Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Í umræðum í síðustu viku skiptumst við, ég og hæstv. fjmrh., á orðum varðandi lánsfjárlög heimilanna eins og ég vék að þá í samanburði við það sem menn telja að ríkisbúskapurinn hafi staðið á þessum sama tíma. Það er út af fyrir sig gott að ríkissjóður hefur braggast, stóra heimilið hefur braggast. En það hefur farið minna fyrir því að mínu viti að litlu einingarnar, þ.e. heimilin, og þá fyrst og fremst heimili láglaunafólksins, hafi braggast á sama hátt og gert var ráð fyrir. Ég óskaði eftir því við þessa umræðu, eftir að hæstv. fjmrh. sagði að ég hefði beint gegn honum alvarlegum ásökunum, sem út af fyrir sig er rétt, þá taldi ég rétt að fá upplýsingar um þetta mál sem heild, þannig að það væri hægt að ræða nánast lið fyrir lið þá samninga sem voru gerðir um mánaðamótin apríl/maí sl. vegna þeirrar sérstöðu fyrst og fremst að það var ríkisstjórnin, það voru stjórnvöld sem komu fyrst og fremst við þá samningsgerð, frekar en að verið væri að semja beint við vinnuveitendur eins og oftast hefur gerst áður. Ekki
er ég að gagnrýna það þó að þetta hafi verið gert með þessum hætti, en þar voru gefin ýmis loforð sem ég tel, ásamt fleirum, að ekki hafi verið staðið við. Og ég vil ekki liggja undir því að vera að bera hér fram persónulegar ásakanir sem ekki standast. Ég vil fá á borðið þau plögg og þau gögn frá þeim aðilum sem að þessu stóðu sem segja hið rétta um þetta mál.
    Því óskaði ég eftir því að ég fengi í hendur viðhorf Alþýðusambandsins sem leiddi þessa samninga á sínum tíma. Það var að mínu viti sá rétti aðili sem átti að snúa sér til og óskaði eftir því að ég fengi í hendur hvað Alþýðusambandið teldi að við hefði verið staðið af þeim fyrirheitum sem voru gefin af hálfu stjórnvalda við lok þessarar samningsgerðar og eru í bréfi frá hæstv. forsrh. sem er dags. 30. apríl 1989. Þarna er um að ræða tólf fyrirheit sem gefin voru og ég vona að ég taki ekki mjög langan tíma, en ég vil, með leyfi forseta, fara ofan í þessi tilteknu atriði öll, sjá við hvað hefur verið staðið, hvað er í bígerð, ef orða má það svo, að standa við og hvað hefur ekki verið staðið við.
    Ég held að það sé nauðsynlegt í þessu dæmi að bæði stjórnmálamenn, forsvarsmenn launþegahreyfingarinnar og launþegar sjálfir geri sér grein fyrir því hvernig má treysta þeim loforðum sem gefin eru hverju sinni við samningsgerð. Það rýrir traust a.m.k. hreyfingarinnar á stjórnmálamönnum og ríkisstjórnum ef það gerist trekk í trekk að ekki er staðið við þau loforð sem gefin eru fyrirheit um í samningum og eiga að verða til leiðréttinga á launum fyrst og fremst þeirra sem verst eru settir. Með leyfi forseta vitna ég í svar Alþýðusambands Íslands:
    Í fyrsta lagi um atvinnumál:
    ,,Ríkisstjórnin mun skipa sérstaka nefnd með fulltrúum ASÍ, VSÍ og VMS auk fulltrúa stjórnvalda til að fjalla um ástand og horfur í atvinnumálum og móta langtímastefnu um atvinnuuppbyggingu í landinu.

