Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Það er nú kannski ekki miklu við það að bæta sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér, enda erindið svipað. Ég bar fram þá fyrirspurn til Borgfl. við síðustu umræðu þessa máls hver afstaða flokksins væri til þessa, enda ærin ástæða til. Alþjóð þekkir náttúrlega Borgfl. að allt öðru en breyta frá sinni stefnu. Það væri þess vegna afar athyglisvert að fá það staðfest hér að þeir eru sjálfum sér trúir og munu halda sig við þá stefnu sem þeir hafa mótað og kom glögglega í ljós við atkvæðagreiðslu um þetta málefni hér á síðasta þingi. Þess vegna geri ég, líkt og síðasti ræðumaður, kröfu til þess að fulltrúar Borgfl. skýri þingheimi og alþjóð frá afstöðu sinni til þessa máls.
    Einn af þm. Borgfl., hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson, 16. þm. Reykv., hefur margoft í gegnum tíðina talað máli verslunarinnar og ég trúi ekki öðru en hann muni gera það áfram, enda þekktur fyrir stefnufestu eins og aðrir borgaraflokksmenn.
    Ég vil einnig upplýsa það hér, sem sárafáir þm. heyrðu í utandagskrárumræðu fyrir tveim dögum um atvinnumál, að þá kom fram hjá hæstv. viðskrh., þegar hann var að svara fsp. minni um þessa skattlagningu, að hann væri því alveg sammála og það væri hans skoðun að þennan skatt ætti að fella niður. Hann sagðist hafa viðrað þá hugmynd sína í ríkisstjórninni og ríkisstjórninni væri vel kunn hans afstaða til þessa máls. Þar er fulltrúi Alþfl. í ríkisstjórn sem sagt á móti þessari skattlagningu. Við höfum stefnu Borgfl. í þessu máli þannig að spurningin hlýtur að vera sú, hefur þetta mál yfir höfuð þingmeirihluta?
    Hæstv. forseti. Ég ítreka beiðni til fulltrúa Borgfl. sem hér er staddur, hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson, að hann svari nú þessari fsp. Þingheimi er hins vegar ljós afstaða hv. þm. Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur sem greiddi þessu ekki atkvæði sitt á síðasta þingi.