Námslán og námsstyrkir
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur frammi um breytingu á lögum nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, er náttúrlega íhugunarefni. Þar er í rauninni ekki verið að leggja til aðra breytingu en þá að breyta skipun í stjórn, og það vegna þess að núverandi stjórn Lánasjóðsins hlýðir ekki ráðherra og hleypur ekki eftir hans óskum eins og hann vill. Það á sem sagt að gera þetta að pólitískri stjórn sem hlítir fyrirmælum ráðherra í einu og öllu. Það er ekki hlutverk okkar hér á Alþingi að búa til pólitískar stofnanir og þetta er í anda einræðis og kemur manni auðvitað ekki á óvart úr þeim herbúðum sem hæstv. ráðherra er. En hann skyldi hafa það í huga þá um leið að félagar hans fyrir austan járntjald eru nú að reyna að hlaupa undan merkjum þess einræðis sem hann er nú að reyna að koma á og væri honum hollt að fara í skóla þangað í nokkra daga.
    En það er auðvitað svo að þessi lánamál eru náttúrlega miklu víðtækari heldur en skipun stjórnar þó að það sé ágætt út af fyrir sig. Það vekur líka upp þá hugmynd hvort það eigi að vera stjórn með þeim hætti sem er í dag fyrir Lánasjóðinn, hvort ekki megi hugsa sér að koma þessu fyrir í bankakerfinu. Við höfum þegar tvo ríkisbanka sem gætu auðveldlega tekið að sér þetta hlutverk sem slíkt og það mætti vel hugsa sér að það væri í þeirra verkahring að sjá um þau fjármál sem þarna fara í gegn. En hitt er náttúrlegra alvarlegra mál að það blasir við að það verður veruleg skerðing á því lánsfé sem ríkið hefur skuldbundið sig til að inna af hendi með samningi við námsmenn.
    Í greinargerð frá samstarfsnefnd námsmannahreyfinga um Lánasjóð ísl. námsmanna sem er dagsett 1. nóv. 1989 kemur fram, með leyfi forseta, að það vanti vegna skerðingar 277,3 millj. og auk þess hafi námsmönnum fjölgað um rúmlega 300 á þessu skólaári, auk þess sem tekjur þeirra hafi dregist verulega saman, og því hafi fjárþörf Lánasjóðsins aukist af þessum sökum um 465 millj.
    Þetta er álit þeirra fjögurra hreyfinga sem standa að þessum útreikningum, Bandalags ísl. sérskólanema, Iðnnemasambands Íslands, Sambands ísl. námsmanna erlendis og Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
    Það er náttúrlega mikið áhyggjuefni ef menn eru að gera samninga eins og hafa verið gerðir hér og setja lög um slík lán að síðan skuli skorið niður með þessum hætti. Það er einnig nokkuð ljóst að Lánasjóðurinn muni í lok ársins 1991 verða í verulegum vandræðum, en þá hefur ráðherrann væntanlega hugsað sér að hann væri þá farinn úr ríkisstjórn því þá verður búið að kjósa upp á nýtt, sem margur bíður nú reyndar eftir, og þá yrði vandi þessa sjóðs miklu meiri en fram hefur komið.
    Það er því í rauninni verið að leggja hér til breytingu á lögum sem er óþörf frá því sjónarmiði að það á ekki að vera vilji ráðamanna sem slíkra sem ræður, að þeir ráði algjörlega yfir stjórnum sem eru kosnar. Ég tek undir það sem hv. 2. þm. Reykv. sagði

áðan að það væri líka íhugunarefni hvort stjórnin ætti ekki að vera kosin af Alþingi beint. Ég held að slíkar stjórnir, ef þær eiga þá að vera kosnar pólitískri kosningu, eigi að vera sem sjálfstæðastar þó þær séu kosnar af Alþingi eða fulltrúar skipaðir af ráðherra. Þeir verða að taka málefnalega afstöðu til málanna og þeir verða auðvitað að standa á því sem slíku. Deilan sem þetta frv. er runnið út af er sú að formaður Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur staðið á rétti sjóðsins til að gera hann ekki gjaldþrota. Honum hefur verið það ljóst að hann verður að vera ábyrgur fyrir því að sjóðnum sé ekki gert um of nema hann fái aukna fjármuni. Þetta er auðvitað alveg rétt stefna.
    Ég hef svo mínar efasemdir um að svokallaður framfærslugrunnur sé réttur sem er lagður til grundvallar þeim lánum sem eru veitt og svar ráðherra Hagstofu Íslands við fyrirspurn hv. þm. Inga Björns Albertssonar um samsetningu vísitölu framfærslukostnaðar gefur tilefni til þess að maður spyrji sig hvort sú vísitala sé nothæf eður ei því í svarinu kemur í rauninni ekkert fram sem gefur tilefni til að ætla að það sé alveg öruggt að það sé sá grundvöllur sem maður gæti ætlað að væri nothæfur. Það er alveg ljóst að vísitölugrunnurinn ræðst að sumu leyti af mjög mikilli hentistefnu þeirra sem reikna hann út.
    En ég held að það væri réttmætt að athuga þá hugmynd að stjórn sjóðsins yrði kosin af Alþingi, þó að ég telji réttara að setja þessi mál beint undir annan hvorn ríkisbankann, og það þyrfti í rauninni ekki neina stjórn í þessi mál því að rammi Lánasjóðsins er alveg nægileg trygging fyrir því að farið sé eftir þeim reglum sem þar eru hverju sinni í lögum. Stjórnendum ríkisbankanna er alveg treystandi til að fara með þessa fjármuni eins og hverjum öðrum. Það mundi spara okkur það að vera með sérstaka stofnun sem sæi um þetta. Stór hluti af þessum lánum fer hvort sem er í gegnum ríkisbankana, Landsbanka Íslands, og það er því ástæðulaust að hafa eitt báknið enn til að sinna þessu.
    En ég vil ítreka þá skoðun mína hér að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna sé ekki kosin með þeim hætti sem hér er lagt til því ég tel farsælla að hún sé skipuð til lengri tíma, ef það á að skipa hana, og að það sé þá unnið faglega að þeim málefnum sem Lánasjóðurinn fjallar um án tillits til þess hvaða stjórnvöld eru við völd hverju sinni, því það á ekki að breyta því að þeir sem sitja í stjórn þessa sjóðs eru fyrst og fremst að hugsa um þarfir námsmanna. Það er því alveg ástæðulaust að vera með þetta stjórnmálalega yfirklór til þess að koma í burtu stjórn hverju sinni sem hlýðir ekki ráðherra út í ystu æsar.
    Ég held að ég hafi þetta ekki lengra en þó væri auðvitað ástæða til að ræða þessi mál miklu ítarlegar. Það mætti líka ræða um þær reglur sem liggja til grundvallar úthlutun úr sjóðnum, sem ég hef að sumu leyti miklar efasemdir um að eigi að vera með þeim hætti, en það verður ekki gert að þessu sinni. En ég vona að það fáist niðurstaða frá menntmn. með þeim hætti að stjórn sjóðsins verði sem allra mest sjálfstæð

og óháð okkur stjórnmálamönnunum.