Fyrst í stað skal nefndin þó einbeita sér að þróun atvinnumála á næstu missirum.``
    Þetta gerðist 1. maí. Þá vissu menn hvernig ástandið var í atvinnumálum og vildu þá bregðast hart við að þetta væri gert. Svar frá Alþýðusambandi varðandi þennan lið er svohljóðandi:
    ,,Forsætisráðherra hefur með bréfi dags. 7. sept. sl. [þ.e. fjórum mánuðum síðar] skipað sérstaka nefnd um atvinnumál sem í eiga sæti ellefu fulltrúar, þar af sex frá aðilum vinnumarkaðarins. Hún hefur haldið einn fund. Hann var í september sl.``
    Menn geta auðvitað sagt: Það er búið að standa við þetta. En það er ekki búið að gera það sem um var talað í samningunum, að ráðast gegn því atvinnuleysi sem þá var og fer vaxandi. En um það snerist málið. Menn geta sagt: ,,Já, þetta er búið``, en staðreyndirnar eru þessar.
    Í öðru lagi var svohljóðandi fyrirheit gefið um atvinnuleysistryggingar:
    ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að á yfirstandandi þingi [þ.e. síðasta þingi] verði lögum um atvinnuleysistryggingar breytt þannig að heimilt verði að lengja bótatímabil atvinnuleysistrygginga úr 180 dögum í 260 daga. Jafnframt verði kannað með hvaða hætti megi tryggja verkafólki við landbúnaðarstörf rétt til atvinnuleysisbóta.`` (Gripið fram í.) Ég heyri að hér er kallað á vinstri hönd: ,,Það hefur verið við það staðið``, og svarið er að koma. Sem betur fer hefur nú verið staðið við eitthvað af því þó það hafi ekki verið staðið við allt.
    Svarið er þetta: ,,Alþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar þess efnis að nú hefur stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimild til þess, í ákveðnum tilvikum, að lengja bótatímabil atvinnuleysistrygginga úr 180 dögum í 200 daga.`` Síðan segir meir. ,,Frá því í október 1988 [og hér er í raun og veru vitnað til svarbréfs forsrh. frá því í september] hefur verið að störfum nefnd til að endurskoða lög og reglur um atvinnuleysistryggingar. Fyrirheit ríkisstjórnarinnar varðandi
könnun á því með hvaða hætti tryggja mætti rétt verkafólks við landbúnaðarstörf til atvinnuleysisbóta var komið á framfæri við nefnd, sem endurskoðar lög og reglur varðandi atvinnuleysistryggingar, strax í vor. Vegna fráfalls formanns nefndarinnar hefur heilbr.- og trmrh. þegar skipað nýjan formann og erindi Alþýðusambandsins verið ítrekað við hann. Þess hefur jafnframt verið óskað að nefndarstarfinu ljúki fyrir lok nóvember nk.``
    Við skulum vona að það gerist að við getum sagt að við þetta annað loforð hafi þá verið staðið. Og af því að hér var gripið fram í áðan ítreka ég að ég er ekki bara að tala um vanefndirnar, ég er líka að tala um það sem hefur verið staðið við. Það þarf líka að koma fram.
    Í þriðja lagi eru fyrirheit gefin að því er varðar verðlagsmálin og þá komum við nú að alvarlegri hlut. En í bréfi forsrh. frá 30. apríl segir:
    ,,Ríkisstjórnin mun sporna, eins og frekast er kostur, við verðhækkunum á næstu missirum.

Verðstöðvun verður sett á opinbera þjónustu þannig að verðlagning hennar miðist við forsendur fjárlaga fyrir árið 1989 og ríkisstjórnin mun beita sér fyrir aðhaldi að verðákvörðunum einokunarfyrirtækja og markaðsráðandi fyrirtækja.
    Í samstarfi við samtök launafólks verði unnið öflugt verðkönnunar- og kynningarstarf. Jafnframt mun ríkisstjórnin verja 500--600 millj. kr. til aukinna niðurgreiðslna á verði landbúnaðarvara frá 1. apríl til ársloka, þannig að þær verði óbreyttar í krónutölu út árið, eða grípa til annarra jafngildra aðgerða til lækkunar á verði nauðsynjavöru.
    Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir sérstakri lækkun á verði dilkakjöts.``
    Þetta voru fyrirheitin sem gefin voru og svar Alþýðusambandsins er þetta:
    ,,Ekki er greinanlegt að öðruvísi hafi verið staðið að verðlagsmálum eða spyrnt fastar við verðhækkunum en áður hefur tíðkast. Hækkun á heildsöluverði rafmagns frá Landsvirkjun hefur orðið meiri en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir.`` --- Hér kemur síðan yfirlit um hækkanir verðlags og launa og það er auðvitað stingandi að sjá slíkar töflur. Það er annars vegar frá apríl til október og hins vegar frá maí til október. Ég gríp hér niður kannski á þrem stöðum. Auðvitað er hægt að lesa alla töfluna ef eftir því verður óskað.
    Það eru t.d. fargjöldin, þau hafa hækkað um 18,2% frá apríl til október og sama frá maí til október. Lágmarkslaun höfðu hækkað um 13,2% frá apríl til október, en hækkuðu um 4,1% maí--okt. Fiskvinnan eftir sjö ár hækkar um 12,2% í apríl--okt. en 3,8% í maí--okt. Og svo er bætt við í svarinu:
    ,,Verðkönnunar- og kynningarstarf hefur verið unnið í samráði við samtök launafólks. Um hversu öflugt það hefur verið má deila. A.m.k. hefur gengið hægt að fá fé til þessa starfs.``
    Þetta er svarið við þessum lið bréfs forsrh. að því er varðaði verðlagsmálin. Ég túlka það svo að það hafi ekki verið staðið við það og það er raunar sagt hér óbeinum orðum af hálfu Alþýðusambandsins að svo hafi ekki verið gert.
    Síðan er bætt við frá Alþýðusambandinu:
    ,,Verðhækkanir í júní. Um mánaðamótin maí/júní átti verð á bensíni að hækka um 8,20 kr. pr. lítra og af þeirri hækkun áttu 4,40 kr. að renna beint til ríkissjóðs. Fulltrúar launþega reyndu að koma í veg fyrir þessar hækkanir í Verðlagsráði en án árangurs.`` Þetta muna menn auðvitað. ,,Þann 5. júní hækkuðu búvörur í verði um 5--15%. T.d. hækkaði mjólkurlítrinn um 12,8%.`` ( EgJ: Hvenær?) 5. júní. Nú er ég að lesa, hv. þm. Egill Jónsson, svar frá Alþýðusambandinu. ( EgJ: Já, já, ég veit það.) ,,Á þessum tíma stóðu ASÍ og BSRB fyrir margs konar aðgerðum til þess að mótmæla slíkum verðhækkunum í kjölfar kjarasamninganna. Má þar t.d. nefna fjölmennan útifund á Lækjartorgi, áskoranir til fólks um að kaupa ekki mjólkurvörur og að láta bílinn standa í tvo daga. Í kjölfar þessara aðgerða lét ríkisstjórnin undan þrýstingi og ákvað að lækka verð

á mjólk og bensíni. Verð á mjólk lækkaði um 4 kr. pr. lítra og bensín um 2 kr. pr. lítra. Þessar aðgerðir sýndu að í raun þurfti að beita stjórnvöld miklum þrýstingi til þess að fá þau til að standa við eigin loforð.``
    Þetta er svarið að því er varðar verðlagsþáttinn, svo langt sem þetta nær. Auðvitað er hægt að bæta við þetta svar, en ég held að þetta nægi til að sýna fram á að það hefur tekið á að fá stjórnvöld til þess að standa við þau loforð eða fyrirheit sem þau hafa gefið.
    Ég held að það sé rétt að ég ljúki alveg umsögn Alþýðusambandsins um verðlagsmálin af að því þau skipta miklu máli, en þar segir í áframhaldi:
    ,,Þann 1. sept. hækkuðu mjólkurvörur á bilinu 10--14%, en auk þess hækkuðu egg, kjúklingar og nautakjöt nokkuð minna. Meginorsök hækkunarinnar var mikil hækkun launaliðar bænda sem hækkaði langt umfram laun verkafólks. Miðstjórn ASÍ og fleiri mótmæltu þessum hækkunum kröftuglega og var rætt um að þörf væri svipaðra aðgerða og í júní. Þann 19. sept. voru mjólkurvörur lækkaðar í verði um 3--6%, t.d. lækkaði nýmjólk um 4%.`` ( EgJ: Lögbrot.) Það kann að vera. Fyrir það svarar hæstv. ríkisstjórn. ,,Þetta var því í annað sinn á samningstímabilinu sem hluti af hækkun mjólkurvara var dreginn til baka. Það
vekur athygli í sambandi við þessar hækkanir að í bæði skiptin þarf kröftug viðbrögð frá launþegum og samtökum þeirra til þess að ná árangri þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi lofað að stuðla að aðhaldi í verðlagsmálum. ( GHG: Hún svíkur öll sín loforð, þessi ríkisstjórn.) Ríkisstjórnin beitti sér fyrir sérstakri lækkun dilkakjöts [þarna kemur kannski einhver plús] enda var birgðastaða þess orðin þannig að nauðsynlegt var orðið að losna við það.`` Allt er þarna tínt til og trúlega allt saman rétt.
