Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Eggert Haukdal:
    Virðulegi forseti. Þessi umræða um atvinnumál er í framhaldi af umræðu í síðustu viku um vanda skipasmíðaiðnaðarins, en í þeim iðnaði blasa við stórfelldar uppsagnir og atvinnuleysi og sömu söguna má raunar segja allt of víða úr íslensku atvinnulífi, enda ekki góð ríkisstjórn í landinu. En þegar skyggnst er um og skoðað hvað er að í íslensku efnahagslífi er það vissulega margt, en ekki síst er það vantrúin á öllu sem íslenskt er sem ræður ferðinni um of hjá þeim sem völdin hafa. Og sá hugsanagangur smitar út í þjóðlífið. Í þeirri umræðu segja ýmsir: Við eigum að flytja allt inn erlendis frá, ódýr skip, ódýrar iðnaðarvörur, ódýrar landbúnaðarvörur, jafnvel hætta að draga fisk úr sjó og falla í náðarfaðm Efnahagsbandalagsins og opna fyrir þeim landhelgina. Einu sinni sagði þó skáldið og þau orð eiga enn við:

Ef þjóðin gleymir sjálfri sér
og svip þeim týnir er hún ber
er betra að vanta brauð.

    Til stuðnings orðum mínum um vantrú ráðamanna á íslenskum atvinnuvegum vil ég nefna meðferðina á hinni ágætu tillögu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar um bætta samkeppnisaðstöðu innlends skipasmíðaiðnaðar sem hér hefur verið rædd. Þessi tillaga var samþykkt samhljóða á síðasta þingi. Hv. 2. þm. Norðurl. e. las tillöguna hér í umræðunni svo að ég skal ekki endurtaka hana. En þótt slíkar tillögur séu samþykktar hér á Alþingi hefur framkvæmdarvaldið, ráðherrarnir, ekkert með þær að gera og virða þær einskis. Slíkt eykur ekki virðingu Alþingis og ráðherra frekar en ýmislegt annað sem nú er svo að segja daglega í fréttunum héðan af hv. Alþingi.
    En í sambandi við tillögu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar um skipasmíðaiðnaðinn vil ég vitna í bréf frá vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar til þingmannanefndar um íslenskan iðnað, ritað í mars sl. Það er gott vitni um ástandið. Með leyfi forseta:
    ,,Frá upphafi,,, segir fyrirtækið, ,,höfum við framleitt togvindur í yfir 440 fiskiskip og jafnan staðist strangar kröfur sjómanna okkar, enda ávallt samkeppnisfærir, bæði hvað varðar verð og gæði. Á undanförnum árum hefur því miður dregið úr þessari framleiðslu. Ekki hefur dugað að bjóða góða vöru á hagstæðu verði því að erlendir aðilar hafa jafnan boðið hagstæðari lán og lækkað sín verð niður fyrir okkar. Þetta hefur keyrt um þverbak á tveimur síðustu árum þegar hlutverk okkar á þessum markaði hefur helst verið að halda erlendum verðum niðri, sem er gott svo langt sem það nær, en við lifum ekki á því. Á síðasta ári hefur að auki bæst við að Fiskveiðasjóður hefur verið lokaður jafnvel traustustu fyrirtækjum en allt virðist standa á gátt ef um ný skip eða viðgerðir erlendis er að ræða.`` Og í lokin segir fyrirtækið í bréfi sínu: ,,Við teljum okkur hafa stóru hlutverki að gegna við að framleiða vindur og þjóna

