Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Það kom fram við upphaf þessarar umræðu fyrir viku síðan að hér er á ferðinni fyrsta tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar á þessu þingi. Það gefur þess vegna tilefni til þess að grennslast nánar fyrir um það hvað kann að vera á döfinni hjá hæstv. ríkisstjórn í þeim efnum. Um það var nokkuð fjallað hér í síðustu viku, við þá umræðu sem þá fór fram, sem ég hafði þá að vísu ekki aðstöðu til að taka þátt í.
    Nú eru liðnar fimm vikur af þessu þinghaldi og það eru ekki nema u.þ.b. sex vikur þangað til gert er ráð fyrir því að jólaleyfi þingmanna hefjist. Það er þess vegna alveg ljóst að það er mjög skammur tími til ráðstöfunar ef ætlunin er að leggja fyrir Alþingi umfangsmikil og flókin skattamál. En það verður ekki annað lesið út úr fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar eins og þær birtast, t.a.m. í fjárlagafrv., en að einmitt það sé ætlunin.
    Það hefur verið margrakið hér í þessari umræðu að ótal atriði varðandi virðisaukaskatt eru óútkljáð og verða að koma hér fyrir Alþingi, en ekkert bólar á slíku frv. Það bólar heldur ekkert á því að ríkisstjórnin leggi fyrir Alþingi fyrirætlanir sínar varðandi breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.
    Allir þingmenn Sjálfstfl. hér í neðri deild lögðu í gær fram frv. um að hrinda þeirri ósvinnu sem ríkisstjórnarmeirihlutinn undir forustu fjmrh. knúði fram í fyrra og varðar hækkun eignarskatta, ekknaskattinn svokallaða. Það hafa legið í loftinu einhver óljós fyrirheit frá ríkisstjórninni um að lækka eigi þennan skatt, hinn svokallaða ekknaskatt fjmrh., en það bólar ekkert á slíkum frv. hér. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða af hálfu stjórnarandstöðunnar um að flytja frv. til þess að afmá þann ljóta minnisvarða sem ríkisstjórnin og hennar meiri hluti hér á Alþingi reistu sér með þeim skatti.
    Ég ætla ekki að gera hann hér efnislega að umtalsefni, herra forseti, enda eflaust ekki margir dagar þangað til það mál kemur til umræðu. En ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hvað líði öðrum breytingum á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, að því er varðar skattprósentuna. Vegna þess að ég vil minna ráðherrann á að í fyrra, þegar ríkisstjórnin beitti sér fyrir 2% hækkun skattstigans, þegar álagningarprósentan í staðgreiðslu var hækkuð úr 28,5% í 30,5%, þá var það gert með sérstöku bráðabirgðaákvæði í lögum sem talið er að hv. þm. Karvel Pálmason hafi knúið í gegn í sínum þingflokki og síðan Alþfl. í ríkisstjórn. Hér er um að ræða bráðabirgðaákvæði til eins árs sem fellur úr gildi um áramót og þess vegna, ef það er ætlun ríkisstjórnarinnar að viðhalda tekjuskattinum í því sem hann er í ár, eða jafnvel hækka hann eins og gefið hefur verið í skyn og engum kæmi nú á óvart, verður hæstv. ríkisstjórn að leggja hér fyrir Alþingi nýtt frv. um það efni. Að óbreyttu lækkar tekjuskattshlutfallið frá og með 1. janúar úr 30,5% í 28,5%, þ.e. sá hluti

staðgreiðslunnar sem rennur til ríkisins.
    Ég er ekki viss um að öllum þingmönnum, t.a.m. í stjórnarliðinu, sé þetta ljóst. Ég er ekkert viss um að allir muni eftir því að það var hlaupið eftir óskum hv. þm. Karvels Pálmasonar í þessu efni hér í fyrra. Og það væri fróðlegt að sjá hvað til að mynda sá þingmaður, flokksbræður hans og aðrir þeir sem ekki hafa viljað láta bendla sig við skattpíningarstefnu meiri hluta stjórnarliðsins hyggjast þá fyrir þegar taka þarf á því máli.
    Það eru fimm vikur liðnar af þinghaldinu og það bólar ekkert á þessum málum, engu, hvorki breytingum á virðisaukaskattslögum né breytingum á tekjuskattlagningu, sem ég er nú ekki að kalla eftir og yrði auðvitað manna fegnastur ef slíkt frv. sæi ekki dagsins ljós. Það bólar ekkert á leiðréttingum á eignarskattinum eða ekknaskattinum af hálfu stjórnarliðsins og reyndar bólar ekkert á því að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því eða t.d. Alþfl. að fella niður nefskattinn illræmda sem hér var tekinn upp á síðasta þingi og á að renna í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Það er af þeim sökum sem við þrír þingmenn höfum flutt frv. um að afnema þann skatt og höfum auðvitað okkur til sérstaks stuðnings í því máli málflutning hæstv. utanrrh., málflutning hv. formanns fjvn. sem er að finna í þingtíðindum um það efni þegar hann tók undir málflutning utanrrh. og svo að sjálfsögðu að ógleymdum og ólöstuðum málflutningi hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, 2. þm. Vestf., sem ég veit að mun styðja okkur dyggilega í því máli þegar þar að kemur. ( Gripið fram í: Því hefur hann gleymt.) Nei, virðulegi forseti, ég efast nú um að hann hafi gleymt því hann hefur gott minni.
