Launaskattur
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu fjallar um breytingar á innheimtu á launaskatti. Skv. núgildandi lögum er launaskattur innheimtur á tveggja mánaða fresti, þá fyrir tvo mánuði í senn.
    Skv. þessu frv. sem hér er til umfjöllunar er gerð tillaga um að launaskattur verði framvegis innheimtur í hverjum mánuði líkt og gildir um staðgreiðslu af launum, enda er skattstofninn svo að segja sá sami. Með þessu móti yrðu gjalddagar launaskattsins 12, jafnmargir og í staðgreiðslunni af laununum. Þannig er komið á samræmingu milli staðgreiðslukerfisins af launum og þessa sérstaka launaskatts.
    Það er skoðun fjmrn. og ríkisstjórnarinnar að þessi breyting, sem lengi hefur verið rætt um, muni gera innheimtu launaskattsins virkari og eftirlitið auðveldara. Jafnframt eigi að fylgja því ótvírætt hagræði í bókhaldi fyrir launagreiðendur að þetta sé gert um leið og staðgreiðslan þótt sumir kunni kannski að sakna þess að hafa skattinn ekki í veltunni í tvo mánuði eins og þeir hafa haft til þessa. Hins vegar verður að benda á það sjónarmið að það sé ekki í samræmi við hagsmuni hins almenna skattborgara að slíkir skattar, sem tengjast launum, séu frekar geymdir í veltunni hjá fyrirtækjum en hjá ríkissjóði.
    Gera má ráð fyrir því að þessi breyting bæti greiðslustöðu ríkissjóðs á næsta ári sem nemur 200 millj. kr. Hins vegar felur þessi breyting ekki í sér neina aukningu skattsins í sjálfu sér og mun ekki heldur gera það á næstu árum eða áratugum og ekki að eilífu í raun og veru vegna þess að þessi tilfærsla færist bara aftur í tímann ár frá ári.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um einstök efnisatriði þessa frv. og legg til að að lokinni 1. umr. verði því vísað til hv. fjh.- og viðskn.