Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Þessi frumvörp hafa nú verið tekin á dagskrá með afbrigðum. Það út af fyrir sig eru gagnrýniverð vinnubrögð að taka svo viðamikil mál sem frv. um stofnun umhverfismálaráðuneytis og frv. til l. um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands til 1. umr. þegar þingmönnum hefur ekki gefist tími til að kynna sér til hlítar þessi mál og í þeim búningi sem ætla má að sé hinn endanlegi búningur að mati stjórnarflokkanna. Ég hlýt að lýsa sérstakri óánægju sjálfstæðismanna með þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar þar sem við höfum engan þátt átt í samningu frumvarpanna. Það er því nauðsynlegt að taka það fram strax að þessari umræðu getur ekki lokið hér í dag eins og hæstv. forseti hefur raunar þegar lýst yfir. En það er m.a. vegna fjarveru hæstv. forsrh. í næstu viku sem á það er fallist af okkar hálfu að hefja þessa umræðu hér í dag.
    Mér er ljóst að ríkisstjórnin leggur á það ofurkapp að fá þetta mál samþykkt fyrir jól. Ég vil ekki spá um hvort það tekst en hef um það verulegar efasemdir. En sem sagt, þrátt fyrir gagnrýniverð vinnubrögð við framlagningu málsins vildum við ekki standa í vegi fyrir því að 1. umr. gæti hafist.
    Já, það liggur á að fá þetta mál samþykkt, segir ríkisstjórnin og ástæðurnar eru auðvitað augljósar. Nýr flokkur var fenginn til liðs við ríkisstjórnina í septembermánuði sl. og fyrstu afborganir af þeirri skuld sem stofnað var til fyrir stuðninginn eru þegar fallnar og hver gjalddaginn tekur nú við af öðrum. Í fjáraukalagafrv. sem liggur fyrir Sþ., en ekki hefur enn verið mælt fyrir, sjáum við þessar fyrstu afborganir. Þær eru vegna hæstv. hagstofuráðherra og stofnunar umhverfisráðuneytis sem hefur reyndar ekki verið stofnað, kr. 8 millj. 290 þús. Nýr dóms- og kirkjumálaráðherra virðist hins vegar skv. fjáraukalagafrv. hafa fengist gratís, a.m.k. sé ég ekkert um hann í fjáraukalagafrv.
    Þær næstu afborganir sjáum við svo í fjárlagafrv. sjálfu fyrir næsta ár. Mér sýnist það vera 34 millj. til hins nýja umhverfisráðuneytis. En það er svo auðvitað spurning hvort eitthvað dregur úr greiðslum á móti, t.d. til Samtaka jafnréttis og félagshyggju þannig að þegar allt kemur til alls verði kostnaður ríkissjóðs kannski lítið meiri en ætla hefði mátt miðað við óbreytt ástand. Kannski verða engir deildarstjórar ráðnir, hvorki í forsrn. né önnur ráðuneyti til að fara yfir stjórnarfrumvörpin fyrir hv. þm. Stefán Valgeirsson. Kannski verða engar fleiri aukafjárveitingar til Silfurstjörnunnar í Öxarfirði, látið bara nægja að gefa þessar 3,3 millj. vegna tilraunastarfsemi og rannsókna á sjótöku úr borholum til laxeldis, eins og það heitir í fjáraukalagafrv. og nú er beðið um að Alþingi leggi blessun sína yfir. Kannski verður þetta bara allt á sléttu.
    En það liggur líka á að koma réttum titli á hagstofuráðherrann. Í nýjasta hefti tímaritsins Nordisk Kontakt er Júlíus Sólnes titlaður miljöminister. Já, fínt skal að vera, var einu sinni sagt. Minister for statens

statistikkontor lætur ekki vel í eyrum Norðurlandabúa og kontóristar viljum vér engir vera eins og komið hefur fram áður.
    Það er nú kannski lítilfjörlegt þótt hæstv. ráðherra sé titlaður miljöminister í þessu tímariti og mér er kunnugt um það mun verða leiðrétt. En mér finnst öllu verra þegar hæstv. ráðherra er farinn að undirrita bréf sem ég veit ekki hvað fara víða. Ég er hérna með bréf í höndunum. Það er til þeirra sem málið varðar, To Whom it May Concern, eins og það heitir og þar skrifar hæstv. ráðherra undir bréf sem stjórnarformaður tiltekins fyrirtækis og titlarnir eru þessir: Júlíus Sólnes, Chairman of the Board, Member of Parliament, Minister of Environmental Affairs. Hvað finnst nú hv. alþm. um svona lagað? Er þetta kannski bara allt í lagi? Hreint smámál miðað við ýmislegt annað sem upp hefur komið í kringum þessa ríkisstjórn og hæstv. ráðherra? Mér sýnist nú að sumt af því sem hefur verið svolítið ofarlega í umræðunni verði nú harla lítilfjörlegt í samanburði við þetta. En þetta þarf kannski ekkert að koma á óvart. Það hefur komið fyrir áður að þar sem þessa ríkisstjórn skortir lagaheimildir, þá tekur hún sér lagasetningarvaldið sjálf.
