Launaskattur
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni frv. til l. um breytingu á lögum um launaskatt. Tilgangi þessa frv. var lýst á sl. sumri er hæstv. ríkisstjórn birti yfirlýsingu um hugsanleg bjargráð fyrir ríkissjóð. Þetta er eitt þeirra mála. Ég vil, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, undirstrika það að hér er verið að fjölga uppgjörstímabilum þessa skatts sem þýðir að greiðslustaða ríkissjóðs mun batna á næsta ári, en það getur ekki gerst öðruvísi en að greiðslustaða fyrirtækjanna versni að sama skapi. Það er ljóst að ýmsir þeir fjármunir sem fyrirtækin hafa tekið að sér að innheimta fyrir hönd ríkissjóðs hafa legið hjá fyrirtækjunum með vitund og vilja löggjafans. Þegar síðan á að fjölga uppgjörstímabilum og innheimta slíkan skatt oftar, þá hlýtur það að kosta það að fyrirtækin hafi ekki þessa fjármuni í veltu sinni og verða að leita á önnur mið til þess að ná því sama fjármagni sem þarf til rekstrar á fyrirtækjunum. Þetta væri út af fyrir sig allt í lagi ef ekki stæði þannig á í íslensku þjóðfélagi að vextir eru mjög háir, einkum og sér í lagi vegna rangrar stjórnarstefnu. Hæstv. fjmrh., fyrir hönd ríkissjóðs, hefur tekið að sér það hlutverk að reka ríkissjóð með verulegum halla, tekið að sér að reka ríkissjóð þannig að hann eltir uppi hverja krónu sem er til á innlendum fjármagnsmarkaði, sem þýðir að vextir eru hér á landi mjög háir og miklu hærri en þeir þyrftu að vera, ef staðið væri að stjórn ríkisfjármálanna með eðlilegum hætti. Þegar spurt er hvað sé eðlilegur háttur í þeim efnum vil ég vitna til blaðagreina hæstv. ráðherra sem hann skrifaði rétt áður en hann tók sér stöðu í fjmrn. Þar benti hann á að fyrrv. ríkisstjórn hefði staðið sig illa í ríkisfjármálunum og stærsta gagnrýniatriðið var auðvitað sá halli sem þá myndaðist á ríkissjóði. Nú hefur enn myndast mikill halli á ríkissjóði, líklega 5 milljarðar og rúmir 5 milljarðar er munurinn á niðurstöðutölu fjárlaga og rekstrarniðurstöðu ríkisins í ár. Þetta, ásamt því að hæstv. ríkisstjórn ætlar að reka ríkissjóð með verulegum halla á næsta ári, hefur hækkað skatta verulega. Þetta veldur því að erfitt mun reynast að færa raunvextina niður hér á landi eins og hæstv. ráðherra gerir sér betur en aðrir menn grein fyrir.
    Þess vegna má segja að þetta frv., ef að lögum verður, sé íþyngjandi fyrir íslenskan fyrirtækjarekstur sem þó á í erfiðleikum og bætist ofan á annað það sem fram hefur komið í umræðu utan dagskrár á síðustu dögum. Vil ég þá nefna þær umræður sem farið hafa fram um virðisaukaskattinn þar sem í fyrsta lagi er ljóst, skv. þeim hugmyndum sem fyrir liggja, að ekki á að endurgreiða virðisaukaskatt af íbúðabyggingarstarfsemi fyrr en næsta ár eftir að kostnaðurinn var útlagður og í öðru lagi hefur hæstv. fjmrh. tjáð sig um það að hann telji ástæðulaust að hafa gjaldfrest á virðisaukaskattinum í tolli sem þýðir, eins og svo margt annað sem hann er að gera þessa stundina, að fyrirtækin verða að ná sér í nýtt fé og bindur þannig fjármagn hjá fyrirtækjunum.

    Ég sé ekki, virðulegur forseti, ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Frv. er auðskilið, tilgangurinn með því jafnframt. Það er auðvitað góðra gjalda vert að samræma uppgjörstímabilið við staðgreiðslu skatta, sem eru auðvitað skattar af launum eins og launaskatturinn í þeim greinum sem hann er greiddur. Ég minni þó á að það er kannski kominn tími til þess að ræða launaskattinn efnislega, ræða það hvort eðlilegt sé að hann leggist á með þeim hætti sem hann er nú lagður á, en það er misjafnt eftir greinum. Ég hefði kosið að hæstv. ráðherra hefði fremur lagt fram á Alþingi frv. sem gæfi okkur tækifæri til þess að ræða efnislega um álagningu launaskatts.