Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Ég skal vera stuttorður. Það er út af nokkrum atriðum sem hæstv. fjmrh. kom hér inn á og það stendur auðvitað eitt upp úr þar. Hann tók undir það sem var haldið fram í þessu sem hann kallar nýju bréfi frá Alþýðusambandinu, en það var beðið um umsögn Alþýðusambandsins á því sem gerst hefur í þróun þeirra samninga sem það stóð að í vor. Hann sagði: Það er búið að framkvæma átta af tólf. En fjögur hefur ekkert verið gert við. (Gripið fram í.) Nei, fjögur hefur ekkert verið gert við. Það er ekki farið að athuga það enn. (Gripið fram í.) Þetta er eftirtektarvert hjá hæstv. ráðherra að hann undirstrikar það álit sem hér kemur fram, ekki frá mér, frá Alþýðusambandinu, að það eru átta sem hefur verið hreyft við, sumum fullnægt en fjórum hefur ekkert verið sinnt. (Gripið fram í.) Fjórum hefur ekkert verið sinnt. Þetta ítrekaði hæstv. ráðherra hér áðan. ( Fjmrh.: Nei, nei.)
    Ég vil hins vegar ítreka það að ég var ekki bara með texta frá Alþýðusambandinu, nýtt bréf. Ég vitnaði líka í þing Verkamannasambandsins sem segir nákvæmlega sömu sögu og kannski ítarlegar. (Gripið fram í.) Nei, á ég að gefa hæstv. ráðherra eintak þannig að hann geti lesið það sjálfur heima í kvöld því það er greinilegt að hæstv. ráðherra hefur ekki hlustað vel.
    Ég skal ekki verða öllu langorðari varðandi niðurgreiðslurnar. ( Fjmrh.: Annars verður fundur hjá Verkamannasambandinu ...) Það kann vel að vera. Ég er að tala um það sem hæstv. ráðherrar hafa sagt áður. Það sem kann að gerast einhvern tíma er allt annað mál. En út af niðurgreiðslunum, það er hér getið um 500--600 millj., hæstv. ráðherra, --- þú mátt fara til hliðar, ég skal tala nógu hátt --- og það segir í því að það sé ekki greinilegt að neitt öðruvísi hafi verið staðið að heldur en venjulega, það hafi verið niðurgreiðslur. En síðan segir til viðbótar, og ég bið nú ráðherra að taka eftir því: ,,Ríkisstjórnin beitti sér fyrir sérstakri lækkun dilkakjöts.`` Eru það ekki niðurgreiðslur? ( Fjmrh.: Jú.) Ja, ég hefði haldið það. ( Fjmrh.: Vertu nú ekki að snúa út úr.) Ég er ekki að snúa út úr neinu, hæstv. ráðherra, en ég heyri bara að hæstv. ráðherra er orðinn mjög órólegur. ( Fjmrh.: Nei, nei.)
    En út af því sem hæstv. ráðherra ítrekaði að hann skildi ekkert í þegar verið væri að finna að því að það væri ekki haft samráð við verkalýðshreyfinguna um virðisaukaskattinn sem stendur í bréfi hæstv. forsrh., þá fer ég að halda að það bréf hafi verið skrifað bara sem einstaklingsframtak, ef hæstv. fjmrh. talar áfram á þessum nótum, að það sé þá ekki ríkisstjórnarinnar mat að það ætti að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna. Auðvitað er nauðsynlegt að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna um það sem á að demba yfir þjóðfélagið um nk. áramót í virðisaukaskatti. Ef það er ekki nauðsynlegt, þá veit ég ekki út af hverju er nauðsynlegt að hafa samráð við hreyfinguna og launafólk almennt.

    Það væri auðvitað ástæða til þess að tala lengra mál, það gefst tækifæri til þess síðar og tala enn betur við hæstv. ráðherra. Það er ágætt að eiga skoðanaskipti við hann, en hann á að taka rétt eftir og fara rétt með.