íslenska fiskiflotanum varðandi vindur. Í þessu máli er e.t.v. það sama uppi á teningnum og oft áður varðandi íslenskan iðnað, en það er hugarfarsbreyting: Veljið íslenskt.``
    Svo mörg eru þau orð.
    Annað dæmi úr iðnaðinum. Til stuðnings orðum mínum um vantrú ráðamanna vil ég geta þess að 1980 var samþykkt þáltill. um innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum frá þeim sem hér talar, svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir, í samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga, að fram fari athugun á því eftir hvaða leiðum sé unnt að auka verulega frá því sem nú er innkaup ríkis, sveitarfélaga og stofnana og fyrirtækja þeirra, er leiði til eflingar íslenskum iðnaði, og útboð verði notuð á markvissan hátt til að stuðla að iðn- og vöruþróun í landinu.``
    Ef opinberir aðilar vildu ganga á undan með góðu fordæmi, þá hefði samþykkt þessarar tillögu gert gagn, en því er ekki að heilsa að svo sé.
    Með leyfi forseta, úr grg. þessarar tillögu:
    ,,Staðreynd er að það er á ýmsum öðrum sviðum sem mögulegt ætti að vera að hafa áhrif á innkaup er varða hag íslensks iðnaðar. Umsvif fjármála ríkis og sveitarfélaga eru mikil í þjóðarbúinu. Auk þess sem útgjöld opinberra aðila hafa bein áhrif á heildareftirspurn í þjóðarbúskapnum getur markviss beiting þeirra reynst mikilvægt tæki til áhrifa á einstakar atvinnugreinar, ekki síst á hagræna og tæknilega framþróun íslensks iðnaðar.`` Og síðar í grg., með leyfi forseta: ,,Flutningsmaður tillögu þessarar vill minna á samþykkt sem gerð var fyrir nokkrum árum í borgarstjórn Reykjavíkur um innlend innkaup, þar sem sú stefna er mörkuð í innkaupum að heimilt sé að taka tilboði innlendra aðila fram yfir erlendra þótt verð hinnar innlendu vöru sé allt að 15% hærra en gæði sambærileg. Flutningsmaður telur nauðsynlegt að slík regla eða svipuð verði tekin upp fyrir öll opinber fyrirtæki og er eðlilegt að slíkt verði metið í tengslum við þá athugun sem hér er lagt til að fram fari.``
    Það er um þessa tillögu að segja eins og hina fyrri að hæstv. ráðherrar virða þær lítt.
    Alþingismenn hafa í dag fengið bréf frá Málm- og skipasmiðasambandinu. Í ályktun frá þeim segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Uppsagnir 400--500 starfsmanna hjá Stálvík, Slippstöðinni á Akureyri og Skipavík, Stykkishólmi, á sama tíma og verið er að smíða skip erlendis fyrir um tvo milljarða á þessu ári eru ljós dæmi um það aðgerðarleysi sem stjórnvöld hér á landi sýna íslenskri atvinnugrein. Samtök launþega og vinnuveitenda í málmiðnaði hafa um árabil bent á og lagt fram tillögur um jöfnun samkeppnisaðstöðu íslensks málmiðnaðar við erlenda samkeppnisaðila. Þrátt fyrir fögur orð og yfirlýsingar ríkisstjórnar og ráðherra ásamt samþykktum Alþingis hefur nánast ekkert verið gert.``
    Málm- og skipasmiðasambandið hefur einnig ályktað að smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju, Herjólfs,

