Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú sagt að ekkert hafi verið gert í þeim málum sem varða skattlagningu fyrirtækja á þessu ári. ( Fjmrh.: Það sagði ég ekki. Hvers konar útúrsnúningar eru þetta?) Hann sagði að ekki hefði verið haft samráð við samtök atvinnurekenda um þessa endurskoðun. Ég skildi hans orð svo. Og ég tel óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann sé sáttur við þá málsmeðferð sem hæstv. fjmrh. hefur hér kynnt að þau orð sem hér standa í bréfi forsrh. frá 30. apríl sl. til Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna, sem varða vörugjald í tengslum við upptöku virðisaukaskatts um næstu áramót, sem varða jöfnunargjald --- hér stendur berum orðum, hæstv. iðnrh.: ,,Jöfnunargjald af innfluttum vörum verður hækkað tímabundið úr 3% í 5% og fellur niður þegar virðisaukaskattur kemur til framkvæmda.`` Þetta er alveg afdráttarlaust, en hæstv. fjmrh. hefur sagt að frv. um þetta efni verði einungis kynnt á næsta ári. Það sem hér stendur um stimpilgjöld er marklaust og það sem hér stendur um skattlagningu fyrirtækja ekki virði þess pappírs sem það er skrifað á.
    Þetta verður allt saman tekið til athugunar, skilst mér, hjá hæstv. fjmrh. einhvern tímann síðar og síðan verður Alþingi kynnt það á næsta ári hvaða hugmyndir ríkisstjórnin gerir sér um þetta mál. Ekki einu sinni á þessu þingi. Kannski á haustþinginu næsta, þá verður þetta kynnt Alþingi og ekki einu sinni gefið fyrirheit um það að ríkisstjórnin vilji að þessar breytingar verði að lögum á næsta ári.
    Nú hefur hæstv. iðnrh. margoft lýst því yfir að hann telji mjög nauðsynlegt að íslensk fyrirtæki búi sig undir þá samkeppni sem fólgin er í sameiginlega markaðnum í Evrópubandalaginu og talað um nauðsyn þess að breyta skattalögum í því sambandi. Ég man sérstaklega, þegar ég studdi hann sem viðskrh. á sínum tíma og við vorum vorið 1988 að vinna saman að því að koma hér í gegn frumvörpum um breytingu á skattalögum, að hæstv. viðskrh. þá og hæstv. fjmrh. þá höfðu stór orð um það hversu miklar framúrstefnubreytingar þetta væru, skærasta rósin í hnappagati Alþfl., skildist manni, svo áratugum skipti. Síðan kemur önnur rós enn rauðari og þá fer nú að dofna yfir rauða litnum kratanna. Svo er þetta allt saman tekið til baka fyrir einu ári og ekki nóg með að það væri tekið til baka þannig að það bitnaði ekki á fyrirtækjunum heldur var það gert með afturvirkum sköttum, þannig að fyrirtæki guldu þess að hafa hagað sér í samræmi við þá skattlagningu sem lögfest var á árinu 1988. Þó lýsti hæstv. viðskrh. því yfir að hann gæti ekki unað því að skattar væru afturvirkir. Þess vegna er óhjákvæmilegt að fá upplýsingar um það hvernig hæstv. viðskrh. lítur á þetta mál.