Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Við gerum nú enn á ný atlögu að því að koma með frv. til samræmdrar yfirstjórnar umhverfismála inn á hið háa Alþingi og eru nú allar líkur á því að tilraunir takist í þetta sinnið. Menn hafa velt vöngum yfir samræmdri yfirstjórn umhverfismála sl. 15 ár eða jafnvel lengur, með hvaða hætti hún skuli vera og hvernig umhverfismálunum skuli skipað innan stjórnkerfisins. Menn hafa mjög deilt um þessi mál og ekki orðið á eitt sáttir um hvernig þeim skyldi hagað og komið fyrir. Nú sýnist mér að menn séu búnir að ná góðu samkomulagi um það með hvaða hætti yfirstjórn umhverfismála skuli vera í framtíðinni og er það vel. Ég tel að lykill að því að svona vel hefur gengið að ná samkomulagi um að leggja hér fyrir frv. til l. um stofnun umhverfisráðuneyts byggi að verulegu leyti á þeirri vinnu sem hefur farið fram, aðallega í sumar. Sú vinna byggist á starfi nefnda sem hafa fjallað um skyld mál, þ.e. að gera viðamiklar breytingar á Stjórnarráði Íslands, það sem sumir hafa kallað að stokka upp Stjórnarráðið og færa til verkefni á milli ráðuneyta og einfalda Stjórnarráðið og verkefni þess. Ég tel að það sé lykilatriði í þessu máli og það má segja að sú vinna sem hefur tengst þessari uppstokkun á Stjórnarráðinu hefur mjög auðveldað þá vinnu sem liggur að baki þessu frv. um heildaryfirstjórn umhverfismála í nýju umhverfismálaráðuneyti. Ég tel skylt að færa fram þakkir til nefndarinnar sem hefur unnið að þessu máli í allt sumar. Ég tel að hún hafi unnið mjög gott verk og skilað mikilli vinnu sem nú kemur að gagni við þá umræðu sem hér fer fram á næstunni.
    Með sérstöku erindisbréfi ríkisstjórnarinnar sem mér var afhent 12. sept. sl. er mér falið að fara með öll verkefni á sviði umhverfismála innan ríkisstjórnarinnar þangað til nýtt umhverfismálaráðuneyti verði að staðreynd með lögum sem gert er ráð fyrir að taki gildi 1. jan. 1990.
    Hv. 2. þm. Reykn. sá ástæðu til þess að gera athugasemd við það að í enskri þýðingu er ráðherra með verkefni á sviði umhverfismála kallaður Minister of Environmental Affairs. Ég vil nú bara vísa þessum orðum hv. 2. þm. Reykn., ja kannski ekki á bug en ráðleggja honum að rifja betur upp enskukunnáttu sína úr menntaskóla og vita hvort hann kemst þá ekki að þeirri niðurstöðu að það sem stóð þarna, Minister of Environmental Affairs, er hreinlega bein þýðing á því að það sé þarna ráðherra sem fari með verkefni á sviði umhverfismála, nákvæmlega eins og erindisbréf ríkisstjórnarinnar til mín segir. Hvað svo ráðuneytið verður kallað á ensku þegar það er orðið að lögum er allt önnur saga, það er ekki búið að taka neina ákvörðun um það. Svo ég held að menn þurfi nú ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu. Ég hef hins vegar skrifað mörg bréf varðandi umhverfismál vegna þessa verkefnis sem ég fer með innan ríkisstjórnarinnar og ég hef yfirleitt í þeim bréfum, sem varða þau mál, tekið fram að það sé verið að vinna að stofnun nýs umhverfisráðuneytis og það sé gert ráð fyrir því að

það verði að lögum 1. jan. nk. og þarf ég ekki að hafa fleiri orð um þennan þátt mála.
    Ég verð að segja eins og er að það hefur komið mér mjög á óvart hversu gífurlegur áhugi er meðal almennings á umhverfismálum. Ég hef að sjálfsögðu sem aðrir landsmenn, og reyndar sem hver og einn sem fylgist með bæði landsmálum og alþjóðamálum, orðið var við að það fer fram mikil umræða á sviði umhverfismála en ég áttaði mig ekki á því að áhuginn væri svona mikill og það væri jafnmikil vinna í gangi á sviði umhverfismála og raun ber vitni, með þeim gríðarlega straumi af gögnum og skjölum sem berast inn á skrifstofu mína daglega.