    Varðandi þennan þátt er það auðvitað ljóst að hér hafa heimili láglaunafólksins borið skarðan hlut frá borði þrátt fyrir gefin loforð hæstv. ríkisstjórnar.
    Þá kemur í 4. lið ... ( Gripið fram í: En hvað með niðurgreiðslurnar? Er ekkert vikið að þeim?) Ég er ekki búinn að lesa það allt, en menn þurfa að sitja kyrrir til þess að hlýða á og hlusta. Síðan komum við að 4. lið sem eru skattamálin og þar var gefið svohljóðandi fyrirheit:
    ,,Ríkisstjórnin mun hafa samráð við samtök launafólks um úrbætur í skattamálum, m.a. um aðgerðir til að koma í veg fyrir skattsvik. Þá mun ríkisstjórnin láta kanna skattlagningu lífeyrisiðgjalda, m.a. með tilliti til tvísköttunar. Ríkisstjórnin mun hafa samráð við samtök launafólks um undirbúning og framkvæmd virðisaukaskattsins sem tekinn verður upp um næstu áramót, m.a. um hugsanleg tvö þrep í skattinum.``
    Þetta voru fyrirheitin og nú skulum við koma að svörunum. Svar Alþýðusambandsins er þetta: ,,Alþýðusambandinu er ekki kunnugt um að samráð hafi verið við samtök launafólks um úrbætur í skattamálum eða aðgerðir til að koma í veg fyrir

skattsvik. Alþýðusambandinu er ekki kunnugt um efndir þess að ríkisstjórnin hafi látið kanna skattlagningu lífeyrisiðgjalda með tilliti til tvísköttunar.`` Og í þriðja lagi: ,,Alþýðusambandinu hefur ekki gefist kostur á að fylgjast með því sem fjmrn. fyrirhugar með virðisaukaskattinn.`` Og þetta er kannski alvarlegasti þátturinn í því sem ekki hefur verið staðið við, varðandi skattamálin, því það er eitt af þeim fyrirheitum sem voru gefin. Og nú er að dembast yfir okkur, að því er maður best veit, virðisaukaskattur með öllum
þeim spurningum sem er ósvarað í þeim efnum sem þar kunna að koma fram. Og nú þegar komið er fram í nóvember frá samningstíma 1. maí þegar lofað var að hafa samráð við Alþýðusambandið eða launþegahreyfinguna um virðisaukaskattinn. Það er ekkert farið að gera enn og samningarnir eru að renna út.
    Þó að mörg dæmi séu hér um það að ekki hafi verið staðið við fyrirheitin, þá finnst mér þetta hvað svartast af öllu, að gefa ekki launþegahreyfingunni kost á því að fylgjast með þróun þessa máls sem mun hafa afgerandi áhrif og afleiðingar á ótal sviðum í virðisaukaskatti, það er nánast vart þolanlegt að við slíkt fyrirheit skuli ekki hafa verið staðið.
    Í fimmta lagi var í bréfi forsrh. sagt svohljóðandi um vaxtamál: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir áframhaldandi lækkun raunvaxta á verðtryggðum lánum. Jafnframt verði þjónustugjöldum banka og sparisjóða veitt aðhald.`` Og svar Alþýðusambandsins er þetta: ,,Það kann að vera að ríkisstjórnin hafi beitt sér í þessum málum. Árangur af því er ekki merkjanlegur frá því í maí.`` Hér kemur því enn eitt neiið varðandi fyrirheitin sem gefin hafa verið.
