Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Ég held að þessi umræða sem hér fer fram um atvinnumál sé mjög tímabær því það er ekkert launungarmál að það eru ýmsir erfiðleikar í atvinnulífi á Íslandi og sjálfsagt og eðlilegt að taka þá til umræðu á hinu háa Alþingi og reyna að leita leiða til að bæta hér úr.
    Þegar ríkisstjórnin var mynduð 10. sept. sl. var lögð á það áhersla að unnið skyldi að því að móta nýja atvinnustefnu og reyna að leita leiða til þess að treysta íslenskt atvinnulíf og renna styrkari stoðum undir ýmiss konar atvinnurekstur á Íslandi.
    Á vegum forsrn. hefur verið skipuð atvinnumálanefnd sem er skipuð fulltrúum atvinnulífsins en það er gert samkvæmt sérstöku samkomulagi sem var gert við aðila vinnumarkaðarins í tengslum við gerð kjarasamninga sl. vor. Þá hefur mér sem ráðherra Hagstofu Íslands verið falið samkvæmt sérstöku erindisbréfi ríkisstjórnarinnar að leiða þá vinnu að móta nýja atvinnustefnu og leita allra leiða til þess að varpa fram nýjum hugmyndum og skilgreina hver eru vandamál íslensks atvinnulífs í dag. Í því skyni hef ég skipað starfshóp mér til aðstoðar til þess að leita nýrra leiða og velta upp nýjum hugmyndum sem gætu komið að gagni við mótun nýrrar atvinnustefnu fyrir Íslendinga.
    Það má segja að stóra nefndin sé fyrst og fremst með það verkefni að skilgreina rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs en það hefur reyndar komið fram í umræðunum nú þegar að auðvitað er það aðalatriðið að íslenskur atvinnuvegir búi við sambærileg rekstrarskilyrði og samkeppnisstöðu og atvinnuvegur nágrannalandanna. Það er auðvitað alveg ljóst að atvinnufyrirtæki á Íslandi sem byggja afkomu sína á útflutningi og/eða samkeppni við innfluttar vörur eiga sér ekki langra lífdaga auðið nema þau búi við hliðstæð rekstrarskilyrði og sambærileg fyrirtæki erlendis. Þess vegna hlýtur það að sjálfsögðu að verða aðalatriði fyrir stjórnvöld á hverjum tíma að tryggja það að þessi rekstrargrundvöllur og þessi samkeppnisskilyrði séu sem best og sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum.
    Nú er það alveg ljóst að við getum ekki reiknað með því að móta nýja atvinnustefnu sem byggir eingöngu á því að innleiða nýjar hugmyndir í atvinnulífinu. Það hlýtur að vera lykilatriði að treysta þá atvinnuvegi sem við höfum fyrir og sem hafa í raun verið aðalatvinnuvegir þjóðarinnar um aldaraðir, þ.e. sjávarútvegur og landbúnaður. Á þeim byggir nú þrátt fyrir allt þjóðlíf á Íslandi, þó svo að það sé að sjálfsögðu kærkomið í hvert sinn sem við finnum nýjar hugmyndir sem geta komið til viðbótar því sem við höfum fyrir. Þess vegna hlýtur það að vera hvað mikilvægast í þessari athugun sem fer fram að rannsaka hver er rekstrargrundvöllur hinna hefðbundnu atvinnugreina, þ.e. sjávarútvegsins og landbúnaðarins.
    Margir hafa velt því fyrir sér hvort við eigum einhverja framtíð fyrir okkur í matvælaframleiðslu á sviði landbúnaðar. Því miður hefur gengið ákaflega

illa að koma landbúnaðarafurðum á markað erlendis. Er þar að sjálfsögðu skýringin sú að landbúnaður á Íslandi á mjög erfitt uppdráttar. Skilyrði til landbúnaðar á Íslandi eru miklu óhagstæðari en gerist í landbúnaðarlöndunum í kringum okkur þar sem veðurfar og gróðurfar er miklu hagstæðara. Það er því út af fyrir sig ekki nema eðlilegt að við eigum erfitt með að keppa við háþróaðan landbúnað nágrannalandanna. Engu að síður búum við yfir ýmsum möguleikum í landbúnaði sem ég held að megi skoða betur og gera að útflutningsvöru. En það getur verið að það þurfi að fara ótroðnar slóðir í þeim efnum og er sjálfsagt að rannsaka allar slíkar leiðir ef þær finnast. T.d. hefur þeim hugmyndum verið varpað fram að það megi reyna að þróa framleiðslu á tilbúnum réttum, þannig að í staðinn fyrir að reyna að selja lambakjötið í heilum skrokkum megi framleiða hér tilbúna rétti, þá væntanlega í samvinnu við stórar erlendar matvæladreifikeðjur, því ég held að við getum gert okkur það ljóst að við Íslendingar munum ekki eiga auðvelt með að koma slíkri framleiðslu á markað í nágrannalöndunum, komast inn á hinn stóra markað Evrópubandalagsins nema við gerum það í samvinnu við þær stóru erlendu matvælakeðjur sem þar eru að verki. Mér hefur verið tjáð að það séu allar líkur á því að það muni líklega myndast aðeins tvö til þrjú risafyrirtæki sem muni annast alla matvæladreifingu á markaði Evrópubandalagsins eftir 1992. Það segir sig því alveg sjálft að ef við ætlum eitthvað að þreifa fyrir okkur þar þá verðum við að gera það í samvinnu við slík fyrirtæki.
