Sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég get að sjálfsögðu tekið undir það sem hér hefur verið sagt um þann mikla vanda sem er í sambandi við innflutning og sölu fíkniefna. Ég tel að hér sé sjálfsagt verið að vinna að því að auðvelda það að mál í sambandi við fíkniefnabrot verði betur afgreidd í réttarkerfinu. Mér finnst samt að þegar verið er að breyta lögunum um fíkniefnadómstól, eins og hér er lagt til, verðum við að ætlast til þess að þingið fái sæmilegan tíma til að kanna þetta mál.
    Fíkniefnadómstóllinn er nú orðinn --- ja, líkast til upp undir tvítugur, ætli hann sé ekki 17--18 ára eða eitthvað svoleiðis og tillaga um breytingu hefur ekki komið upp fyrr en núna, en sjálfsagt er það, eins og reyndar fram kom, út af sérstökum aðstæðum nú sem talið er æskilegt að breyta dómstólnum. Ég ætla ekki að fara að úttala mig um þá afstöðu, en sú breyting sem hér er lögð til er vissulega þó nokkuð mikil. Það er lagt til að dómari geti kvatt til með sér í dómstól, ekki dómara beint úr dómarakerfinu eins og er í borgardómi, heldur menn sem ættu að vera fullgildir til þess að dæma í slíku máli. Þetta er sérstakt. Það má vera að það sé að einhverju leyti hægt að bera þetta saman við sjódóm en þetta er ekki eins og mál eru rekin í héraði, í borgardómi.
    Ég tel þess vegna að við í allshn. þurfum að skoða þetta mál og fá til viðræðu menn úr dómskerfinu til þess að átta okkur á því hvers lags breyting á sér stað. Ég tel aftur á móti alveg sjálfsagt að verða við óskum hæstv. dómsmrh. um að þetta mál fái eins skjóta meðferð hér í þinginu og mögulegt er miðað við þá nauðsynlegu skoðun sem það þarf að fá.