    Eitt vakti athygli mína hér í dag fyrr á fundinum. Við vorum þá að hlusta á hæstv. heilbrrh. þar sem hann var að mæla fyrir frv. um breytingu á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Þar á að veita Hollustuvernd heimild til að beita sömu þvingunarráðstöfunum og heilbrigðisnefndir hafa ef ekki er farið að fyrirmælum. Sérstök áhersla er lögð á að afgreiða það mál fyrir áramót. En þennan sama dag eru svo lögð fram frumvörp sem gera ráð fyrir því að þessi mál verði tekin úr höndum heilbrrh. Ég skil ekki alveg hvers vegna. Hvers vegna þessi hamagangur?
    Herra forseti. 4. mál þessa þings var frv. til l. um samræmda stjórn umhverfismála. Það frv. var flutt af sjö þingmönnum Sjálfstfl. og mælti 1. flm. frv., hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, fyrir því hér í þessari hv. deild þann 18. okt. sl. Ég vísa til ræðu hans, en þar og í frv. koma fram þau sjónarmið sem sjálfstæðismenn telja að stefna beri að og lögfesta eigi til að
komið verði á samræmdri stjórn umhverfismála. Við leggjum þar áherslu á samræmingu og samstarf fremur en stofnun sérstaks ráðuneytis. Í 3. gr. þess frv. kemur fram skýr tilgangur laganna ef samþykkt verða, þ.e. að samræma stjórn umhverfismála í landinu öllu og lögsögu þess með skipulegu samstarfi þeirra aðila sem starfa að þessum málum. Lögunum er ætlað að efla varnir gegn hvers konar mengun og öðrum skaðlegum umhverfisáhrifum og vinna að vernd náttúrugæða landsins. Að öðru leyti vísa ég sem sagt til ræðu hv. 1. flm. frv. Við viljum fækka ráðuneytum og stækka þau fremur en að fjölga þeim. Við bendum á sérstöðu Íslands. Aðstæður hér eru frábrugðnar því sem víða er erlendis. Við lifum á sjávarfangi og þess vegna eru varnir gegn mengun sjávar forgangsatriðið. Helsta umhverfisvandamálið er eyðing gróðurs og landkosta.

Vegna þess að lega landsins er fjarri helstu iðnríkjum þá er loftmengun vegna iðnaðar nánast óþekkt hér. Við leggjum áherslu á aðgerðir í umhverfismálum fremur en að auka yfirbyggingu. Við viljum frekar verja 30 millj. kr. til þess að endurheimta landgæði á næsta ári heldur en að reka umhverfisráðuneyti.
    Ég hlýt að nefna það að við þessa 1. umr. hér í kvöld er enginn kostur að ræða þetta frv. ríkisstjórnarinnar til hlítar, enda erum við, alla vega við þm. Sjálfstfl., að sjá þessi frumvörp fyrst nú. En nokkur atriði vil ég þó nefna.
    Í fyrsta lagi aðeins um starf nefndarinnar sem að þessu vann og nokkur atriði varðandi það. Það er augljóst að ekki hefur verið fullt samstarf eða samstaða innan nefndarinnar. Það kemur hér fram í grg. með frv. um breytingu á Stjórnarráðinu, að einn nefndarmanna, Bjarni Guðleifsson, hafi lýst í upphafi efasemdum um stofnun sjálfstæðs umhverfisráðuneytis en ákveðið að taka þátt í mótun þess og tilflutningi verkefna með hliðsjón af því að fyrir lá ákvörðun um stofnun þess. Þetta kemur einnig fram á bls. 10 í greinargerðinni þar sem segir:
    ,,Loks í fjórða lagi að landbúnaðarráðuneytið fari áfram með skógrækt og landgræðslu, enda sé hér um atvinnuveg að ræða sem óeðlilegt sé að fara með á annan hátt en svipuð atvinnumálefni á sviði iðnaðar og sjávarútvegs. Einn nefndarmanna, Bjarni E. Guðleifsson, var þessarar skoðunar, en féllst til vara á að einungis eftirlit og friðun gróðurlendis verði flutt til umhverfisráðuneytis. Var nefndin ekki sammála um niðurstöðu í framangreindu efni. Nefndin skilaði því tveimur álitum hvað þetta snertir. Þau Björn Friðfinnsson, Bryndís Brandsdóttir og Guðmundur Ágústsson leggja til að Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins flytjist til umhverfisráðuneytis frá landbúnaðarráðuneyti, en landbúnaðarráðuneyti fari þó áfram með mál er varða ræktun skjólbelta og nytjaskóga á bújörðum. Leggja þeir Jón Sveinsson, Arnmundur Backman og Bjarni E. Guðleifsson hins vegar til að Náttúruverndarráð, sem verður undirstofnun umhverfisráðuneytis, vinni í samráði við Landgræðslu ríkisins að gróðurverndarmálum og hafi eftirlit með ástandi gróðurs og vinni einnig í samráði við Skógrækt ríkisins að verndun og eftirliti með náttúrulegum birkiskógum og skógum til útivistar.`` Og þetta sýnist mér að sé það álit sem ríkisstjórnin gerir að sínu.