    En hér á bls. 227 í fjárlagafrv. er gerð grein fyrir því hverjar breytingar séu fyrirhugaðar á tekjuöflun ríkissjóðs í tengslum við fjárlagagerð. Hér er talað um breytingar á virðisaukaskatti, hér er talað um skattlagningu raunvaxtatekna og hér er talað um breytingar ýmiss konar á tekjuskattlagningu einstaklinga. Allt eru þetta mál sem kalla á miklar umræður og mjög ítarlega og mikla umfjöllun hér á hv. Alþingi. En það er ekki að sjá að þessi ríkisstjórn láti sig það neinu varða og mætti e.t.v. draga þá ályktun að hún
hefði fallið frá þessum áformum. Ef það er þannig þá væri auðvitað gott að fá það staðfest og situr þá ekki eftir annað af skattafrv. en það frv. sem nú er sérstaklega til umræðu og varðar sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.
    Það er reyndar þannig með það mál að ríkisstjórnin hefur verið að hrökklast úr einu víginu í annað í sambandi við það. Það frv. var í fyrra flutt hér í því formi að skattprósentan, álagningarprósentan var tvöfölduð. Hún var hækkuð um 100%, hún fór úr 1,1% í 2,2%. Og stjórnarliðið, með dyggilegum stuðningi síðasta ræðumanns, lét sig ekki muna um að samþykkja það. Ég verð að benda hv. síðasta ræðumanni á að það frv. sem hér var samþykkt fyrir síðustu jól var auðvitað ekki sama frv. og var

samþykkt fyrir tveimur árum, í stjórnartíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, vegna þess að þá var skattlagningarprósentan 1,1% en ekki 2,2% eins og hún var í fyrra. Það sem síðan gerðist var það að ríkisstjórnin var hrakin úr því hreiðri sem hún hafði búið um sig í í málinu þegar kom til kjarasamninga. Hún samþykkti þar að fallast á að skatturinn yrði lækkaður í 1,5% og það var hann reyndar þegar hann var lagður á á síðasta sumri. Það er það sem þetta frv. gerir ráð fyrir að framlengja. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að skatturinn verði 1,5% af fasteignamati en ekki 1,1% eins og hann var síðast þegar Sjálfstfl. hafði afskipti af framlagningu þessa máls.
    Beint hefur verið spurningum hér til annarra þingmanna Borgfl. en hv. 11. þm. Reykv. Hún hefur svarað fyrir sig og það er enginn vafi á því hver hennar afstaða er og auðvitað er það í sjálfu sér ekki annað en virðingarvert að standa upp og gera grein fyrir því þegar afstaða manns er skýr og tær eins og er að því er varðar hv. þm. Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur. Hún hefur aldrei farið í launkofa með það að hún væri stuðningsmaður þessarar skattlagningar. Og þess vegna kemur það engum á óvart að hún skuli standa hér upp og segjast styðja þetta frv. Það vekur hins vegar eilítið meiri undrun að ýmsir aðilar aðrir í þessum litla þingflokki skuli standa að þessu frv. sem þeir auðvitað gera með því að þetta er stjórnarfrv. Það liggur auðvitað fyrir að þetta er frv. stjórnarflokkanna allra, flutt á ábyrgð allra þeirra þingmanna, vegna þess að það hafa ekki komið fram neinir sérstakir fyrirvarar af hálfu einstakra manna. Það er venja hér að ef einstakir þingmenn hafa fyrirvara um stjórnarfrv. þá lýsa þeir þeim við 1. umr. Og í þessu tilfelli gildir það eins og svo oft að þögn er sama og samþykki. Það verður því að líta svo á meðan ekki kemur annað í ljós að hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson sé eindreginn stuðningsmaður þessa máls. Hann ber ábyrgð á flutningi þess ásamt öðrum félögum sínum í stjórnarliðinu og hlýtur þess vegna að greiða því atkvæði þegar þar að kemur.
    Það er hins vegar ólíku saman að jafna, þögninni sem frá honum glymur í eyrum og hins vegar þeirri afstöðu sem hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir hefur lýst og sem allir hafa vitað um og engum kemur á óvart.
