Námslán og námsstyrkir
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Nokkrar athugasemdir í tilefni af ræðu hæstv. menntmrh. hér áðan. Í fyrsta lagi gerði hann að umtalsefni þær hugmyndir sem ég setti fram í minni fyrri ræðu varðandi skipan stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna, þ.e. að það yrði tekið til athugunar í menntmn. Nd. hvort ekki væri rétt að Alþingi kysi hluta af fulltrúunum, þ.e. þann hluta sem ríkisvaldið tilnefnir, en síðan mundu námsmenn tilnefna ákveðinn fjölda þannig að eðlileg hlutföll væru í sjóðsstjórninni.
    Ég get ekki séð af hvaða ástæðum hæstv. menntmrh. óttast að námsmenn misstu sinn rétt ef Alþingi kysi fulltrúa ríkisins í þessa sjóðsstjórn. Ég tók það einmitt skýrt fram að ég teldi eðlilegt að námsmenn hefðu sína fulltrúa í þessari stjórn og því sé ég ekki ástæðu fyrir þessum ótta hæstv. ráðherra.
    Meginatriðið er auðvitað það að koma í veg fyrir að jafnógeðfelldar aðferðir séu notaðar og þær sem koma fram í þessu frv., þ.e. hæstv. ráðherra hefur haft uppi opinberlega mikinn áróður um það að núverandi fulltrúar ríkisins í stjórn Lánasjóðsins séu honum fjandsamlegir, reki pólitík sem sé fjandsamleg honum sem ráðherra. Ég gat þess í minni fyrri ræðu að þetta er auðvitað fráleit ásökun og vitnaði hér í bréf sem ég hef undir höndum þar sem fram kemur að það eina sem fulltrúar ríkisins í stjórn sjóðsins hafa unnið sér til saka er að benda hæstv. ráðherra á að ákvarðanir sem hann hefur verið að taka varðandi málefni Lánasjóðsins standast ekki fjárveitingar til sjóðsins, þ.e. þær rúmast ekki innan fjárveitingarammans, og því hafi þurft meira fjármagn á árinu 1989 en fjárlög gera ráð fyrir. Nú er komið í ljós að þessi tala er um 280 millj. kr. eins og fram kom áðan og það er tekið á því dæmi að hluta í fjáraukalögum en ekki að öllu leyti, þ.e. 180 millj. eru í fjáraukalögunum en ekki 100 millj. sem á vantar.
    Varðandi fjárlögin fyrir árið 1990, sem hæstv. ráðherra gat um, áréttaði hann að Alþingi hlyti auðvitað að breyta fjárlagatölunni með tilliti til breyttra forsendna og nefndi í því sambandi verðlag, fjölda námsmanna og áhrif tekna námsmanna á útlán sjóðsins. Taldi hann að þetta yrði allt tekið með inn í dæmið þegar Alþingi gengi endanlega frá fjárlögum. Auk þess ætti að skoða það svigrúm sem skuldbreytingar gefa. Með þessu staðfestir hæstv. ráðherra auðvitað það sem ég sagði í minni fyrri ræðu og greinilega kemur fram í grg. með fjárlagafrv., að hæstv. ráðherra hyggst ekki standa við þá samninga sem hann gerði við námsmenn í upphafi árs um rúmlega 6% hækkun á framfærslugrunni námslána frá 1. jan. nema að svo miklu leyti sem skoðun á auknu svigrúmi vegna skuldbreytinga gefi tilefni til. Auðvitað þurfti ráðherra ekki að staðfesta þetta jafnrækilega og hann gerði því að það kemur glögglega fram í fjárlagafrv. sjálfu og í grg. Þar segir að raungildi fjárveitingar sé jöfn fjárveitingu 1989 að viðbættri aukinni greiðslubyrði sjóðsins af teknum lánum. Þá segir orðrétt í grg. með fjárlagafrv.:
    ,,Sú fjárhæð``, þ.e. útlánafjárhæð sjóðsins ,,miðast

við það að við ákvörðun úthlutunarreglna fyrir skólaárið 1990--1991 verði heildarútlán sjóðsins miðuð við útlán í forsendum fjárlaga 1989, að teknu tilliti til breytinga á verðlagi, gengi og fjölda lánþega. Að því leyti sem útlán sjóðsins á fyrri hluta árs 1990 verða umfram áðurnefndar forsendur verður að mæta þeim með lántöku. Hækkanir á framfærslugrunni námslána umfram breytingar á verðlagi rúmast ekki innan þess fjárlagaramma sem hér er gengið út frá.``
    Með öðrum orðum, sú hækkun sem átti að koma til framkvæmda 1. jan. rúmast ekki innan ramma fjárlaganna. Og ekki nóg með það, sú hækkun sem þegar hefur komið til framkvæmda bæði 1. apríl og 1. sept. rúmast ekki heldur innan ramma þessara fjárlaga. Eins og reyndar hefur komið fram í fjölmiðlum, m.a. í viðtölum við starfsmenn fjmrn., felur þetta fjárlagafrv. því í sér verulega skerðingu námslána, þannig að það er auðvitað alveg nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir þessu í umræðu eins og þessari sem nú fer hér fram.