    Með þessu frv. eru boðaðar tilfærslur á mörgum stofnunum og málaflokkum. Það þarf auðvitað að kanna vel hvar þeirri starfsemi, sem í hlut á, sé best fyrir komið í stjórnkerfinu og sú meginregla er eðlileg að meiri tengsl og stærri hluti í starfsemi ráði staðsetningu fremur en minni. Mér sýnist að ekki sé gætt samræmis í meðferð málefna hliðstæðra ráðuneyta, enda ekki um það samstaða eins og ég var hér að vitna til í greinargerðinni. Skv. frv. er starfsemi sjútvrn. undanþegin, en hluti af starfsemi landbrn. færður til umhverfisráðuneytis. Í greinargerðinni segir hér einnig, með leyfi forseta:
    ,,Einnig voru uppi hugmyndir innan nefndarinnar að

fela umhverfisráðuneyti eftirlit með ákveðnum þáttum sem nú heyra undir Hafrannsóknastofnun. Um það var ekki samstaða.`` Það er sem sagt ekki gætt samræmis í meðferð einstakra stofnana. Sumar eru færðar til í heilu lagi en starfsemi annarra látin haldast óbreytt þótt yfirstjórn afmarkaðra þátta sé flutt úr viðkomandi fagráðuneyti í umhverfisráðuneyti. Sem dæmi má nefna að starfsemi Siglingamálastofnunar virðist eiga að vera óbreytt á meðan Hollustuvernd og Geislavarnir eiga að flytjast í umhverfisráðuneytið. Það segir hér í greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin leggur einnig til að Geislavarnir ríkisins flytjist til umhverfisráðuneyti. Þótt sú stofnun sinni nú aðallega eftirliti með geislatækjum á sjúkrahúsum verður að ætla að hún takin aukinn þátt í samstarfi, rannsóknum og mælingum er tengjast geislavirkni í andrúmslofti og hafi, m.a. vegna tíðra slysa kjarnorkukafbáta og fyrirætlana um byggingu endurvinnslustöðvar fyrir kjarnorkuúrgang í Skotlandi.``
    Allt má þetta vera rétt en mér er kunnugt um að stjórn stofnunarinnar, Geislavarna, lagðist eindregið gegn þessu en við þeim ábendingum hefur ekki verið orðið.
    Mér sýnist líka að þessu umhverfisráðuneyti séu ætluð víðtækari verkefni en víða er, jafnvel í löndum eins og Noregi og Danmörku, þar sem eru þó mjög stór umhverfisráðuneyti. Dæmi um það er þetta með geislavarnirnar sem ég nefndi,
heilbrigðiseftirlit og matvælaeftirlit.
    Frv. boðar aukna miðstýringu í stað valddreifingar. Það er alveg ljóst. Tilfærslur á heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga úr heilbrrn. í umhverfisráðuneyti snerta auðvitað verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég nefni líka í þessu samhengi að á bls. 7 í grg. eru talin upp viðfangsefnin sem umhverfisráðuneytið á að hafa. Þar er ekkert minnst á eftirlit en það er hins vegar komið inn á í kafla sem fjallar hér um rannsóknir og eftirlit. Það segir hér:
    ,,Á sviði rannsókna og eftirlits fer nýja ráðuneytið með samræmingu og forgangsröðun verkefna á sviði umhverfisrannsókna milli stofnana, ráðuneyta og sveitarfélaga.``
    Þetta kemur mjög inn á starfsemi sveitarfélaganna. Öll þessi atriði og mörg fleiri þarf auðvitað að kanna vandlega. Það er óhjákvæmilegt annað og sjálfsagt heldur ekki ætlunin, ég er ekkert að gera því skóna, en það er óhjákvæmilegt annað en frv. fái ítarlega umfjöllun í þingnefnd, hv. allshn., áður en hægt er að taka afstöðu til einstakra þátta þess.
