Lyfjadreifing
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Það er eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Reykv. að vafalaust vekur þetta litla frv. ýmsar spurningar og þá auðvitað í tengslum við hinn mikla lyfjakostnað í landinu. En fyrst aðeins örfá orð út af því sem fram kom hjá hv. 11. þm. Reykn. þar sem hann bendir á að það gæti verið sparnaður fyrir ýmsar aðrar stofnanir en sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, stofnanir sem vinna þó á sviði heilbrigðismála og veita þjónustu sjúkum eða fötluðum, að hafa heimild til þess að kaupa lyf beint af lyfjaheildsölunni en ekki eingöngu af smásalanum eða apótekinu. Þetta atriði finnst mér sjálfsagt að skoða nánar í nefnd. Ég man ekki eftir því að við höfum litið á það mál sérstaklega í ráðuneytinu að undanförnu og get því ekki svarað hv. þm. um það nákvæmlega hvort álit liggur þar fyrir eða hvort það hefur áður verið tekin afstaða til þess að þetta væri einhverra hluta vegna ekki framkvæmanlegt eða ekki skynsamlegt svo að ég vildi að það yrði litið á það mál nánar í heilbr.- og trn. þegar hún tekur frv. til meðhöndlunar.
    Síðan vil ég víkja aðeins að máli hv. 3. þm. Reykv. sem ræddi hér allítarlega um kostnað við lyfjadreifinguna og lyfjanotkun hér á landi og það ítarlega nefndarálit sem nú hefur nýlega verið gengið frá af þeirri nefnd sem hv. þm. átti frumkvæði að að varð til þegar hún var heilbr.- og trmrh. Ég vil segja það strax að þetta litla frv. sem hér er til meðferðar er ekkert í tengslum við það nefndarálit Það var til fyrir í ráðuneytinu, var unnið í sumar og kom upp út af öðru máli, en á auðvitað líka að vera liður í því að draga úr lyfjakostnaðinum og skal ég reyna að gera aðeins nánari grein fyrir því en mér hefur tekist í framsögu minni áðan.
    Þetta ítarlega nefndarálit hins vegar og það mikla starf sem þar var unnið er þess eðlis að við erum nú að skoða það í ráðuneyti og hjá landlæknisembætti hvernig við munum vinna úr því og hvað af þeim hugmyndum sem þar eru settar fram við getum notað okkur nú þegar til þess að ná settum markmiðum, bæði í fjárlögum þessa árs og eins sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. næsta árs að lækka umtalsvert heildarkostnað við lyfjanotkunina. Það er sjálfsagt ekki ólíklegt að það eigi eftir að koma hér inn í þingið síðar í vetur þó að sumt af því sem þar er lagt til sé hægt að vinna og framkvæma án þess að til komi lagabreytingar. Við erum nú þegar að skoða einstaka þætti, hvernig hrinda megi þeim í framkvæmd þannig að þeir geti þegar farið að spara ríkisútgjöld.
    Þetta frv. er þess efnis að í 1. gr. frv. er bætt inn í 36. gr. gildandi lyfjadreifingarlaga orðunum ,,heilsugæslustöðvum og læknastöðvum``. Það sem þarna er verið að leggja til er að þessar stöðvar, þessi þjónustustarfsemi geti keypt lyf á heildsöluverði beint af innflytjandanum eða framleiðandanum, þurfi ekki að fara í gegnum smásöluna, þurfi ekki að kaupa þessi lyf af apótekinu, en það er alls ekki hugsað til endursölu. Það er alls ekki gert ráð fyrir því og ég

bið hv. þm. að veita því athygli að það er alls ekki áformað með þessu litla frv. að heilsugæslustöðvarnar geti selt lyf eða geti verið dreifingaraðilar, alls ekki. Það er fyrst og fremst verið að tala um lyf sem notuð eru á stofnuninni, lyf sem notuð eru vegna þess að sjúklingur þarf í einhverja smávægilega aðgerð eða eitthvað annað það sem fer fram inni á heilsugæslustöðinni eða læknastöðinni og að sú starfsemi geti sparað sér þann kostnað sem er því samfara að kaupa lyfin af smásölum, en alls ekki gert ráð fyrir að þessar stöðvar verði söluaðilar. Það er nákvæmlega sama ákvæði sem á að gilda um þessa aðila og sjúkrahúsin sem þegar eru tilgreind í þessari tilteknu lagagrein.
    Síðan aðeins út af hugleiðingum hv. þm. um það að þetta muni leiða til aukins kostnaðar sem gæti verið í því fólginn að þessar stöðvar þurfi síðan að ráða sér eða útvega sér aðgang að lyfjafræðingi til að fylgjast með lyfjanotkun og hafa eftirlit með þeim lyfjalager eða lyfjaforða sem væri til í heilsugæslustöðinni. Því er til að svara að í dag á þetta við um sjúkrahúsin. Sjúkrahúsin þurfa að hafa þennan aðgang, þau þurfa að eiga aðgang að lyfjafræðingum og hafa gjarnan leyst það svo að þau hafa notið þjónustu lyfjafræðings eða apótekara á staðnum, lyfjafræðings í nærliggjandi apóteki þar sem stofnanirnir eru það smáar að það er alls ekki um að ræða lyfjafræðing í fullu starfi og kannski varla hægt að segja í hlutastarfi, heldur einungis aðgangur að viðkomandi til ráðgjafar. Þannig er þetta líka hugsað og reyndar nauðsynlegt að heilsugæslustöðvar og læknastöðvar, ef þær notfæra sér þessa heimild að kaupa lyfin af heildsölu og liggja með einhvern lyfjalager, hafi aðgang að slíkri þjónustu, þ.e. þjónustu lyfjafræðings til ráðgjafar og eftirlits. Þar ætti að vera um mjög óverulegan kostnað að ræða sem getur alls ekki vegið upp þann sparnað sem hlýtur að vera því samfara að heilsugæslustöðin geti keypt lyfin í heildsölu.
    Þetta eru nú held ég meginatriðin í því sem kom hér fram í máli hv. 3. þm. Reykv. og þeim spurningum sem hún beindi til mín. Ég bið menn að tengja þetta ekki þeirri miklu umræðu sem er um nauðsyn þess að lækka lyfjakostnaðinn og því ítarlega nefndaráliti sem hv. þm. gerði hér ágæta grein fyrir og má
reyndar þakka hv. þm. fyrir að hafa tekið af mér ómakið að þurfa að gera það einhvern tíma síðar og hefði kannski átt að gera það hér líka núna. En af því að þetta litla frv. er ekki í tengslum við þær hugmyndir og ég á alveg eins von á því að sú umræða eigi eftir að koma hér inn á þing aftur, þá leyfði ég mér að sleppa þeirri umræðu núna til þess að tefja ekki tíma og reyna frekar að hraða afgreiðslu frv. sem hér liggur fyrir og ég vona að ég hafi þá getað gert aðeins skýrari grein fyrir því máli heldur en mér tókst þó í framsöguræðunni áðan.