    Alveg sömu sögu er að segja um sjávarútveg. Það má spyrja hvort fiskvinnslan sé komin inn á blindgötu. Hefur eðlileg þróun ekki átt sér stað þannig að í staðinn fyrir að framleiða hér einvörðungu frysta þorskblokk, svo dæmi séu tekin, þá hefði mátt halda lengra og þróa enn fremur tilbúna rétti til útflutnings.
    Að sjálfsögðu, eins og ég gat reyndar um í upphafi máls míns, eru það rekstrarskilyrðin og samkeppnisskilyrðin sem e.t.v. eru aðalatriðin. Því var það að við myndun stjórnarinnar 10. sept. sl. var lögð á það áhersla að tekin skyldi upp annars konar gengisskráning en hingað til hefur verið viðhöfð, þ.e.
að nú skyldi gengið eftirleiðis skráð þannig að tekið sé meira tillit til afkomu útflutningsfyrirtækja og fyrirtækja í samkeppnisiðnaði og hugað að því að viðhalda jákvæðum viðskiptajöfnuði við útlönd. Þetta er dálítið frábrugðið því sem áður hefur gerst því að því miður hefur það verið tilhneiging hér á undanförnum árum að líta á gengisskráninguna sem kaupmáttaratriði. Út af fyrir sig er það vel skiljanlegt að menn vilji reyna að halda sem mest föstu gengi til að vernda kaupmáttinn, en það er alveg ljóst eins og þróunin var á árunum 1987 og fram á mitt ár 1988 að það var algjörlega á kostnað útflutningsframleiðslunnar og þá spyrja menn: Hvernig fara launþegar út úr því að útflutningsatvinnuvegirnir séu lagðir í rúst til þess að vernda kaupmátt þeirra? Ég hef lýst því áður að þetta sé á alþýðumáli kallað að pissa í skóinn sinn. Ég held ég geti endurtekið það að það hlýtur að vera

hagsmunamál launþega að hér séu traust og góð fyrirtæki í útflutningsframleiðslu sem hafi viðunandi rekstrargrundvöll. Ef það tekst þá mun launþegum þessa lands vegna vel.
    Í stjórnarsáttmálanum er enn fremur vikið að því að gert skuli sérstakt átak til að efla íslenskan iðnað og sérstaklega skuli hugað að iðnaði í tengslum við sjávarútveg. Ég er sjálfur ekki í nokkrum vafa um það að þar eigum við mikla möguleika vegna þess að í gegnum tíðina höfum við Íslendingar aflað okkur mikillar reynslu og þekkingar í sjávarútvegi. Ég held að það sé ekkert ofsagt að við Íslendingar búum ef til vill yfir hvað mestri þekkingu á hátæknifiskveiðum og fiskvinnslu. Það er orðið svo víða erlendis að þjóðir, sem lítt hafa sinnt fiskveiðum og sjávarútvegi fram til þessa og eru að hugsa sér til hreyfings á þeim vettvangi, hafa gert sér það ljóst að hingað er hægt að sækja mikla þekkingu og reynslu á þessu sviði. Þess vegna eru nú mjög algengar fyrirspurnir frá löndum víða úti í heimi sem hafa leitað eftir því að fá hlutdeild í þessari þekkingu og þessari reynslu Íslendinga. M.a. er athyglisvert að það er mikil vakning í Arabalöndum, en þau hafa lítt sinnt fiskveiðum og útgerð til þessa. Nú virðist svo vera að Arabalöndin ætli í stórum stíl að halda út í nútíma sjávarútveg, þ.e. nútíma fiskveiðar þar sem beitt verði hátæknifiskveiðiskipum eins og við þekkjum. Þessir aðilar hafa kynnt sér þessi mál mjög rækilega og komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar búi sennilega yfir hvað mestri þekkingu og reynslu á þessu sviði og þess vegna hafa þeir leitað hingað og spurst fyrir um með hvaða hætti þeir geti fengið hlutdeild í þessari þekkingu. Ég tel að hér sé um mjög jákvæða þróun að ræða og sjálfsagt að fylgja því eftir og athuga hvort við getum með einhverjum hætti komið þessari þekkingu á markað erlendis, gert hana að söluvöru.