    Ég held að það fari ekkert á milli mála, eins og margir áhrifamiklir stjórnmálamenn víða út um heim hafa haldið fram, að hafi 19. öldin sem vettvangur stjórnmálaumræðu verið á sviði félagslegra umbóta og 20. öldin verið vettvangur stjórnmálanna á sviði tæknibyltingarinnar, þá verði 21. öldin öld umhverfismálanna. Ég held að það fari ekkert á milli mála að það stefnir hægt og sígandi í það að kjarni allrar stjórnmálaumræðu verður umhverfismál.
    Þetta leiðir hugann að því að alþjóðleg samskipti á sviði umhverfismála munu verða mjög mikil á næstunni og reyndar er ég farinn að finna smjörþefinn af því þar sem upplýsingar og boð um ráðstefnur og fundi á sviði umhverfismála berast til mín. Það væri auðvelt að vera með menn á fundum og ráðstefnum næstum því daglega út um allan heim. Ég held að það sé næstum orðið svo að daglega sé einhvers staðar í heiminum fundur eða ráðstefna á sviði umhverfismála. Út af fyrir sig er það gott og vel og þarf ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því, því það er ekki ætlunin að við sækjum allar þær ráðstefnur né fundi um umhverfismál sem haldnir eru í heiminum. Hins vegar er afar mikilvægt að við Íslendingar fylgjumst vel með öllu sem gerist á sviði umhverfismála, hvar sem er í heiminum, þar sem oft er um að ræða að við þurfum beinlínis að gæta hagsmuna Íslendinga sem geta leynst í ýmsum samþykktum og ályktunum sem er verið að gera á alls konar ráðstefnum víða úti um heim. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast, eins og ég segi, mjög vel með öllu því sem gerist á sviði umhverfismála hvar sem er í heiminum.
Meðal annars má minna á að það hafa komið fram hugmyndir, sem hæstv. utanrrh. minntist m.a. á í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nú í haust, um að gera alþjóðlegan sáttmála um umhverfismál í líkingu við hafréttarsáttmálann. Það vill svo vel til að Jens Evensen, fyrrum hafréttarráðherra Noregs, sem kannski má segja að sé faðir hafréttarsáttmálans, kom hér í heimsókn fyrr í haust og lýsti áhuga sínum á því að mega stuðla að því að sambærilegur sáttmáli á sviði umhverfisverndar yrði að veruleika, kannski um næstu aldamót, ef hann yrði undirbúinn og leiddur til lykta í svipuðum farvegi og hafréttarsáttmálinn var á sínum tíma. Það væri sannarlega gaman fyrir okkur Íslendinga ef við gætum tekið þátt í þeirri vinnu og verið, kannski ásamt hinum Norðurlöndunum og þá

fyrst og fremst Norðmönnum, frumkvöðlar að því að gera slíkan umhverfisverndarsáttmála fyrir allar þjóðir heimsins. Ég held að við mundum geta borið höfuðið hátt ef okkur tækist að gerast aðilar að slíku framtaki.
    Þá vil ég vekja athygli á mjög auknum samskiptum á sviði Norðurlandanna um umhverfismál en í næstu viku er fyrirhugaður m.a. samráðsfundur umhverfismálaráðherra allra Norðurlandanna. Ég mun sitja þann fund sem sá ráðherra sem fer með verkefni á sviði umhverfismála, þó svo að Sjálfstfl. líki illa þýðing á ensku á því verkefni. ( ÓE: Hvernig er það þýtt á skandinavísku?) Ég tel nú að umræða um umhverfismál eigi að fjalla um allt annað en karp um það hvernig svona lýsing á verkefni sé þýdd á eitt eða annað tungumál. Við getum hafið hér umræðu um það hvernig ætti að þýða þetta á japönsku og kínversku mín vegna, en ég tel bara ekki að það sé aðalatriði umræðunnar og vil því forðast að fara frekar út í þá sálma.