    Varðandi skipun þeirrar nefndar sem aðeins hefur komið til umræðu og hæstv. menntmrh. gat um, og reyndar hafði ég gert það í minni fyrri ræðu og enn fremur hv. 12. þm. Reykv., þá þykir mér rétt, ekki síst að fenginni ábendingu hv. 12. þm. Reykv. um hvernig hæstv. menntmrh. hefur túlkað afstöðu bæði Sjálfstfl. og Kvennalistans í þessu efni, að lesa það bréf sem þingflokkur Sjálfstfl. sendi hæstv. menntmrh. þannig að ekkert fari á milli mála hvað í því stendur. Þetta geri ég með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Vísað er til bréfs dags. 5. okt. sl. þar sem þess er farið á leit að þingflokkur sjálfstæðismanna tilnefni fulltrúa í nefnd sem fjalla á um málefni Lánasjóðsins. Þingflokkurinn hefur fjallað um þetta erindi á fundi sínum og ákveðið að tilnefna ekki fulltrúa í þessa nefnd. Ástæður þess eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi eru aðalverkefni nefndarinnar, eins og þeim er lýst í bréfinu, þess eðlis að þau teljast til hefðbundinna verkefna stjórnar Lánasjóðsins og ráðuneytisins eftir að Alþingi hefur ákveðið framlag til sjóðsins á fjárlögum.
    Í öðru lagi er ekkert rætt um að taka með raunhæfum hætti á aðsteðjandi vandamálum sjóðsins og tryggja hagsmuni hans til frambúðar. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar eru engin ákvæði um Lánasjóðinn. Í því sambandi er rétt að rifja upp loforð núv. menntmrh. úr kosningabaráttunni 1987 um að í ríkisstjórn sem Alþb. ætti aðild að mundi setja ákvæði í stjórnarsáttmála um að tryggja að lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna kæmu að fullu til framkvæmda og fyrri ,,skerðingar`` yrðu bættar. Og í mars 1987 fluttu nokkrir þm. Alþb. till. til þál. um sama efni.
    Í þriðja lagi ákvað menntmrh. í febrúar á þessu ári með sérstöku samkomulagi við námsmenn að námslán skyldu hækka um 20,1% sem koma átti til framkvæmda í þremur áföngum, 1. mars og 1. sept. 1989 og 1. jan. 1990. Hækkanirnar á árinu 1989 hafa orsakað mikla þörf fyrir aukafjárveitingu til Lánasjóðsins sem þarf að taka afstöðu til þegar frv. til

fjáraukalaga verður lagt fram.
    Í bréfinu segir enn fremur að annar aðaltilgangur nefndarinnar sé að gera tillögur um fjármál sjóðsins á næsta ári með hliðsjón af fjárlagafrv. fyrir árið 1990. Í fjárlagafrv. hefur ríkisstjórnin markað stefnuna fyrir Lánasjóðinn fyrir árið 1990. Þar er í fyrsta lagi ekki gert ráð fyrir neinni hækkun í janúar og í öðru lagi að þeim auknu útgjöldum sem hækkanirnar frá því í mars og september sl. höfðu í för með sér verði náð til baka á seinni hluta árs og alfarið á árinu 1991.
    Öll stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna er því með þeim hætti að þingflokkurinn sér ekki ástæðu til neins samstarfs við hana um þessi mál.``
    Undir þetta ritar formaður þingflokksins, hv. 2. þm. Reykn. Ólafur G. Einarsson.
    Mér þótti rétt að lesa þetta bréf upp þar sem mér finnst að hæstv. ráðherra hafi nokkuð rangtúlkað efni þessa bréfs þegar hann hefur getið þess í fjölmiðlum þannig að það lægi þá hér svart á hvítu í þingtíðindum hvers efnis þetta bréf var.
    Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta, en mun að sjálfsögðu taka þessar hugmyndir, sem ég hef hér verið með, upp í hv. menntmn. þegar þetta mál kemur þar til umræðu.