Gjald af erlendum lánum vegna skipasmíða
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Flm. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Það væri ástæða til þess við þessa umræðu, úr því að hæstv. sjútvrh. er mættur hér á staðnum, að svara nokkru hans undarlegu ræðu sem hann flutti þegar ástand í atvinnulífi var til umræðu í sameinuðu þingi. Mátti glöggt finna að ráðherrann var eitthvað miður sín, því málflutningur hans var af því tagi að lítið kom nærri sannleikanum og útúrsnúningur það litla sem var. Hitt get ég á hinn bóginn skilið að hæstv. ráðherra skuli hafa hrokkið í kút þegar bent var á hvernig kaupmáttur hafði hrunið hér á landi og ekki undarlegt þótt hann tæki það þannig upp að ég væri að hvetja til þess að reynt yrði að gera ráðstafanir til þess að sú þróun breyttist og launþegar hér á landi gætu vænst þess að kjör þeirra bötnuðu á nýjan leik.
    Það frv. sem hér er til umræðu er um endurgreiðslu á gjaldi af erlendum lánum vegna skipasmíða hér á landi og er einfalt í sniðum.
    1. gr. er svohljóðandi: ,,Gjald af erlendum lánum, sem tekin voru til skipasmíða hér á landi samkvæmt lögum nr. 10/1988, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sbr. lög nr. 101/1988 og lög nr. 51/1989, skulu endurgreiðast úr ríkissjóði þegar í stað.``
    Ég tek hér sem dæmi að í Slippstöðinni á Akureyri er í smíðum 250 tonna fiskiskip. Þau lántökugjöld sem greidd hafa verið vegna þessa skips nema verulegum fjárhæðum. Ég vil í þessu samhengi, herra forseti, rifja upp að ýmsir vöruflokkar sem teljast hráefni í samkeppnisiðnaði voru undanþegnir ákvæðum laganna um lántökugjald og er til listi yfir tollskrárnúmer þessara vöruflokka. Á hinn bóginn hefur framkvæmd laganna verið með þeim hætti að lántökugjald hefur verið innheimt af lántökum til skipasmíða eða skipaviðgerða hvort sem þær voru innan lands eða utan og ákvarðaðist gjaldið af lengd samningsins.
    Ég hef fengið þær upplýsingar hjá fjmrn. að skipasmíði og skipaviðgerðir voru engir sérstakir lánaflokkar og í framkvæmdinni ekki undanþegnar lögunum. Gjaldtakan réðst af lengd skipasmíða- eða viðgerðarsamnings. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að hæstv. viðskrh. lýsti því hér yfir í þessum ræðustól sl. vor, að innlendar skipasmíðar yrðu undanþegnar lántökugjaldi. Og þetta er líka athyglisvert í ljósi þess að ýmsar sögur eru í gangi þess efnis að einstökum útgerðarmönnum hafi tekist að fá lántökugjaldið endurgreitt úr ríkissjóði þó svo að þær almennu upplýsingar sem þingmaður óskar að fá úr fjmrn., með aðstoð starfsmanna Alþingis, segi annað. Ef svo er að einhver brögð eru að því að útgerðarmenn hafi fengið lántökugjaldið endurgreitt, er það aðeins dæmi um það að ríkisstjórnin hefur þó þarna reynt að standa við það sem hún hét hér í þessum ræðustól á sl. vori, og er ekki nema gott um það að segja. Eðlilegt er að fjh.- og viðskn., sem fær þetta mál til meðferðar, athugi þann þátt málsins sérstaklega. En hitt er auðvitað alveg augljóst að á sama tíma og hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir að í löndum Efnahagsbandalagsins

séu skipasmíðar styrktar með 26--36% opinberum styrkjum, á sama tíma og hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir að eðlilegt sé að þiggja þessa styrki, og á sama tíma og hann lýsir því yfir að ekki sé við því að búast að íslenskur skipasmíðaiðnaður njóti eðlilegrar samkeppni borið saman við lönd Evrópubandalagsins, fyrr en eftir 1992, ca. árið 1993 eða svo, er auðvitað dæmalaust og algjör óhæfa að innheimta lántökugjald af fjármagni sem varið er til innlendrar skipasmíði. Skiptir auðvitað í þeim efnum engu máli hvaða skoðun einstakir ráðherrar hafa á þessum efnum. En eftir ummælum hæstv. sjútvrh. í sameinuðu þingi þegar þessi mál voru hér til umræðu er ekki undarlegt þótt hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands hafi fundist sem þannig andaði til skipasmíðaiðnaðar í ríkisstjórninni að einhverjir þar innan dyra vildu þann iðnað dauðan. Það verður hins vegar að vera einkamál einstakra ráðherra hvernig þeir dæma og meta hver annan, en eins og ég sagði þar, eftirtektarvert að hæstv. forsrh. skuli ekki láta frá sér heyra um þessi mál. Það var líka eftirtektarvert, herra forseti, að þegar ég spurði hæstv. forsrh. um það hvort málefni skipasmíðaiðnaðarins hefðu verið rædd í ríkisstjórninni frá septembermánuði til októberloka, þá lýsti hann því yfir að það hefði margsinnis verið gert. Áður hafði ráðherra Hagstofu lýst því yfir að það hefði aldrei verið gert og þegar hæstv. iðnrh. var spurður var helst að heyra sem einstakir ráðherrar hefðu rætt þetta sín á milli á hlaupum. Þannig að þrjár útgáfur eru nú komnar af því hvort skipasmíðaiðnaðurinn hafi yfirleitt verið ræddur í þessari ríkisstjórn. Og það sem kannski er enn þá undarlegra er það að hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands lítur svo á að hann eigi að móta stefnu í atvinnumálum og reyndi að koma því til skila í sameinuðu þingi á mánudaginn. Á hinn bóginn stóð ekki á því, eftir að ráðherra Hagstofu Íslands hafði vikið sér úr þingsalnum, að ráðherra iðnaðarmála lét þess getið að stefnan í skipasmíðamálunum yrði ákveðin í iðnrn., þar yrði það verk unnið, og ekki að heyra að ráðherra Hagstofu Íslands fengi að koma þar nokkurs staðar nærri.
    Ég skal svo ekki að öðru leyti fara fleiri orðum um þetta, en aðeins láta þess getið að lokum að ég mun berjast eins og áður af öllum kröftum fyrir því að við Íslendingar getum haldið hér uppi myndarlegum skipasmíðaiðnaði. Ég lít raunar þannig á að ekki væri ærleg taug í þeim þingmanni Akureyrar sem mundi láta það hvarfla að sér að styðja ríkisstjórn sem vildi Slippstöðina á Akureyri feiga, eða hefur hana í flimtingum hér í þingsölum.
    Ég vil, herra forseti, leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.