Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Fyrir helgi urðu fjörlegar umræður utan dagskrár um skipasmíðaiðnaðinn, stöðu hans og framtíðarhorfur. Nú er umræðuefnið víðtækara þar sem rætt er almennt um horfur í helstu atvinnugreinum landsmanna. Það er ekki undarlegt þó að slík mál beri á góma í þingsölum þar sem útlitið er vægast sagt skuggalegt á mörgum sviðum.
    Höfuðverkefni hæstv. ríkisstjórnar er að treysta grundvöll atvinnulífsins, stöðu landsbyggðarinnar og undirstöðu velferðarríkis á Íslandi, að því er segir í málefnasamningi hennar frá 28. sept. 1988. En nú slær haustfölva á hina grænu bók. Þar sem þær umræður sem nú fara fram eru í beinu framhaldi af umræðunum á fimmtudaginn var er ekki úr vegi að ræða nokkuð um skipasmíðarnar og iðnaðinn almennt áður en vikið er að öðrum atvinnuvegum og þeim skilyrðum sem þeim eru búin og boðið er upp á af stjórnvöldum.
    Bátasmíði er gömul iðngrein hér á landi. Það hefur þótt fara vel á því að þjóð sem á allt sitt undir því að vel aflist gæti sjálf gert við og smíðað skip sín. En nú stendur innlendur skipaiðnaður mjög höllum fæti og fréttir berast af uppsögnum starfsmanna.
    Á Vesturlandi hefur skipasmíðastöðin Skipavík hf. í Stykkishólmi sagt upp öllum starfsmönnum sínum 35 að tölu. Það hefur verið traust og gott fyrirtæki, nú rúmlega 60 ára að aldri að stofni til. Að undanförnu hafa verkefni þess aðallega verið fólgin í viðgerðum og breytingum auk smíða á tækjum fyrir sjávarútveginn, svo sem skelvinnsluvélum. Nú eru fá og smá verkefni fram undan.
    Vélsmiðjan Þorgeir og Ellert hf. á Akranesi hefur verið rekin áratugum saman með miklum myndarbrag. Þar hafa mörg skip verið smíðuð og tekist á við stór verkefni. Þar er nú verið að ljúka við smíði nýrrar Breiðafjarðarferju. Horfur þar eru svipaðar og annars staðar í þessari iðngrein þó að ekki hafi enn komið til almennra uppsagna á starfsfólki.
    Á síðustu árum hafa margir verið uggandi um örlög innlendrar skipasmíði. Þau mál hafa oft verið rædd. Minnst hefur verið á ályktun Alþingis frá 6. maí sl. þar sem ríkisstjórninni er falið að tryggja að allra leiða verði leitað til að efla og bæta samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar og sporna við því að skipaiðnaðarverkefni fari úr landi. Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1990 segir að í framhaldi af þeirri heildarúttekt sem gerð hafi verið á íslenskum skipasmíðaiðnaði hafi nefnd starfað á vegum iðnrn. við að framfylgja þeim tillögum sem þar komu fram um endurskipulagningu þessa iðnaðar. Hér er um hina svonefndu Appledore-skýrslu að ræða frá því í maí 1989 sem fjallar um athugun á íslenska skipasmíða- og skipaviðgerðariðnaðinum með tilliti til stefnumörkunar. Í þessari skýrslu koma fram ýmsar ábendingar og tillögur. Þar er a.m.k. ekki talinn álitlegur kostur að leyfa þessari iðngrein að hnigna, eins og þar er orðað, hvað þá heldur að leggjast niður eða lognast út af og deyja drottni sínum.

    Nú er 43. iðnþingi Íslendinga nýlokið. Yfirskrift þingsins var að þessu sinni ,,Íslenskur iðnaður --- íslensk framtíð``. Ályktanir þingsins hafa væntanlega verið sendar öllum alþingismönnum til kynningar. Þar er þess getið m.a. að iðnaðurinn hafi vaxið hægar en efni stóðu til og margir gerðu sér vonir um fyrir tveimur áratugum. Iðnaðurinn gegni engu að síður undirstöðuhlutverki í íslenskum þjóðarbúskap. En samkeppnishæfni atvinnulífsins verði ekki viðhaldið nema atvinnulífið tileinki sér nýja tækni, ný vinnubrögð og nýja þekkingu á hverjum tíma. Bent er sérstaklega á þá alvarlegu staðreynd að staða iðnnáms hafi líklega aldrei verið lakari en einmitt nú. Í grunnskólum verði að leggja ríka áherslu á að kynna nemendum atvinnulífið snemma og koma verði í veg fyrir að iðnnám sé blindgata. Með betri menntun tryggjum við betri framkvæmd, segja forustumenn iðnaðarins.
