Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Sigríður Lillý Baldursdóttir:
    Ég vil hefja mál mitt á því að þakka málshefjanda. Það er ekki vanþörf á að ræða þessi mál hér en ég vil minna á að á síðasta þingi fóru oft fram umræður um atvinnu- og efnahagsmál utan dagskrár og það var heldur ekki að óþörfu en leiddi því miður lítið af sér.
    Enn standa þm. hér og reyna að átta sig á atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar en með endurnýjaða ríkisstjórn og nýja ráðherra sem eiga að móta atvinnustefnu erum við litlu nær um hvað nánasta framtíð ber í skauti sér.
    Samkvæmt nýjum stjórnarsáttmála mun ætlunin að vísu vera sú að fylgja ,,framsækinni atvinnustefnu``, eins og þar segir orðrétt, með leyfi forseta. Það hefði verið fróðlegt að fá að heyra hér í hverju sú stefna er fólgin, en því miður.
    Í mínum huga hlýtur framsækin atvinnustefna fyrst og fremst að felast í nýjum hugmyndum sem bjóða upp á fjölbreytilega möguleika en taka um leið tillit til mannlífs og umhverfis. Hver er hugmyndaauðgin? Jú, hún birtist okkur fyrst í því að tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar skipuðu sína nefndina hvor til að fjalla um atvinnumál og mótun atvinnustefnu. Það er auðvitað alveg ófært að konum skuli ætluð svo lítil hlutdeild að þessu starfi sem raun ber vitni og reyndar hefur áður komið fram. Stóraukin atvinnuþátttaka kvenna og þörf vinnumarkaðarins fyrir þeirra framlag hlýtur um leið að þýða aukna hlutdeild þeirra í stefnumótun í atvinnumálum og á vinnumarkaðinum almennt og það hefði ríkisstjórn, sem kennir sig við jafnrétti, átt að vita.
    Vil ég í þessu sambandi minna enn og aftur á fyrirheit hæstv. ríkisstjórnar um að gera sérstakt átak í atvinnumálum kvenna í dreifbýli.
    Á ráðstefnum okkar í Kvennalistanum um atvinnumál kvenna í dreifbýli hefur verið athyglisvert að heyra hversu hugmyndaríkar og frjóar konur eru og hvernig þær hugsa sér atvinnuppbyggingu sem hefur í fyrirrúmi samvinnu og tillit til aðstæðna kvenna. Það er lykilatriði þegar rætt er um búsetuþróun landsbyggðarinnar að hlustað verði á hugmyndir kvenna og tillit tekið til þeirra. Á landsfundi Kvennalistans fyrir rúmri viku báru konur á Norðurlandi fram þá hugmynd að innan Byggðastofnunar væri komið á sérstakri kvennadeild sem eingöngu beitti sér fyrir því að styðja konur sem vilja skapa sér atvinnu vítt og breitt um landið. Ekki er eingöngu gert ráð fyrir fjárhagslegum stuðningi heldur ekki síður ráðgjöf til að meta hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd. Þessi hugmynd fellur vel að hugmyndum um hið sérstaka átak í atvinnumálum kvenna og munum við kvennalistakonur fylgja henni eftir, eftir þeim leiðum sem færar eru.
    Sl. fimmtudag var mælt hér fyrir till. þingkvenna Kvennalistans til þál. um nýja atvinnumöguleika á landsbyggðinni og í till. felst að kannað verði á hvern hátt nota megi nýja tölvu- og fjarskiptatækni til að flytja ýmis verkefni stofnana og fyrirtækja út á landsbyggðina. Till. hlaut mjög jákvæðar undirtektir

þeirra hv. þm. sem áttu þess kost að sitja fund í Sþ. þennan morgun og urðu mjög góðar umræður um atvinnumál landsbyggðarinnar.
    Í skýrslu byggðanefndar þingflokkanna kemur fram að á árunum 1981--1984 urðu 3 / 4 hlutar nýrra starfa til á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi.
    Í nýjasta yfirliti vinnumálaskrifstofu félmrn. frá 9. okt. kemur fram ískyggilegt atvinnuleysi víða um landið og alls staðar, að Austfjörðum einum undanteknum, eru konur í meiri hluta atvinnulausra og því ljóst að grípa þarf til sérstakra aðgerða í þágu kvenna. Auk skráðs atvinnuleysis er alltaf nokkuð dulið atvinnuleysi meðal kvenna. Tölur sýna að um 40% búa í landbúnaði eru svo smá að þau bera aðeins eitt ársverk en hjón reka þó flest þeirra, þ.e. tveir einstaklingar, en karlmaður er gjarnan talinn fyrir búinu. Sveitakonur láta ekki skrá sig atvinnulausar og það gera heldur ekki þær konur sem um þessar mundir eru búnar að koma börnum sínu á legg og væru tilbúnar til þess að fara út á vinnumarkaðinn en hafa ekki verið þar.
    Í yfirliti vinnumálaskrifstofunnar kemur ekki fram aldursgreining hinna atvinnulausu en af tölum um atvinnuleysi á Akranesi, en þar hefur atvinnuástandið verið dapurlegt allt þetta ár, má lesa að af 137 atvinnulausum þar í bæ eru 119 konur og 77 þeirra eru undir 50 ára aldri, þ.e. á hápunkti starfsævinnar. Það er einnig dapurlegt að sjá að nú er svo komið að ungt fólk, innan við tvítugt, stendur frammi fyrir því að fá ekki atvinnu. Þannig eru nú tugir ungmenna á aldrinum 16--20 ára skráðir atvinnulausir á Akranesi.