    Síðast þegar þetta frv. var lagt hér fram voru í grg. með því alls kyns villandi upplýsingar. Það var meira að segja talið að tekjur af skattinum yrðu meiri en álagningin. Þegar ráðherrann var inntur eftir þessu taldi hann að það væri vegna þess að svo mikið væri ógreitt af eftirstöðvum fyrri ára að þær mundu skila sér það vel að innheimtan yrði hærri en álagningin. Svo kom á daginn, þegar grennslast var fyrir um þetta mál að mínu frumkvæði, að þarna voru einfaldlega reikningsskekkjur sem starfsmenn ráðuneytisins síðan leiðréttu, þó svo ráðherra hafi ekki séð sóma sinn í því að láta prenta upp frv. með réttum tölum.
    Ég sé það nú, og það er fagnaðarefni, að a.m.k. verður ekki séð við fyrstu sýn að það séu neinar

slíkar villur í þessu frv. Hins vegar er grg. með því svo stutt að hún gerir ekki mikla grein fyrir þessu máli. Það kemur ekki að sök fyrir þá sem þetta mál þekkja en fyrir þá sem eru nýir í þingsölum, eins og til að mynda hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson, hefði kannski verið ástæða til að hafa þessa grg. örlítið betri og lengri til þess að hann og aðrir sem ekki virðast þekkja þetta mál nægilega vel gætu gert sér almennilega grein fyrir því. ( Fjmrh.: Það hefði mátt birta lista yfir alla þingmenn Sjálfstfl. síðustu 10 árin ...). Ég vil nú benda hæstv. fjmrh. á að það er margbúið að beina hér til hans fsp. í þessari umræðu, sem hann hefur tregðast við að svara. Þannig að ef honum liggur eitthvað á hjarta, sem ég sé að er tilfellið, mætti ég þá ekki beina þeim eindregnu tilmælum til ráðherrans að hann kveðji sér hljóðs, gangi hér upp í pontu, taki til máls, svari þeim spurningum sem til hans hefur verið beint og bæti síðan við þeim öðrum athugasemdum sem hann hefur fram að færa við þetta mál. ( Fjmrh.: Stuðningur Sjálfstfl. við þennan skatt er greinilega viðkvæmt mál.) ( Forseti: Ég verð að brýna fyrir þingmönnum að hafa hóf á samtölum á fundinum.) Já, það er nú reyndar venja, herra forseti, að ræðumanni í ræðustól leyfist að ávarpa þá þingmenn í salnum sem ( Forseti: Að sjálfsögðu.) honum hentar. Þar á meðal ýmsa varaþingmenn sem hér sitja inni.
    En það er til að mynda hér eitt orð sem ég minnist frá umræðum um þetta atriði í fyrra að var sérstaklega gerð fsp. út af. Það var hv. þm. Kristín
Halldórsdóttir sem beindi þeirri fsp. til fjmrh. hvað orðið ,,afgjaldskvaðarverðmæti`` í 3. gr. þýddi. Hér er talað um afgjaldskvaðarverðmæti leigulóðar. Hæstv. fjmrh. lenti reyndar í einhverjum bögglingi með að skýra þetta, hljóp hér í hliðarherbergi og hringdi eitthvað út í bæ en megnaði þó ekki að útskýra þetta fyllilega fyrr en síðar. Þannig að mín vegna mætti hann gjarnan taka að sér að útskýra þetta orð fyrir þá sem misstu af skýringunum á síðasta þingi. En ég ætla ekki að óska eftir því fyrir sjálfan mig að þessu sinni.
    Nei, það sem skiptir máli, herra forseti, að þessum orðahnippingum slepptum, er auðvitað það að ekki bólar á hinum stærri málum sem snerta tekjuöflun til ríkissjóðs af hálfu ríkisstjórnarinnar. Meðan svo er verður ríkisstjórnin auðvitað að sætta sig við það að um þá hluti almennt sé fjallað þó verið sé að ræða hér um eitt einstakt tiltölulega léttvægt atriði og léttvægan hluta af þeirri heild. Það er sýning úti í Iðnó á vegum leikhóps sem heitir Pars pro toto, hluti af heild, og það er það sem þetta frv. er á meðan ekki berst annað efni um skatta. Þetta er hluti fyrir heild af skattamálum ríkisstjórnarinnar, hluti af þeirri heild, ef einhver verður, sem við bíðum eftir að fá að fjalla um.
    Ég sé nú ekki ástæðu, herra forseti, til að orðlengja þetta en ég ítreka það að það standa eftir nokkrar spurningar sem er ósvarað bæði frá hv. 1. þm. Reykv. frá því í síðustu viku og svo sömuleiðis þær spurningar sem ég hef hér beint til fjmrh. Þær varða

bæði frv. um virðisaukaskatt, eignarskatt, ekknaskattinn svokallaða, og síðan tekjuskattinn sjálfan, álagningarprósentu hans, hvaða áform séu þar á ferðinni og sömuleiðis skýringar á þeim atriðum hér sem snerta skatta og eru talin upp á bls. 227 í fjárlagafrv., en snerta virðisaukaskatt, skattlagningu raunvaxtatekna og tekjuskattlagningu einstaklinga að öðru leyti en því sem ég gat sjálfur um hér áðan.