    Í sjötta lagi var gefið fyrirheit um húsnæðismál: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir sérstöku átaki í félagslegum íbúðabyggingum þannig að á síðari hluta þessa árs verði hafnar framkvæmdir við a.m.k. 200 nýjar íbúðir í félagslega íbúðakerfinu.`` Og svar Alþýðusambandsins er þetta: ,,Heimildir hafa fengist til að framkvæmdir hæfust við allt að 200 nýjar íbúðir í félagslega íbúðakerfinu. Ekki sjást merki þess í endurskoðuðum fjárlögum ársins 1989 og ekki heldur í frv. til fjárlaga ársins 1990 að ríkissjóður geri ráð fyrir sérstöku fjármagni til þessa verkefnis.`` Það má þá segja að helmingurinn hafi verið framkvæmdur, hinn helmingurinn liggi eftir, þ.e. peningana vantar, heimildin hefur verið veitt. ( GHG: Þú verður látinn borga það sjálfur ...) Nú er ég út af fyrir sig ekkert að svara fyrir þetta. Ég er bara að vitna í aðila sem beðinn var að segja sitt álit á þessum liðum og ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir þingið að fá vitneskju um það.
    Sjöundi liðurinn er varðandi lífeyrismál: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir framlengingu laga um eftirlaun til aldraðra. Ríkisstjórnin mun kanna með hvaða hætti er unnt að greiða fyrir aðild starfsfólks verndaðra vinnustaða að lífeyrissjóðum þannig að niðurstaða liggi fyrir 1. júní nk.`` Og svar Alþýðusambandsins er þetta: ,,Alþýðusambandinu er

ekki kunnugt um að efnt hafi verið loforð ríkisstjórnarinnar um að hún beiti sér fyrir framlengingu laga um eftirlaun til aldraðra.`` Nú er rétt að ég skjóti því inn að það getur auðvitað komið enn og oft hefur slíkt verið seint á ferðinni. En þegar hæstv. ráðherrar eru að segja, eins og hæstv. fjmrh. og forsrh.: Það er búið að efna þetta, þá er það ekki búið enn. Það kann að vera að það verði gert á samningstímanum, en það er ekki búið enn. Síðan segir í áframhaldandi svari: ,,Fjmrn. hefur kynnt sér gögn varðandi aðild starfsfólks verndaðra vinnustaða að lífeyrissjóðum,
þar á meðal gögn frá samtökum launafólks. Það er niðurstaða ráðuneytisins að ekki sé unnt að ráða af þessum gögnum að meiri áhætta sé fyrir lífeyrissjóði vegna þessa fólks en annars launafólks. Því er það mat ráðuneytisins að hér sé fyrst og fremst um að ræða úrlausnarefni fyrir samtök launafólks. Ríkisstjórnin er reiðubúin að beita sér fyrir viðræðum sem miða að því að leysa þetta mál með samráði samtaka launafólks og almenna lífeyrissjóðakerfisins. Fáist ekki farsæl lausn á málinu með slíkum viðræðum er ríkisstjórnin reiðubúin að beita sér fyrir því að þessi hópur starfsfólks fái aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda.``
    Varðandi þennan lið er ... (Gripið fram í.) Ja, það er hvorki já eða nei. Það er spurning um hvort við það hefur verið staðið eða ekki og ég skal ekki gerast dómari í því, en þetta eins og annað þurfti að koma fram.
    Síðan kemur áttundi liður, bætur almannatrygginga: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að bætur almannatrygginga hækki í samræmi við almennar launahækkanir á samningstímabilinu.`` Og svar Alþýðusambandsins er auðvitað: ,,Ríkisstjórnin hefur staðið við loforð um að bætur almannatrygginga hækki í samræmi við almennar launahækkanir á samningstímabilinu``, þannig að þetta hefur verið efnt. ( Gripið fram í: Þó það nú væri.) Já, þó það nú væri, en ekki ber að lasta það.