    Hér hefur mikið verið fjallað um skipasmíðaiðnaðinn. Út af fyrir sig tel ég og hef reyndar haldið því fram að þróunin nú allra síðustu mánuðina sé með þeim hætti að íslenskur skipasmíðaiðnaður sé aftur orðinn samkeppnisfær og geti keppt við t.d. norskar skipasmíðastöðvar á jafnréttisgrundvelli, jafnvel þótt norsku stöðvarnar séu enn þá ríkisstyrktar. Það mun enn þá vera svo að norska ríkið greiði niður kostnað skipasmíða í Noregi um 20%. Þrátt fyrir þessa niðurgreiðslu tel ég að íslenskar skipasmíðastöðvar geti nú keppt við norskar stöðvar.
    Verð fer nú mjög hækkandi í öllum skipasmíðastöðvum Evrópu. Þannig hef ég spurst fyrir um það hjá dönskum, norskum og hollenskum skipasmíðastöðvum að verð fer hækkandi nánast mánaðarlega. Það er talað um að orðið hafi um 20--40% verðhækkun á nýjum fiskiskipum í skipasmíðastöðvum í þessum löndum. Á sama tíma hefur orðið veruleg raungengislækkun íslensku krónunnar sem hefur að sjálfsögðu styrkt samkeppnisstöðu íslenska skipasmíðaiðnaðarins þannig að ég er ekki í nokkrum vafa um það að á þessari

stundu geta Íslendingar vel keppt við stöðvar í þessum nágrannalöndum okkar. Það kann vel að vera að enn sé hægt að fá tilboð í smíði nýrra fiskiskipa á svokölluðum láglaunasvæðum eins og í Portúgal og Póllandi, sem við getum ekki keppt við, en þá vaknar spurningin hvort gæðin séu viðunandi fyrir íslenskan sjávarútveg.
    Ég hef haldið því fram að sjávarútvegurinn hafi haft neikvæð viðhorf til íslenska skipasmíðaiðnaðarins og ég hef ekkert breytt þeirri skoðun minni. Ég tel að svo sé, því miður, og það er auðvitað verkefni okkar að ræða við fulltrúa sjávarútvegsins og reyna að breyta þessum viðhorfum. Ég held kannski að þau geti að nokkru leyti verið byggð á misskilningi og það þurfi því að eyða þessum misskilningi. Ef til vill væri möguleiki að gera það með þeim hætti að þessir aðilar töluðu meira saman og ættu fundi um það með hvaða hætti hægt væri að afla sem hagstæðastra og bestra tilboða í nýsmíði fiskiskipa.
    Eitt sem ég hef mikið velt fyrir mér er að íslenskar skipasmíðastöðvar hefðu getað útvegað útgerðarmönnum mun lægra verð á nýjum fiskiskipum en þeir hafa sjálfir getað aflað með því að leita til stöðva, við skulum segja í Portúgal og Póllandi. Þannig var gerður samstarfssamningur milli skipasmíðastöðvarinnar Stálvíkur í Garðabæ og egypskrar skipasmíðastöðvar í Ismalíu í Egyptalandi, en sú stöð er dótturfyrirtæki Súezskipaskurðarfélagsins og er mjög traust og tæknilega fullkomin. Það verð sem Stálvík býður á nýjum fiskiskipum skv.
íslenskum teikningum er langt undir því verði sem íslenskir útgerðarmenn hafa verið að semja um við skipasmíðastöðvar í Portúgal og Póllandi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að með því að fara þá leið að fela íslenskum skipasmíðastöðvum að leysa verkefni af hendi sem þær gætu þá látið vinna í samvinnu við slíka skipasmíðastöð erlendis, verkinu yrði stýrt frá Íslandi og öll tæknileg undirbúningsvinna og innkaup á búnaði væri undir íslenskri verkstjórn í hinni erlendu skipasmíðastöð, væri langtum betri kostur heldur en að vaða í blindni til portúgalskra og pólskra skipasmíðastöðva og þurfa svo að horfa upp á þann harmleik sem gerðist hér í sumar þegar skipasmíðastöðvar í Portúgal lýstu því yfir að ef þær fengju ekki 30% hækkun á smíðatíma, þá færu þær hreinlega á hausinn og skipin yrðu aldrei kláruð. Þessu varð Fiskveiðasjóður að kyngja. Það eru svona atriði sem ég vil láta taka til frekari athugunar og ég er ekki í nokkrum vafa um það að það má eyða þessum misskilningi og þessari tortryggni sem ríkir milli útgerðarmanna og fulltrúa málm- og skipasmiðja.
