Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja það vegna ræðu Halldórs Blöndals að ég hef sýnt honum þá virðingu í þessari umræðu að taka orð hans og ræður alvarlega. En athugasemdir hans hér áðan voru fyrst og fremst útúrsnúningur sem verður til þess að maður tekur fsp. ekki jafnalvarlega ef umræðan á að halda áfram í þessum dúr. Auðvitað taldi ég enga þörf á því að taka það fram sem liggur fyrir í landslögum, og hv. þm. nefndi sjálfur, að erlendi lántökuskatturinn var felldur niður og vörugjald var fellt niður með umfangsmiklum hætti 1. september. Að draga þá ályktun af því að vegna þess að ég nefndi þetta ekki sérstaklega í minni ræðu hefði ég sagt að ekki hefði verið staðið við fyrirheitin um skattana er náttúrlega fullkominn útúrsnúningur. ( HBl: Ég tók sjálfur fram í minni fsp. að það hefði ekki verið staðið við þessi fyrirheit og breyti því ekki.) Já, akkúrat. Enda taldi ég þess vegna óþarfa að vera að endurtaka það og er að gera athugasemd við þá ályktun síðan að vegna þess að ég hefði ekki endurtekið það hefði ég viðurkennt það að ekki hefði verið staðið við þessar yfirlýsingar varðandi skattana. Það sem ég sagði hins vegar og ég tel efnislega vera fullgild rök var að víðtækari breytingar á skattlagningu atvinnulífsins á Íslandi til samræmis þeim skattkerfum sem ríkja í helstu viðskiptalöndum okkar er einfaldlega það umfangsmikið verk og það viðamikil vinna að það verður ekki gert á nokkrum mánuðum svo vel sé. Þess vegna var upp úr miðju þessi ári tekin ákvörðun um það að gefa því verki lengri tíma, safna til þess mjög ítarlegum gögnum, fá um það hugmyndir frá ýsmum ráðherrum, og þær hafa komið bæði frá iðnrh. og hæstv. sjútvrh. Leita eftir föngum í þeim viðskiptalöndum og hjá þeim aðþjóðastofnunum sem vel þekkja til og leggja málið þannig vel undirbúið fyrir aðila vinnumarkaðarins á sínum tíma. Ég vona að þetta sé alveg nægilega skýrt til þess að menn geti skilið þá hugsun og þau vinnubrögð sem þarna hafa verið mótuð.
    Varðandi fsp. hv. þm. Egils Jónssonar, þá taldi ég mig hafa svarað henni. Ég vakti athygli á því að í frv. til fjáraukalaga sem hefur verið lagt fram hér á Alþingi og í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár eru ætlaðar ákveðnar upphæðir til þessa uppgjörs. Ég lýsti því hér áðan, þó ég hefði ekki tölurnar hér við höndina og færi með það eftir minni, tek það skýrt fram, ( EgJ: Að þær dygðu.) eftir því sem ég myndi hér og nú mundi það duga til þess að gera upp málin fyrir árið 1988. Ég er hins vegar ekki með tölurnar nákvæmlega hér og þarf að skoða það betur. ( EgJ: Þær verða þá bara leiðréttar.) Þetta sagði ég hér áðan en hitt vil ég svo endurtaka einnig sem ég sagði að það hefur alltaf legið ljóst fyrir að það mundi taka nokkurn tíma að vinna að þessu uppgjöri. Og ég lýsti því yfir að það mundi ekki taka lengri tíma en í tíð þeirrar ríkisstjórnar þegar hv. þm. Egill Jónsson var ábyrgur fyrir málum, vegna þess að það hefur m.a. komið í minn hlut að reyna að útvega fjármagn til þess að standa við fyrirheit sem gefin voru þegar hv.

þm. Egill Jónsson réð miklu um stjórn þessara mála. ( EgJ: Ég spurðist bara fyrir um ártalið.)