    En mig langar til að segja frá verkefni sem bíður þessa samráðsfundar sem verður haldinn á Álandseyjum í næstu viku. Þar verður fjallað um tillögu til fjárfestingarfélags Norðurlandanna á sviði umhverfismála. Þar er á ferðinni mjög athyglisverð hugmynd sem gengur út á það að Norðurlöndin sameinist um að mynda fjárfestingarfélag sem fær í stofnfé tæplega 40 millj. dollara. Þessu fjárfestingarfélagi er ætlað að fjármagna verkefni, aðallega í Austur-Evrópu. Með þeim hætti gefst norrænum fyrirtækjum á sviði mengunarvarna kostur á því að leita eftir samstarfi við iðnaðarfyrirtæki í Austur-Evrópu, í Austur-Þýskalandi, Póllandi, Sovétríkjunum og Eystrasaltslöndunum og bjóða fram aðstoð, bæði fjárhagslega aðstoð og tæknilega aðstoð við að leysa mengunarmál þeirra fjölmörgu iðnaðarfyrirtækja sem því miður eru þannig úr garði gerð að þau spúa eldi og eimyrju, einkum yfir Norðurlöndin. Það er því ekki nema eðlilegt að Norðurlöndin vilji reyna að stuðla að því að þarna verði bragarbót á. Ég tel að þarna sé verkefni, og hef reyndar haldið því fram hér úr þessum ræðustóli áður, sem við Íslendingar gætum svo sannarlega tengst því að við höfum töluvert fengist við álíka vandamál, m.a. mengunarvandamál í fiskimjölsverksmiðjum okkar. Þá má minna á að fyrir ekki allmörgum árum var ráðist í gríðarlegt átak í álverinu í Straumsvík til að hreinsa þar reyk og búa betur um hnútana og koma þannig í veg fyrir mengun sem þaðan barst. Við höfum aflað okkur töluverðrar þekkingar og reynslu á þessu sviði og ég tel að við eigum að sjálfsögðu að sækjast eftir verkefnum og reyna að hasla okkur völl á sviði mengunarvarna en þarna gefst einmitt kærkomið tækifæri til þess.
    Það er alveg ljóst, eins og ég reyndar gat um áðan, að þessi alþjóðlegu samskipti hljóta að verða mjög stór og mikill þáttur á verksviði hins nýja ráðuneytis þegar það verður orðið að lögum. Ég geri ráð fyrir því að það muni mjög létta á öðrum ráðuneytum að einhver taki að sér að sjá um þessa vinnu, hafa heildaryfirsýn yfir þessi alþjóðlegu samskipti, enda er

það beinlínis svo að nánast allar þjóðir heims hafa nú eða eru að koma upp sérstökum umhverfisráðuneytum. Þar af leiðandi hlýtur að virka dálítið hjáróma sú rödd sem var vitnað í hér áður þar sem var lagst gegn stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis. Ég er út af fyrir sig ekki að segja að við Íslendingar þurfum endilega að apa allt eftir sem aðrar þjóðir gera en ég held að það fari ekki á milli mála að stjórnmálaumræðan á alþjóðavettvangi muni snúa meira og meira að umhverfismálunum. Og ég spái því, eins og margir hafa sagt, að aðalviðfangsefni stjórnmálamanna á næstu öld verði að fjalla um umhverfismál og þess vegna er ekki seinna vænna fyrir okkur að koma inn í þá umræðu af fullum þunga sem við getum því aðeins gert að við komum hér upp sjálfstæðu umhverfisráðuneyti. Því vísa ég algjörlega svona hjáróma rödd á bug. Ég tel að það sem kom fram í umræddri blaðagrein, þar sem var vitnað í skrif dr. Gunnlaugs Þórðarsonar, bendi einfaldlega til þess að viðkomandi hafi ekki sett sig nægilega inn í það sem er að gerast á alþjóðlegum vettvangi um þessi mál og þarf ég ekki að hafa fleiri orð um það.
    Ég tel að ég geti farið að stytta mál mitt, virðulegi forseti, en mig langar til að koma aðeins inn á verkefni hins nýja ráðuneytis og fjalla í nokkrum orðum um hin fyrirhuguðu verkefni þess. Það hefur reyndar verið vikið að því í ræðu málshefjanda, hæstv. forsrh., og sömuleiðis kom reyndar hv. 2. þm. Reykn. að einhverju leyti inn á verkefni eins og þau eru skilgreind í frv.
    Það er ljóst að starfsemi hins nýja umhverfisráðuneytis mun aðallega vera á
þremur sviðum, þ.e. það verða náttúruverndarmálin og það verða hvers kyns mengunarvarnir og í þriðja lagi verða þessi alþjóðlegu samskipti. Reyndar má bæta við fjórða sviðinu sem ég tel að þurfi að hafa með sem sjálfstætt svið, en það eru byggingar- og skipulagsmál því það má ekki gleyma því að samkvæmt frv. er hinu nýja umhverfisráðuneyti ætlað að fara með öll skipulagsmál og þar með heyra undir byggingarlög og byggingarreglugerð. Það er því mjög stór málaflokkur sem hlýtur að taka töluvert til sín innan ráðuneytisins.
