil leyfa mér að halda því fram að þessi lækkun raungengis hafi tekist mjög vel og ég vísa í tölur Þjóðhagsstofnunar því til sönnunar að eins og um var talað þá er afkoma þessara greina komin upp fyrir núllið að mati Þjóðhagsstofnunar.
    Hv. þm. ræddi svo sérstaklega um skipaiðnaðinn, enda eru þar miklir erfiðleikar. Ég vek athygli á því að 1986 voru samþykkt í ríkisstjórn á mánuðunum ágúst/september ákveðin tilmæli til sjóða landsins og annarra sem að þessum málum koma og ég ritaði þá bréf þar um, með leyfi forseta, og hljóðaði samþykktin þannig:
    ,,Opinberum sjóðum verði tilkynntur sá vilji ríkisstjórnarinnar að leita skuli tilboða innan lands um endurbætur og viðhald fiskiskipa og samanburður gerður á slíkum tilboðum og erlendum og þau metin á viðskiptalegum grundvelli áður en lánveitingar eru ákveðnar. Lögð verði áhersla á það við viðskiptabankana að bankaábyrgðir vegna skipasmíðaverkefna innan lands verði sambærilegar við þær sem veittar eru þegar verkefnin eru unnin erlendis.``
    Ég skal ekki segja hvort þetta bar tilætlaðan árangur því að á árinu 1987 virðist svo, því miður, sem áhugi sjávarútvegsins á því að láta byggja skip
innan lands hafi mjög minnkað. Að sjálfsögðu tengist það því fasta gengi sem hér var haldið á árinu 1987 og fram á 1988. Skipasmíðarnar verða stórum síður samkeppnisfærar við þær aðstæður. Sýndar hafa verið hér í fjölmiðlum m.a. mjög athyglisverðar tölur um þessa þróun. Það er á þessum tíma sem skipasmíðar innan lands falla.
    Í þessu sambandi, af því að hv. þm. talaði um þær umræður sem urðu hér um þingsköp, það voru þingsköp og ekki efnislegar umræður sem hérna voru sl. fimmtudag. Ég tel afar erfitt að ræða slík mál undir þingsköpum. Hæstv. sjútvrh. hefur hvað eftir annað sagt að íslenskur sjávarútvegur geti ekki borið eða tryggt skipasmíðaiðnaðinum næg verkefni hver sem verðmunur kann að vera innan lands og erlendis

og ég trúi nú varla öðru en hv. þm. geti verið sammála því. Það er ekki hægt að leggja það á íslenskan sjávarútveg sem verður að keppa með framleiðsluvörur sínar á erlendum mörkuðum við þær veiðar m.a. sem þá byggja á skipasmíðum við allt annað verð, þannig að vitanlega verður að gera skipasmíðaiðnaðinum kleift að keppa eftir öðrum leiðum. Og af því að hv. þm. nefndi t.d. smíði ferjunnar til Vestmannaeyja, þá, ef ég man þær tölur rétt, var tilboð Slippstöðvarinnar 1600 millj. eða um það bil, tilboð Norðmanna um 1100 og tilboð Pólverja 900. Þetta er að sjálfsögðu gífurlegt umhugsunarefni. Vilja þeir sem nota ferjuna til Vestmannaeyja greiða þennan mun eða á að taka hann úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar? Ég spyr.
    Stjórnvöld hafa í gegnum árin fellt niður öll þau gjöld sem hvíla á skipaiðnaðinum þannig að ekki verður því um kennt ef hann er ekki samkeppnisfær.
    Ég held að sú staða sem er nú upp komin stafi fyrst og fremst af þrennu: Því fasta gengi sem þarna var um tíma. Mikil hækkun í launum varð einnig á þeim tíma. Kaupmáttur jókst um u.þ.b. 25% og sömuleiðis gífurlega mikill fjármagnskostnaður hér innan lands. Fyrst og fremst eru það þessir liðir sem þarf að lagfæra og þeir stefna nú allir í rétta átt.
    Hv. þm. spurði hvort þessi mál væru á borði ríkisstjórnarinnar. Sannarlega. Þau hafa bæði verið rædd þar og eru til meðferðar hjá þeim ráðherrum sem fjalla um þessi mál og mun verða fjallað um þau á borði ríkisstjórnarinnar. ( HBl: Sagði þá ráðherra Hagstofu rangt? Hann sagði: Þessi ríkisstjórn var mynduð þegar Borgfl. kom í hana. Hann segir að þessi mál hafi ekki verið rædd í ríkisstjórninni.) Þessi mál eru í meðferð hjá þeim ráðherrum sem með málin fara, þau hafa verið rædd á fundum ríkisstjórnarinnar. Það kann vel að vera að það hafi verið áður en ráðherra Hagstofu kom í ríkisstjórnina en þau verða þar svo sannarlega til umræðu.
