Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Egill Jónsson greip hér fram í að betra væri að hafa með sér rétta pappíra í pontu. Það vill nú svo til að það er nú ekki þörf á miklum pappírum við að svara þeim spurningum sem hv. þm. Halldór Blöndal beindi til mín því svörin koma að mestu leyti fram í því sem hann rakti sjálfur.
    Það er alveg skýrt af minni hálfu að ríkisstjórnin hefur staðið við þau fyrirheit sem hún gaf Vinnuveitendasambandinu og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna þannig í raun og veru er mjög einfalt að fara yfir þessi atriði eins og hann gerði hér. Það kom reyndar mjög skýrt fram hjá honum að ríkisstjórnin hefur staðið við öll þau fyrirheit sem kveðið var alveg skýrt og afdráttarlaust á um í þessum yfirlýsingum.
    Varðandi skattlagningu atvinnulífsins hef ég hins vegar lýst því yfir að þar er um að ræða mikið og stórt og vandasamt verk og okkar fámenna embættis- og starfsmannakerfi í skattamálum á Íslandi ræður að mínum dómi og margra annarra ekki við það að framkvæma margar viðamiklar kerfisbreytingar á sama tíma og þess vegna var mótuð fyrr á þessu ári sú stefna í vinnubrögðum að á þessu ári og um næstu áramót yrði framkvæmd breytingin yfir í virðisaukaskatt. Er hafin vinna við að endurskoða skattlagningu atvinnufyrirtækja og atvinnulífsins og miðað að því að kynna frumvörp um það efni á næsta ári og hún kæmi til framkvæmda í kjölfarið á því. Sú vinna er hafin. Það hefur verið safnað ýmsum hugmyndum í þeim efnum. Það hafa komið fram tillögur frá einstökum ráðherrum í þeim efnum. Það hefur verið leitað eftir upplýsingum frá öðrum ríkjum í þeim efnum til þess að hægt væri að framkvæma mjög nákvæman samanburð við hliðstæða skattlagningu í helstu samkeppnislöndum okkar Íslendinga. Og þegar þessi vinna hefði verið tekin saman og unnið úr þessum gögnum yrði efnt til ítarlegra viðræðna við samtök atvinnulífsins um þetta efni.
    Auðvitað er alltaf hægt að segja að það væri æskilegra að gera þetta á skemmri tíma en því miður er það þannig að því eru mjög takmörk sett hvað okkar fámenna embættiskerfi og starfsmannakerfi í skattamálum sérstaklega ræður við. Það hefur verið gagnrýnt mjög, bæði hér og annars staðar, að fjölga að óþörfu í þessu starfsmannaliði og þess vegna taldi ég skynsamlegra að taka þetta í þessum áföngum, vanda verkið betur og framkvæma þann víðtæka samanburð sem þarf að gera á skattkerfi hér á Íslandi og í helstu viðskiptalöndum okkar, m.a. með tilliti til þeirrar alþjóðlegu aðlögunar sem þarf að vera í okkar útflutningsgreinum og atvinnulífi á allra næstu árum. Það er bara það umfangsmikið verk að því verður ekki lokið á örfáum mánuðum.
    Þetta vildi ég láta koma hér alveg skýrt fram. Að öðru leyti tel ég að ríkisstjórnin hafi staðið við þau fyrirheit sem hún gaf samtökum vinnumarkaðarins í síðustu kjarasamningum.