    Ég nefni þessar tölur hér til fróðleiks til þess að gera þingheimi grein fyrir að hér er ekki aðeins um að ræða atvinnuleysi eldri kvenna sem jafnvel væru tilbúnar til að hætta vinnu sem oft hefur verið fleygt, heldur er þetta líka orðið vandamál meðal unga fólksins, yngstu árganganna sem koma út á vinnumarkaðinn.
    Stóraukin atvinnuþátttaka kvenna og breytt staða þeirra í fjölskyldunni skiptir miklu í þróun byggðamála og er löngu tímabært að taka mið af þeirri staðreynd. Þær skjóta því óneitanlega skökku við hugmyndir ríkisstjórnarinnar sem beinast í þá átt eina að auka stóriðju hér á suðvesturhorni landsins. Hún
mun væntanlega kosta okkur og börnin í þessu landi ómældar erlendar skuldir vegna virkjana. Hún mun menga hina dýrmætu auðlind sem landið er okkur og hún eykur ekki fjölbreytni atvinnulífsins, hún leysir á engan hátt atvinnumál landsbyggðarinnar og síðast en ekki síst er hún langt frá því að vera liður í því að gera verulegt átak í atvinnumálum kvenna sem karla. Sérstaklega ef til lengri tíma er litið og okkur líðst ekki nærsýni, hvorki í atvinnuuppbyggingu né öðru.
    Það hefur viljað brenna við í ákefð okkar Íslendinga við að byggja upp nútímaþjóðfélag að við höfum undir forustu stjórnvalda farið offari við uppbyggingu nýrra atvinnugreina. Það má nefna dæmi eins og t.d. loðdýrarækt og nú síðast fiskeldi. Fullyrði ég að við værum betur stödd nú ef varfærni kvenna

hefði komið nærri þegar ákvarðanir um stórkostlega uppbyggingu í þessum greinum voru teknar og ýtt var undir fólk að takast á við nýjar greinar án þess að nokkrar kröfur um faglega þekkingu væru gerðar.
    Ferðaþjónusta er sú hinna nýju atvinnugreina sem einna best hefur tiltekist með og er þar fyrst og fremst að þakka samstarfi og þrautseigju margra þeirra sem að ferðamálum vinna.
    Hæstv. forsrh. hefur að undanförnu talað fjálglega um alla þá möguleika sem sú atvinnugrein getur gefið okkur. Eru þær yfirlýsingar hans þó í litlu samræmi við langvarandi fjársvelti Ferðamálaráðs sem lögum samkvæmt á að sinna mörgum og mikilvægum verkefnum en hefur þó aldrei fengið hið lögbundna framlag til starfsemi sinnar. Á þessu ári fékk ráðið aðeins um 20% af lögboðnu framlagi sínu og ekki er að sjá á því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir að geta Ferðamálaráðs til að sinna sínum verkum verði aukin til muna. Þannig vil ég benda á hvernig stöðugt er komið í veg fyrir uppbyggingu í atvinnugreinum sem menn telja sig þó hafa trú á og hafa sýnt getu til að standa á eigin fótum. Ferðamálaráði hefur m.a. ekki verið gert kleift að leggja fé til umhverfismála. Á sama tíma og reynt er að auka ferðamannastrauminn til tiltekinna staða er ekkert gert til þess að koma í veg fyrir varanleg spjöll á náttúrunni vegna aukinnar umferðar.
    Nú telur bjartsýnisnefndin svokallaða að leggja þurfi 200--300 millj. í ferðamálin ef eitthvað raunhæft ætti að gera. En ef betur væri að málum staðið má ætla að ferðaþjónustan gæti orðið sú atvinnugrein sem helst flýtti fyrir nauðsynlegum samdrætti í landbúnaði.
    Þegar rætt er um nýja atvinnuuppbyggingu almennt kemur fram greinileg kynskipting. Karlar hugsa í stórum fjárhæðum og taka ekki mark á neinni umræðu um stofnun fyrirtækja nema fjárfestingin velti á tugum eða hundruðum milljóna og þó allra helst stóriðju og þá eru tölurnar í milljörðum. En hár fjármagnskostnaður en ekki laun verkafólks er að sliga íslenska atvinnuvegi eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. benti réttilega á hér fyrr í dag.
    Konum er hins vegar gjarnara að velta fyrir sér litlum fjárhæðum en stórum en margt smátt gerir eitt stórt.
    Ég er þeirrar skoðunar að hér þurfum við að gefa báðum sjónarmiðum möguleika í atvinnuuppbyggingunni en við verðum alltaf að vera menn og konur til að horfa fram í tímann og meta langtímaáhrif í hvert eitt sinn sem við tökum ákvörðun. Ákvörðun í atvinnuuppbyggingu sem og öðru. Við þurfum hreint ekki að sýna fram á að við séum menn til að koma málum sem stóriðju í höfn og veifa í því sambandi tímabundnum hagvexti. Því gætum að, aukinn hagvöxtur er ekki góður mælikvarði á ágæti framkvæmda því hann metur skammtímabreytingar í efnahagslífinu en ekki þætti eins og mengun umhverfisins eða aukinn annan kostnað vegna framkvæmdanna síðar meir, svo dæmi séu tekin.