    Hv. þm. spurði hvort aðgerðir væru væntanlegar. Í fyrsta lagi vil ég ítreka það sem samþykkt var 1986 og ganga betur frá því þá en áður að íslenskir bankar og sjóðir framkvæmi það sem þá var samþykkt. Það er í fullu gildi. Í öðru lagi vil ég nefna það að við þurfum að gæta þess betur en við höfum gert að eðlilegir viðskiptahættir séu hér tíðkaðir. Hér hafa verð nefnd fjöldamörg dæmi um t.d. útboð verkefna þar sem erlendir aðilar hafa síðan í gegnum sína umboðsmenn lækkað tilboðsverð á afar óeðlilegan máta að mínu mati. Ég tel að íslenskir bankar og íslenskir sjóðir hljóti að forðast að taka á nokkurn máta, beint eða óbeint, þátt í slíkri starfsemi.
    Í raun tel ég að sú deild, sem nú er hjá Verðlagsstofnun sem á að fylgjast með því hvort viðskiptahættir séu eðlilegir, þurfi að styrkjast og það mjög mikið og það þurfi að sjálfsögðu að beina þangað sem flestum upplýsingum og kvörtunum um óeðlilega viðskiptahætti. Ég tel að slíkar aðgerðir kunni að bæta nokkuð úr. Hinu er þó ekki að neita að eftir samdráttarskeið í sjávarútvegi, eins og t.d. 1967--1968, þá er æðihætt við því að skipaiðnaðurinn

verði þolandinn. Árið 1971, ef ég man rétt, kom ríkisvaldið inn í Slippstöðina sem eignaraðili og nú eru skipasmíðastöðvarnar mikið fleiri og ég vil segja það hér að ég tel afar óæskilegt að svo þurfi að vera á ný.
    Hv. þm. talaði líka um það að þessi ríkisstjórn haldi uppi ýmsum óeðlilegum höftum og óeðlilegum viðskiptaleiðum í þessu frelsi sem við búum nú í og ég veit að hv. þm. meinar það og einmitt með tilliti til slíks, þá þarf að athuga það mjög vandlega hvað við getum gengið langt í styrkjum t.d. við innlendan iðnað. En ég vil fullvissa hv. þm. um það að þessi ríkisstjórn mun skoða allar leiðir til að koma til liðs við ekki aðeins skipasmíðaiðnaðinn heldur við ýmsar þær þjónustugreinar sem eiga í miklum erfiðleikum. Það verður að draga úr þeim erfiðleikum eins og frekast er unnt, en það mun aldrei verða hægt eftir gífurlega fjárfestingu á árunum 1987--1988 að koma í veg fyrir að mörg fyrirtæki verði jafnvel gjaldþrota. En úr því mun verða reynt að draga eins og frekast er unnt og fyrst og fremst og þá ekki síst með samstarfi --- þetta er ekki hlátursefni, hv. þm. Það eru því miður fjölmargir einstaklingar sem eiga um sárt að binda í þessum málum. Og ef hv. þm. telur það hlátursefni, þá er það rangt. ( Gripið fram í: Það er málflutningurinn, forsrh., sem var hlátursefni.) Það er ekki málflutningurinn heldur því að ég er að lýsa hér þessum erfiðleikum sem þarna eru á mörgum sviðum og vilja stjórnvalda til að lina þá erfiðleika eins og frekast er unnt. Það mun verða gert með samstöðu
eða tilraun til að ná samstöðu við banka og sjóði um þessi mjög erfiðu mál. Hins vegar hafa stjórnvöld ekki það fjármagn sem þyrfti til þess að setja í víðtækar skuldbreytingar á öllum sviðum viðskipta og þjónustu.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég hef þegar ítarlega rakið hér hvernig stefnir í rétta átt á fjölmörgum sviðum, alveg sérstaklega á sviði útflutningsgreinanna. Ég hef áður rakið, og kemur það greinilega fram í þjóðhagsáætlun, hvernig stefnir í rétta átt með viðskiptajöfnuð hér á landi í fyrsta sinn í nokkur ár sem er afgangur af vöruskiptum sem verulegu nemur, líklega um 6 milljörðum kr. þegar upp er staðið. Ég hef líka áður farið vandlega yfir breytingar á raungengi sem er náttúrlega gífurlega til hagsbóta
fyrir útflutningsgreinarnar og alls ekki verður neitað hvað sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar sýnist um það.
    Ég hef hér líka rakið hvernig náðst hefur betra jafnvægi í peningamálum heldur en áður hefur verið í þessu þjóðfélagi sl. tvö ár eða frá 1986. Það er því allt sem bendir til þess að það verði langtum betri forsendur til að taka á þessum málum nú þegar lokið er þessari aðlögun fyrir sjávarútveginn heldur en áður hefur verið og ríkisstjórnin er ákveðin í að nota þá stöðu sem nú er orðin til að hefja nýja framfarasókn á öllum sviðum atvinnulífsins.