    Þá er það réttarstaða starfsmanna við gjaldþrot og fleira og það hefði auðvitað átt við í gær að ræða það í Sþ. og hefði þá átt við að ræða það við hæstv. ráðherra hagstofumála, held ég að hæstv. ráðherra sé kallaður. ( Gripið fram í: Hæstv. hagstofuráðherra.) Ég sagði hæstvirtur. Ég læt það alltaf fylgja. Það þarf ekki að áminna mig um það. Það hefði átt við þar því að mér er tjáð að það sé einmitt í dag verið að dómfesta mál gagnvart fyrirtæki sem þar hefur starfað á Suðurnesjum og hæstv. viðkomandi ráðherra hefur haft einhver afskipti af því fyrirtæki þannig að þörfin er brýn.
    En svona var fyrirheitið: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að á yfirstandandi þingi [þá erum við að tala um þingið í maí, það var yfirstandandi þing þegar þetta var gert] verði samþykkt lög sem tryggi launafólki fyrirtækja sem verða gjaldþrota rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þann tíma sem það er án atvinnu á uppsagnarfresti, meðan það bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt

lögum um ríkisábyrgð á launum.`` Þetta er búið. Við þetta hefur verið staðið.
    Í öðru lagi er sagt í þessum lið, 2. mgr.: ,,Ríkisstjórnin vinnur nú að mótun almennra reglna um veitingu atvinnuleyfa til að girða fyrir misnotkun, t.d. stofnun gervifyrirtækja til að komast hjá eðlilegum skyldum gagnvart launafólki og opinberum gjöldum.`` Og svarið frá Alþýðusambandinu er þannig: ,,Réttur verkafólks til greiðslu atvinnuleysisbóta meðan það bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum vegna gjaldþrota fyrirtækja er tryggður. Á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er verið að vinna að undirbúningi lagabreytinga til þess að girða fyrir misnotkun á heimildum til að takmarka ábyrgðir eigenda atvinnufyrirtækja við gjaldþrot og því um líkt. Þá hefur nýlega verið samþykkt á Alþingi að hækka lágmarksfjárhæð hlutafjár úr 20 þús. í 400 þús. frá og með 1. mars 1990. Það er mat ríkisstjórnarinnar að þetta ákvæði eigi að draga úr stofnun svokallaðra ,,gervihlutafélaga``.`` Þetta segir auðvitað nokkuð, í svarinu, en það segir heldur ekkert um það hvort fylgst er með þessu og menn geta ekki haldið áfram að stofna gervihlutafélög eftir sem áður.
    Enn segir í svarinu: ,,Þá skipaði dómsmrh. hinn 8. sept. sl. nefnd embættismanna til að semja frv. til laga um bann við atvinnustarfsemi vegna brota tengdra slíkri starfsemi. Alþýðusambandinu er ekki kunnugt um það hvort á vegum ríkisstjórnarinnar sé unnið að mótun almennra reglna um veitingu atvinnuleyfa til að girða fyrir misnotkun núverandi reglna.`` Þetta var níunda atriðið í bréfi hæstv. forsrh. sem hann ritaði í lok samninganna sem gerðir voru 1. maí.
    Tíunda atriðið er um starfsmenntun: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að áfram verði haldið uppbyggingu starfsmenntunar og stefnt að því að koma á samræmdu starfsmenntunarkerfi á vegum félmrn.`` Og svarið er: ,,Nefnd hefur verið skipuð í málið. Hún hefur haldið allmarga fundi. Frumdrög að lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu liggja fyrir``, þannig að hér er já.
    Síðan kemur ellefti punkturinn sem er um fæðingarorlof: ,,Ríkisstjórnin mun skipa nefnd sem hafi það verkefni að skoða og útfæra þá stefnumörkun er fram kemur í álitsgerð nefndar sem samdi frv. til laga um fæðingarorlof og miðar að því að konur, hvar sem þær eru í starfi, njóti jafnréttis hvað varðar fæðingarorlof.`` Og svarið er þetta: ,,Nefnd var skipuð í málið þann 19. okt. sl. Einn fundur hefur verið haldinn. Hann var 1. nóv. sl.``, þ.e. það tók sex mánuði að nefnd væri skipuð í þetta sem var lofað við samningsgerð 1. maí.