    Mig langar, og skal ég nú mjög fara að stytta mál mitt, til að vitna hér í ágæta grein sem dr. Gunnlaugur Þórðarson skrifaði í Morgunblaðið þann 24. okt. sl. Hann vitnar þar í skýrslu Brundtland-nefndarinnar sem hæstv. forsrh. nefndi hér einnig áðan og tekur þennan kafla í lauslegri þýðingu:
    ,,Umhverfið er ekki til sem svið rifið úr samhengi frá mannanna verkum, metnaði og þörfum og tilraunir til þess að halda því yfirleitt einangruðu frá athöfnum manna hafa gefið sjálfu orðinu umhverfismál blæ barnaskapar hjá sumum pólitískum hópum. Kjarni

skýrslunnar er``, segir greinarhöfundur, ,,að ,,ökólogía`` og ,,ökónómía`` verða ekki aðskilin. Hér sé um samverkandi atriði að ræða og til þess verði að taka tillit.``
    Þannig segir á einum stað í skýrslunni: ,,Ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir hafa í vaxandi mæli áttað sig á því og viðurkennt að ókleift er að draga skýra markalínu milli efnahagsþróunar og umhverfismála. Því er það alveg út í bláinn að reyna að leysa umhverfisvandamál nema í miklu víðara samhengi.``
    Og svo segir greinarhöfundur: ,,Hvað okkur viðkemur má skilja þessi orð svo að umhverfismál verða ekki leyst án samstarfs við þá sem þau mál snerta sérstaklega, en það eru öðrum fremur bændur landsins. Hins vegar virðist mér sem þeir sem standi að þessari aukningu ríkisbáknsins telji að því sé stefnt til höfuðs bændum og því megi landbúnaðarsjónarmið þar hvergi nærri koma.
    Annað meginatriði er að undirstaða umhverfisverndar er fræðsla um skaðsemi af ýmsum efnum og náttúruspjöllum. Á Norðurlöndum er í seinni tíð einmitt lögð áhersla á slíka fræðslu. Við lestur skýrslunnar kemur í ljós að það að setja umhverfismálin undir einn hatt er tímaskekkja því þau snerta öll svið mannlegs lífs og nánast hvert einasta ráðuneyti.``
    Og greinarhöfundur heldur hér áfram: ,,Þá er þess að geta, en mér er kunnugt um að það er almenn skoðun á Norðurlöndum meðal þeirra sem hafa þekkingu á þessum málum, að misráðið hafi verið að stofna þar sérstök umhverfismálaráðuneyti. Reynslan hefur nefnilega orðið sú að þau hafa hlaðið utan á sig og þanist út og nánast orðið að skriffinnskuófreskju. Sem dæmi þessarar ofþenslu má geta þess að umhverfismálaráðuneytið í Danmörku sem er yngsta ráðuneytið er orðið langstærsta ráðuneytið.``
    Og þá vitnar hann hér til orða Oscar Lafontaine, forsætisráðherra sambandsríkisins Saarlands. Þessi Oscar Lafontaine kom í heimsókn hér í boði Alþfl. og er nú hálfgerður gúrú þeirra kratanna og hann segir hér í viðtali við Alþýðublaðið 2. sept.: ,,Lafontaine lagði áherslu á heildræna stefnu í umhverfismálum. Hann sagði að það gengi ekki að umhverfismálum væri steypt í eitt ráðuneyti og þar væri unnið að þeim meðan önnur ráðuneyti héldu óbreyttri stefnu.``
    Þessi orð eru sérstaklega athyglisverð því í Saarlandi er mengun mjög alvarlegt vandamál.
    Það væri freistandi að taka ýmislegt fleira úr þessari ágætu grein dr. Gunnlaugs Þórðarsonar, en ég sleppi því. Þar eru m.a. dálítið alvarlegar pillur á ríkisstjórnina en ég er ekkert að fara með þær eftir greinarhöfundi.
    Svo mörg voru þessi orð. Ég ætla að ljúka máli mínu, herra forseti. Umhverfismál eru mikilvægur málaflokkur, um það er ekki deilt. Við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir til samstarfs við þá menn sem vilja koma skynsamlegu skipulagi á stjórn umhverfismála. Til þess að ná saman um þessi mál þarf áreiðanlega tíma og ég dreg mjög í efa að tíminn

fram að jólum dugi til þess. Við viljum samstarf við þá sem trúa því að hægt sé að koma samræmdri skipan á stjórn umhverfismála án þess að stofna sérstakt ráðuneyti með tilheyrandi stórfelldum kostnaði og þeim ofvexti sem líklegt er að hlaupi í slíkt ráðuneyti.