Sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. dómsmrh. hefur málum fjölgað og umfang þeirra vaxið. Því miður. En sú staðreynd hversu mjög fíkniefnanotkun hefur færst í vöxt hér á landi á undanförnum árum hlýtur að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni. Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld grípi til samhæfðra aðgerða í baráttunni gegn útbreiðslu fíkniefna og notkun þeirra og vil ég við þessa 1. umr. ítreka það sem fyrr hefur komið fram í málflutningi okkar kvennalistakvenna hér í þinginu að forvarnarstarfið hlýtur alltaf að vera mikilvægasta atriðið.
    Á undanförnum mánuðum hafa öðru hverju birst fréttir um sölu og notkun á fíkniefnum og ljóst er að þrátt fyrir gott starf fíkniefnadeildar lögreglunnar á undanförnum árum berast stöðugt hættulegri efni til landsins og straumurinn virðist stöðugur. Því hlýtur sú spurning að vakna nú, eins og reyndar oft áður, hvort fíkniefnalögreglan hafi þeim mannafla á að skipa sem nauðsynlegur er til að sinna þessum málaflokki og hvort vinnuaðstaða lögreglunnar sé fullnægjandi. Væri fróðlegt ef hæstv. dómsmrh. hefur um það upplýsingar hvernig staðan er nú að fræða okkur um það. Á síðasta kjörtímabili fluttu kvennalistakonur brtt. við fjárlög til að auka við starfsfólki í fíkniefnadeildinni því að þá var staðan vægast sagt slæm hvað mannafla varðaði.
    Eins og allir vita er innflutningur og sala á fíkniefnum mjög alvarlegt mál og fíkniefnasalar geta orðið miklir örlagavaldar í lífi margs fólks ef þeir geta stundað iðju sína óáreittir. Á fréttum er að skilja að efnin sem berast gerist stöðugt hættulegri.
    Nú á dögunum máttum við landsmenn sitja undir viðtali í Ríkisútvarpinu við einn þeirra manna sem stunda sölu á fíkniefnum. Var hann þar að mínu mati réttilega nefndur sölumaður dauðans og fram kom að fyrir utan það að velta milljónum á mánuði hverjum hefur hann líf margra í höndum sér. Frá mínum bæjardyrum séð er með öllu óverjandi að þurfa að sitja undir slíkum fréttum eða viðtölum án þess að geta nokkuð aðhafst til að stöðva viðkomandi aðila.
    Það frv. sem hér liggur fyrir fjallar aðeins um einn þátt í ávana- og fíkniefnamálum, þ.e. dóma, og get ég tekið undir efni þess. Það má vera nauðsynlegt í ákveðnum tilfellum að kalla fleiri til ábyrgðar á dómum í slíkum málum, en ég vildi aðeins láta koma fram þessar áhyggjur okkar kvennalistakvenna af notkun ávana- og fíkniefna almennt. Vil ég um leið minna á þáltill. sem samþykkt var á 108. löggjafarþingi sem var flutt af Kjartani Jóhannssyni, þáv. hv. þm., um tafarlausa afplánun vegna fíkniefnabrota. Vil ég sömuleiðis minna á að ég hef lagt fram fsp. til hæstv. dómsmrh. um dóma vegna fíkniefnasölu og vænti þess að fá við henni svör hið allra fyrsta.
    Ég vil að lokum spyrja hæstv. dómsmrh., vegna þess hversu alvarlegt málið er, hvort uppi séu áform af hálfu stjórnvalda að skipuleggja einhvers konar

fræðsluherferð í skólum og meðal almennings um notkun ávana- og fíkniefna og vil í því efni vitna til samtala minna við marga kennara núna að undanförnu sem fullyrða að eftir að áróðurinn gegn reykingum datt niður hafi reykingar stóraukist meðal skólabarna. Held ég að það sé nokkuð til í því þó að ekki liggi fyrir tölulegar rannsóknir. Forvarnarstarfið er mjög mikilvægt og það er nauðsynlegt að grípa á vandamálum vegna ávana- og fíkniefna á öllum stigum.
    Eins og ég gat um áðan sýnist mér að hægt sé að taka undir efni þessa frv. en mun að sjálfsögðu kynna mér það nánar þar sem ég á sæti í hv. allshn. þessarar deildar.