    Í tólfta lagi og síðasta var gefið svohljóðandi fyrirheit um Félagsmálaskóla alþýðu: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að frv. um Félagsmálaskóla alþýðu verði lögfest á yfirstandandi þingi.`` Og svarið við þessu er eðlilega:
"Lög um Félagsmálaskóla alþýðu hafa verið samþykkt á Alþingi. Óljóst er um fjárveitingar.`` Segja má því að staðið hafi verið við þann hluta að ganga frá frv., en eftir er að fjármagna þennan skóla sem ég geri ráð

fyrir að þeir sem um þetta sömdu hafi gert sér grein fyrir að þyrfti að gera.
    Af þessum tólf upptöldu liðum eru a.m.k. fjórir sem ekki hefur verið við staðið. Þrír er spurning um, hvort eða ekki, en hitt hefur verið staðið við. Mér finnst það slæmt þegar hæstv. ráðherra eftir ráðherra lýsa því yfir í tíma og ótíma að það sé búið að efna öll þau fyrirheit sem samið var um við hæstv. ríkisstjórn á þessum tíma þegar dreifarnar liggja svona eftir loforðin. Og ég held að það sé nauðsynlegt allra aðila vegna að þetta sé dregið inn í umræður hér á Alþingi því að það er mikil ábyrgð hjá hverri þeirri ríkisstjórn sem tekur að sér að semja við launþegahreyfinguna um tiltekin atriði varðandi löggjöf og standa síðan ekki við það. Það riðlast allt innan hreyfingarinnar, einnig almenningsálitið og fólk fær vantrú á stjórnvöld sem þannig haga sér. Og það er ekki á bætandi, að mínu viti, að auka þá vantrú sem á stjórnmálamönnum og stjórnmálalífi blasir við. Það er frekar nauðsyn á að bæta þar um en auka við. Og fyrir utan nú hitt, eins og ég vék að hér fyrr við þessa umræðu, að þetta verður auðvitað til þess að það treystir sér enginn forustumaður í hreyfingunni til þess að semja við stjórnvöld um eitt eða neitt og þannig eru menn --- ég vona ekki vísvitandi, vonandi óafvitandi --- að sundra verkalýðshreyfingunni með því að haga sér með þessum hætti. Henni er sundrað af hálfu stjórnvalda --- og nú er ég ekki að tala endilega um núv. hæstv. ríkisstjórn, þær eiga margar þátt í því --- vegna vantrúar fólksins á að stjórnmálamenn standi við þau loforð sem þeir gefa. Þetta getur orðið dýrkeypt, er þegar orðið það og á eftir að verða það enn frekar verði áfram haldið á sömu braut.
    Ég taldi því nauðsynlegt, herra forseti, og nú skal ég fara að ljúka mínu máli þó að hægt væri að tala lengi um þetta, að koma þessu hér inn í umræður á Alþingi. Það er vítavert, ég ítreka það, það er vítavert að mínu viti að ekki sé hægt að treysta því sem stjórnmálamenn, þeir sem forustunni ráða hverju sinni, gefa fyrirheit um.
    Virðulegi forseti. Kannski gefst mér tækifæri til þess síðar að blanda mér enn frekar í þessar umræður því að málið er brýnt og nauðsynlegt. Mig langar í lokin til að víkja að ályktun þings Verkamannasambands Íslands og ekki verður þeim sem þar hafa ráðið ferðinni núið því um nasir að þeir hafi verið sérstaklega óvilhallir ríkisstjórninni. En hvað sagði þing Verkamannasambandsins, þess fólks sem fyrst og fremst hefur borið byrðarnar í þjóðfélaginu vegna þeirra samninga sem gerðir voru 1. maí? Hvað segja fulltrúar þessa fólks um þessi mál?