    Varðandi önnur atriði, þ.e. annan iðnað í tengslum við sjávarútveg, þá hefur þó gerst margt jákvætt á undanförnum árum. Hér hafa risið nokkur myndarleg fyrirtæki sem hafa staðið fyrir nýsköpun í iðnaði í tengslum við sjávarútveg. Nægir þar t.d. að nefna fyrirtæki eins og Marel sem framleiðir tölvuvogir sem vakið hafa athygli um allan heim, fyrirtækið Meka sem framleiðir mjög fullkominn fiskvinnslubúnað sem líka hefur vakið mikla athygli. Þá er lítið fyrirtæki

sem nefnist Kvikk, sem hefur þróað hausaskurðarvél sem eftir langa þróun er nú loksins fullbúin og mér er tjáð að hafi verið prófuð núna nýlega. Það hefur tekist að komast fyrir alla barnasjúkdóma sem einkenndu þessa vél í byrjun og við eigum e.t.v. þar mjög merkilegt tæki sem erlendir aðilar gætu haft mikinn áhuga á. Mér er kunnugt um að aðilar í Alaska hafa sóst eftir því að fá að kaupa þessa hugmynd og nýta hana til að kljúfa laxahausa í þeim sjávarútvegi sem þar fer fram og byggist á miklum veiðum á Kyrrahafslaxinum.
    Eins má minna á fyrirtækið DNG á Akureyri sem framleiðir tölvustýrðar handfærarúllur sem er líka dæmi um nýsköpun í iðnaði í tengslum við sjávarútveg. Ég held að á þessu sviði eigum við mikla möguleika og þarna ber okkur að gera stórt átak, að reyna að skapa þessum fyrirtækjum hagstæðari rekstrarskilyrði og hlúa að þessum atvinnurekstri sem hefur verið að myndast á undanförnum árum.
    Mig langar svo að koma inn á eitt atriði hér að lokum, en það er peninga- og fjármálarekstur. Það hafa margir aðilar velt því fyrir sér hvort Íslendingar geti átt einhver verkefni á þessu sviði í tengslum við alþjóðlegan fjármálamarkað. Það eru að gerast stórir hlutir á þessu sviði og með nýtísku fjarskiptum og tölvuboðum er í raun og veru orðið nokkuð sama hvar stofnanir á þessu sviði eru staðsettar. Ég verð að segja eins og er að Ísland er kannski landfræðilega séð sérstaklega ákjósanleg miðstöð fyrir fjármálamenn sem hingað vildu koma og t.d. ljúka samningum og öðrum fjármálaviðskiptum. Með því að heimila erlendum bönkum að reka hér skrifstofur sem fengju að ganga frá ýmsum viðskipta- og peningasamskiptum þannig að erlendir aðilar mættu koma hingað til þess að ljúka slíkum samningum, en þessar stofnanir hefðu að öðru leyti ekki nein tengsl við íslenska efnahagskerfið, þá mætti e.t.v. laða hingað mikinn hóp ferðamanna. Það yrði auðvitað að túlka það svo að þeir kaupsýslumenn sem hingað kæmu, bæði frá austri og vestri til þess að ljúka slíkum samningum, kæmu á öllum tímum árs og yrðu kærkomin viðbót við þá ferðamenn sem landið sækja heim að öðru leyti.
    Þeir sem fyrst og fremst hafa gagnrýnt svona hugmyndir hafa talið að þetta gæti leitt til þess að hingað kæmu vandræðafjármunir, svo sem fjármunir vegna eiturlyfjasölu og glæpastarfsemi. En það er mjög auðvelt að koma í veg fyrir það með einfaldri lagasetningu því að sjálfsögðu þyrfti þessi starfsemi sem önnur að starfa undir íslenskum lögum. Með því t.d. að vera með undantekningarákvæði þess efnis að ef grunur sé á að þeir samningsaðilar sem hingað kæmu til þess að gera slíka samninga ættu yfir höfði sér dóm vegna einhverra afbrota sem þeir hefðu orðið uppvísir að í öðrum löndum, þá yrði upplýsingaskyldu aflétt. Þetta er mér talið af bankamönnum að nægi til þess að hingað mundu aldrei koma þeir fjármunir sem við viljum ekki að gisti landið okkar. En þessi hugmynd er nú aðeins sett hér fram til þess að sýna að það er hægt að velta fyrir sér ýmsum hugmyndum og ýmsum leiðum til þess að auka fjölbreytni í

íslensku atvinnulífi og það er náttúrlega það fyrst og fremst sem við eigum að gera hér á hinu háa Alþingi. Við eigum að hjálpast að því öll að velta fyrir okkur nýjum leiðum og nýjum hugmyndum en ekki að vera í þessu stanslausa karpi og níði hver um annan.