    Í morgun barst mér í hendur bréf frá Málm- og skipasmiðasambandinu sem ég ætla að flestir alþingismenn hafi fengið í hendur. Þar hljóðar fyrsta málsgrein svo, með leyfi forseta, það er ályktun um atvinnumál:
    ,,Atvinnuástand og framtíðarhorfur í málmiðnaði eru nú með þeim hætti að þegar í stað þarf aðgerðir í stað orða ef koma á í veg fyrir varanlegt atvinnuleysi með öllu því böli og félagslegu vandamálum sem því fylgir.``
    Og síðar í dag barst bréf frá Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja. Kafli úr því hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Auk þess aðstöðumunar sem skipaiðnaðurinn býr við miðað við erlendar stöðvar sem bent er á í fréttatilkynningunni er greinilegt að sveiflur í fjárfestingu í útgerð eru eitt stærsta vandamálið. Holskeflur í fjárfestingu þar sem tíu ára fjárfestingu er lokið af á tveimur árum með tilheyrandi verkefnaskorti í kjölfarið er ekki einungis vandamál innlends skipaiðnaðar heldur alls atvinnulífs í landinu, þar á meðal sjávarútvegs. Innlendur málmiðnaður hefur t.d. allt frá aldamótum búið við sveiflur í fjárfestingu í útgerð, fiskvinnslustöðvum, frystihúsum, fiskimjölsverksmiðjum og virkjunum. Stjórnmálamenn geta haft töluverð áhrif á bæði ofangreind atriðin.
    Það er von félagsins að sú umræða sem nú fer fram í sölum Alþingis sé
upphafið að atvinnustefnu sem eigi eftir að snúa þessari óheillaþróun við. Innlendur skipaiðnaður fer ekki fram á annað en jafna samkeppnisaðstöðu. Félagið hefur ítrekað bent á ýmsar leiðir til úrbóta, en viljann til aðgerða hefur vantað.``
    Sé horft til annarra sviða atvinnulífsins, svo sem landbúnaðar, þá eru þar þrengingar miklar og vandleyst mál á ferðinni. Og að því er sjávarútveginn varðar, þá hefur ekki hjá því farið að vandi hans hefur verið ræddur að undanförnu, m.a. á nýafloknu fiskiþingi sem fjallaði um stjórnun fiskveiða ásamt mörgum öðrum stórmálum.
    Út um allt land eru erfið mál á döfinni í öllum helstu atvinnugreinum landsmanna. Víða riðar

atvinnurekstur til falls. Fari svo að hann hrynji er byggðinni hætt við hruni í kjölfarið og raunar öruggt að allt fer á einn veg. Sums staðar hefur Byggðastofnun orðið að liði og Atvinnutryggingar- og Hlutafjársjóður hafa skotið út bjarghring --- hvað sem slík björgun dugar lengi, það er annað mál. En vandinn hefur allra síst verið leystur til frambúðar. Takmarkið hlýtur að vera það að móta heilbrigð og traustvekjandi almenn skilyrði sem unnt er að búa við í nútíð og nánustu framtíð. Það er og á að vera keppikefli þeirra stjórnvalda sem vilja láta gott af sér leiða og til sín taka.
    Virðulegum ráðherrum fer einkar illa að eyða dýrmætum ræðutíma og verðmætum vinnustundum í það að reyna að kenna öllum öðrum en sjálfum sér um hvað eina sem farið hefur úrskeiðis á síðustu tímum. Þeir þurfa umfram allt að hafa þor og getu til að horfa fram á veginn. Það sem miður hefur til tekist er sjálfsagt mörgum að kenna. ,,Við þurfum að stöðva eyðsluna í þjóðfélaginu,,, segir Einar Oddur. ,,Takist ekki að stöðva eyðsluna er óhugsandi að finna megi viðunandi rekstrargrundvöll fyrir framleiðsluna í landinu. Það gerist ekki öðruvísi en að þjóðin öll sem heild nái að sjá hlutina í réttu ljósi og laga síðan að þeim veruleika sem við búum við eins og þjóðirnar í kringum okkur gera.``
    Í þessum orðum er mikill sannleikskjarni fólginn. En hvað sem því líður eru úrræðin og úrslitavaldið í höndum hæstv. ríkisstjórnar á hverri tíð. Þar, á þeim bæ, er að sjálfsögðu á margt að líta. Það vannst að vísu óvæntur skyndisigur á verðbólgunni hérna um árið, en því má ekki gleyma að hún var í 25% sl. ár og verður varla lægri að meðaltali á þessu ári. Það verður erfitt að fást við lausn brýnustu efnahagsmála meðan sú ,,bólga`` mælist í tveggja stafa tölu. Hvað um það, þeir sem völdin hafa verða að duga eða láta hendur fallast og gefast upp að öðrum kosti.