    Ég vil, með leyfi forseta, ljúka máli mínu með því að víkja örfáum orðum og lesa úr þessari ályktun þings Verkamannasambandsins. Ég ítreka aftur eins og ég gerði hér síðast: Bæði Alþýðusambandið, stjórn Alþýðusambands Vestfjarða, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Landssamband verslunarmanna, þing þeira og fleiri forustuaðilar innan launþegahreyfingarinnar hafa mótmælt því harðlega að

ekki skuli hafa verið staðið við gefin loforð í samningunum 1. maí. En í ályktun þings Verkamannasambandsins segir, með leyfi forseta:
    ,,15. þing Verkamannasambands Íslands vekur athygli á þeirri hættu sem blasir við framfærslu heimila launafólks. Kaupmáttur jafnt dagvinnutekna sem atvinnutekna í heild hefur rýrnað ört. Þá er veruleg hætta á atvinnuleysi vegna samdráttar í aðalatvinnugreinum okkar. Þingið varar mjög alvarlega við því að þessar aðstæður verði notaðar til áróðursstríðs sem hafi það markmið að fá fólk til að trúa þeirri blekkingu að kaup verkafólks sé ein aðalorsök þess hvernig komið er fyrir íslenskum þjóðarbúskap. Á því hefur borið að forusta atvinnurekenda ætli nú að fara að spila gömlu plötuna um að allir erfiðleikar séu of háum launum verkafólks að kenna. Íslenskir atvinnuvegir þurfa nú alls annars við en ásakana af þessu tagi.
    Atvinnurekendur og stjórnvöld verða að leita meginorsaka þess hvernig nú er komið hjá sjálfum sér og þá fyrst og fremst í gegndarlausum fjárfestingum sem litlar eða engar forsendur voru fyrir. Þeir geta ekki vænst þess að geta velt byrðinni af kostnaðinum af sínu eigin stjórnleysi yfir á verkafólkið. Þá má heldur ekki gleyma því að stjórnleysi undanfarandi ára í peninga- og fjárfestingarmálum hefur gefið ýmsum aðilum í þjóðfélaginu tækifæri til að maka krókinn ríkulega. Þessum misjafnlega vel fengna gróða á að skila aftur til launafólks og atvinnurekenda.
    Það er meginkrafa 15. þings Verkamannasambands Íslands að kaupmáttarhrapið sem orðið er og verður til loka gildandi kjarasamninga verði leiðrétt fyrir allt almennt launafólk. Þingið telur að við gerð næstu kjarasamninga verði að ganga þannig frá málum að þeir hærra launuðu hópar sem á eftir koma geti ekki í skjóli sérstakrar aðstöðu sinnar knúið fram margfalda ávinninga þess sem launafólks samdi um.
    Kjörorð Verkamannasambands Íslands í síðustu kjarasamningum voru: Trygging
fullrar atvinnu. Lífskjarajöfnun. Verðbólgu verði haldið í skefjum. Þessi markmið eru enn í fullu gildi og mun Verkamannasamband Íslands ganga til næstu samninga með þau að leiðarljósi.
    15. þing Verkamannasambands Íslands átelur ríkisstjórnina fyrir að standa ekki við loforð í verðlagsmálum sem hún gaf verkalýðshreyfingunni við gerð síðustu kjarasamninga. Sérstaklega eru hækkanir á neysluvörum vítaverðar því verð á þeim er ekki í neinu samræmi við almenna kaupgetu í landinu. Óhjákvæmilegt er að stórlækka fjármagnskostnað ef eðlilegt atvinnulíf á að þróast í landinu.``
    Hér er aðeins gripið ofan í nokkra þætti af ályktun á þingi Verkamannasambands Íslands sem undirstrika það sem ég hef haldið hér fram og eru ekki bara mín orð, hæstv. fjmrh. Þetta eru orð forustumanna hvarvetna innan launþegahreyfingarinnar, almenna launafólksins sjálfs, almennings í landinu þannig að ég er ekki sá eini sem hef þessa skoðun. Hér hefur verið vitnað til þeirra aðila sem gleggst um þetta vita, skoðað hafa málin, ekki út frá pólitískum sjónarmiðum

heldur út frá faglegum sjónarmiðum vegna þeirra sem þeir voru að semja fyrir á sínum tíma.