fari fram innan lands. Sams konar ósk liggur fyrir frá Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja.
    Ljóst er að innlend smíði má vera verulega hærri en erlend og er samt þjóðhagslega hagkvæm. Þetta verkefni, smíði nýs Herjólfs, gætu skipasmíðastöðvarnar í landinu sameinast um. Væri nú ekki rétt fyrir stjórnvöld að athuga þetta? Væri þetta ekki góð byrjun í að hverfa af villu síns vegar?
    Virðulegi forseti. Þegar menn á landi hér ræða um efnahagsmálavandann og atvinnumálin er þeim gjarnt að segja: Það er verðbólgan sem hér er að verki. Við höfum hátt kaupgjald og dýra peninga vegna verðbólgunnar en ekki verðbólgu vegna hás kaupgjalds og dýrra peninga. Það er undarleg meinloka margra að sjá ekki sambandið þarna á milli. Þó var mönnum a.m.k. í eina tíð ljóst að til var nokkuð sem hét kaupgjalds- og verðlagsskrúfa. Þeim gengur verr að skilja að sama máli gegnir um fjármagn sem vinnu. Þegar vextir hækka samkvæmt lánskjaravísitölu eykst framleiðslukostnaður, þá vöruverð, þá kaupkröfur og svo koll af kolli. Við höfum vaxta- og verðlagsskrúfu. Hún hefur verið í gangi í átta ár og hún er mun öflugri verðbólguvaldur en hin skrúfan og er að leggja atvinnulífið í rúst, sbr. þá umræðu sem hér fer fram. Það stafar af því að sérhver hækkun lánskjaravísitölu kemur fram í hliðstæðri prósentuhækkun allra útistandandi skulda fyrirtækja og heimila. Nú er svo komið í kjölfar gjaldþrota og greiðslustöðvana að við blasir hrun sjóða og jafnvel bankakerfisins vegna vanskilanna. Vanskilin stafa af því að boginn hefur verið spenntur of hátt, lántakendum gert að greiða meira en þeir fá risið undir.
    Það er unnt að lifa við verðtryggingu peninga með einu skilyrði. Aðra þætti hagkerfisins verður að tryggja líka. Kaupgjald verður að hækka til samræmis svo launþegar geti staðið í skilum og gengi krónunnar verður að leiðrétta mánaðarlega við hverja hækkun lánskjaravísitölu svo að útflutningurinn og samkeppnisiðnaðurinn fái borið sig. Að öðrum kosti fáum við hrun eins og nú er orðið en bestu hagfræðingar sögðu fyrir um það löngu áður. Ef við viljum í
alvöru hætta að búa við verðbólgu og þar með taka upp eðlilegt atvinnulíf verður óhjákvæmilega og afdráttarlaust að afnema lánskjaravísitöluna. Þetta mætir mótstöðu einnar stéttar í þjóðfélaginu, þeirra sem hagnast hafa á háum vöxtum og afföllum á verðbréfum á svonefndum gráa markaði. Þar eru eigendur ,,pappírsauðs`` sem Gunnar Tómasson hagfræðingur nefndi svo réttilega. Þeir ríghalda í lánskjaravísitöluna og fast gengi. Eina tilslökunin af þeirra hálfu fæst gegn því að við opnum fjármagnsmarkaðinn sem þeir orða svo, þannig að þeir geti komið pappírsauðnum í erlendan gjaldeyri, verðbréf og fasteignir.
    Þetta á að gera undir því yfirskini að við þurfum sem fyrst að aðlagast EB. Slíkt írafár, að sameinast EB, átti sér stað í byrjun 7. áratugarins. Þá mælti Bjarni Benediktsson í ræðu 1. desember, sem var útvarpað, á þá leið að eðlilegt væri, með leyfi forseta:

,,að við hikum við að láta EB í té úrslitaáhrif yfir nokkrum þáttum efnahagsins.`` Svo mörg voru orð Bjarna Benediktssonar. Því miður nýtur forustu hans ekki núna en við skulum muna orð hans.
    En má ekki spyrja, nú þegar við ræðum atvinnuvandamálin, hvað er EB? Það er bandalag nokkurra Mið-Evrópuríkja um sameiginlegan markað sem verndaður er og einangraður með háum tollmúrum. Þar er ekki verið að fjarlægja viðskiptahömlur heimshluta á milli í þágu friðar sem var meginhugsjón eftirstríðsáranna og Alþjóðabankinn var stofnaður til að stuðla að. Þýskaland er öflugasti aðilinn innan bandalagsins og reyndar allsráðandi.
    Hvernig ætla eigendur pappírsauðsins íslenska að breyta auði sínum í erlendar innstæður þegar enginn gjaldeyrir er til í landinu? Aðeins með einu móti, þ.e. sölu fyrirtækja okkar í hendur útlendinga og afsali á efnahagslegu sjálfstæði.
    Verðbólga og ranglega skráð gengi eru að eyðileggja ekki aðeins útgerð og fiskvinnslu, heldur allan samkeppnisiðnað okkar, m.a. ullariðnaðinn, svo og annan iðnað sem getur ekki keppt við innfluttar vörur sem keyptar eru með of hátt skráðu gengi. Sama gildir um landbúnaðinn. Nýleg könnun á verði búvara virðist benda til að búvörurnar séu ekki samkeppnisfærar, en þær verða það um leið og rétt gengi er skráð. Þetta vil ég undirstrika og jafnframt að við horfum á það sem íslenskt er í þeim efnum sem öðrum. Því kemur frekari
innflutningur landbúnaðarvara ekki til greina.
    Virðulegi forseti. Þyrfti ekki að snúa sér meira að því að ná fríverslunarsamningi við Bandaríkin heldur en að einblína á EB? Ekki ásælast þau íslenska landhelgi.
    Mín ráð eru þau að við leggjum ekki á flótta inn í erlent markaðsbandalag, heldur leggjum til atlögu við efnahagsvandann með þjóðarhag einan að markmiði, treystum grunn atvinnuveganna sem stendur undir allri verðmætasköpun og vinnum bug á verðbólgunni. Fyrsta skrefið í þá átt er afnám lánskjaravísitölu, eins og ég hef flutt frumvarp um tvö ár í röð.