Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):
    Herra forseti. Hér er verið að endurflytja mál sem var afgreitt úr þessari deild á síðasta vetri og var þá samþykkt hér í deildinni. Þess vegna er ekki þörf á því að hafa hér langa umræðu, enda málið sjálfsagt. Það eina sem rétt er þó að undirstrika af því að nafn frv. er villandi er að þetta fjallar ekki um undanþágur til fiskveiða í landhelgi Íslands. Þetta fjallar um það hvort Færeyingar og Grænlendingar skuli hafa frjálsan aðgang að íslenskum höfnum. Um veiðiréttindi þeirra utan landhelgi Íslands fer að sjálfsögðu eftir allt öðrum lögum, og eins ef þeir hafa einhver veiðiréttindi innan landhelginnar.
    Ég tel að með samþykkt þessa frv. á Alþingi Íslendinga væri stigið stórt skref til að tryggja íslenskum iðnaði, þjónustuiðnaði á hinum ýmsu sviðum, atvinnu. Og ég held að það sé rétt að við gerum okkur grein fyrir því að þó að lög eins og þessi hafi verið sjálfsögð þegar við vorum með þriggja sjómílna landhelgi og þeir sem stunduðu veiðar við strendur landsins voru í beinni samkeppni við íslenska fiskiskipaflotann þá eiga lögin ekki rétt á sér þegar við erum komnir með 200 mílna landhelgi.
    Hins vegar er ég sannfærður um það að samstaða og samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands á eftir að skipta miklu máli í framtíðinni gagnvart efnahagslegri farsæld þessara þjóða. Hinir sameiginlegu hagsmunir þeirra eru svo stórir og
miklir vegna þess að þessi lönd drottna yfir aðalveiðisvæðum Norður-Atlandshafsins. Ég er líka sannfærður um það að við þurfum að stíga þetta skref. Það er hægt að þumbast við einhvern tíma ef mönnum sýnist svo og reyna að koma sér undan því en það verður aldrei lengi liðið að Íslendingar hagi sér á þann hátt að þeir telji það ekki sjálfsagðan hlut að þeir sem stunda veiðar hér norður í höfum eigi rétt á því að leita til lands og hafa hér alla þá þjónustu sem eðlileg getur talist.
    Ég held að það sé margt sem bendir til þess að þetta mál eigi nú ekki aðeins greiða leið í gegnum neðri deild Alþingis heldur í gegnum Alþingi Íslendinga og verði samþykkt. Því mér finnst skrýtið ef menn ætla að standa hér á Alþingi og koma í veg fyrir það að íslenskar málm- og skipasmíðastöðvar eigi þó möguleika á þeim verkefnum sem áhugi er fyrir hjá þessum aðilum að þær fái. Það hefur verið rætt um það, þó að það sé ekki í þessu frv., að eðlilegt sé að stíga stærra skref seinna og veita fleiri þjóðum þennan rétt. Ég vildi stíga þetta skref í áföngum, m.a. í þeirri von að þá mundum við fyrr taka þá ákvörðun sem lagt er til að hér verði tekin.
    Ég vil svo, með leyfi forseta, óska eftir að þessu máli verði vísað til 2. umr. að lokinni umræðu í deildinni nú og til sjútvn. neðri deildar.