    Það var vikið nokkuð að því með hvaða hætti Náttúruverndarráð mundi sinna eftirliti og ýmsum öðrum verkefnum á sviði náttúruverndar og þar kemur kannski fyrst og fremst til það sem ég tel að sé eitt meginverkefni á sviði umhverfismála eins og það blasir við mér, en það er gróðurvernd og varnir gegn gróðureyðingu. Það var deilumál sem kom upp hjá nefndinni og reyndar er þetta gamalt deilumál sem hefur oft borið á góma, þ.e. hvernig á að skipta verkefnum á sviði gróðurverndar og gróðurræktunar milli landbrn. og hins nýja umhverfisráðuneytis. Það er ekkert launungarmál, enda kemur það mjög skilmerkilega fram í grg. með frv., að nefndin sem vann að undirbúningi og samningu frv. klofnaði í málinu þannig að helmingur nefndarmanna, þ.e. fulltrúar Borgfl., fulltrúar Alþfl. og fulltrúi Kvennalista, lagði til að bæði

Landgræðsla og Skógrækt ríkisins mundu færast yfir til umhverfisráðuneytisins og þar með öll verkefni á því sviði, nema viðurkennt er og þeir nefndarmenn töldu sjálfsagt að landbrn. færi eftir sem áður með ákveðin verkefni á sviði ræktunar, bæði vegna ræktunar á bithögum og eins vegna ræktunar nytjaskóga. Hinn helmingur nefndarinnar, þ.e. fulltrúi Framsfl., fulltrúi Alþb. og fulltrúi Samtaka um jafnrétti og félagshyggju, lagði til að Landgræðsla og Skógrækt ríkisins yrðu áfram stofnanir undir landbrn. en á vegum umhverfisráðuneytis færi fram eftirlit og rannsóknir á sviði gróðurverndar.
    Segja má að það hafi verið gert samkomulag sem fer kannski að einhverju leyti bil beggja þó að það nálgist meira síðara álitið, en mig langar til að lesa upp það samkomulag sem var gert og ég tel að það sé mjög vel viðunandi og að með þeim hætti hafi náðst mjög góð sátt um þessi mál sem kannski voru aðaldeilumálin. Í skýringum um ákvæði til bráðabirgða, sem koma fram á 13. síðu í frv., segir svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Um 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða. Við samningu frumvarps til laga um umhverfisvernd verður m.a. fjallað um sérstaka umhverfisverndarstofnun. Hún taki að sér þau viðfangsefni á sviði landgræðslu og skógræktar sem heyra undir umhverfisráðuneyti og yfirstjórn þess samkvæmt athugasemdum hér á eftir og drögum að reglugerð í fylgiskjali I.
    Um 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða. Við endurskoðun laga um landgræðslu og skógrækt skulu eftirtalin málefni verða á verksviði umhverfisráðuneytis:
    1. Gróðureftirlit og gróðurrannsóknir.
    2. Gróðurvernd, þar á meðal hvers konar varnir gegn gróðureyðingu, án þess að búist verði við að á móti komi arður eða efnahagslegar nytjar.
    Á verksviði landbúnaðarráðuneytis verði eftirtalin málefni:
    1. Ræktun ógróins eða lítt gróins lands með það í huga að fá af því beinar nytjar, t.d. að rækta beitilönd og tún.
    2. Breytingar á landi til að bæta gróðurfar þess í atvinnuskyni og renna þannig fleiri stoðum undir landbúnaðinn, t.d. með ræktun nytjaskóga.``
    Ég held að þarna hafi tekist vel til að skilgreina bæði markmið og þau verkefni sem verða annars vegar á sviði umhverfisráðuneytis og hins vegar á sviði landbrn. Að sjálfsögðu eru aðilar sammála um það að það komi ævinlega til gott samstarf og samvinna milli þessara tveggja ráðuneyta og þeirra stofnana sem verða hvor hjá sínu ráðuneyti. Ég held að það fari ekkert á milli mála að svo hljóti að verða, en engu að síður er þarna aðalatriði málsins að það hefur náðst gott samkomulag um það hvaða verkefni verði hjá umhverfisráðuneyti og hvaða verkefni verði hjá landbrn.
    Varðandi sérstaka umhverfisverndarstofnun, þá er vikið að henni og talað um að um hana muni verða fjallað þegar verður samið frv. til laga um

umhverfisvernd, en það mun verða gert samhliða því að fram fer heildarendurskoðun laga, bæði um Náttúruverndarráð ríkisins, um Landgræðslu ríkisins og um Skógrækt ríkisins. Það er of snemmt að segja til um hvernig þau mál muni þróast, hver verði niðurstaðan, en það er ekkert útilokað að hugsa sér þá niðurstöðu að bæði Náttúruverndarráð og Náttúrufræðistofnun og gróðureftirlit og gróðurfarslegar rannsóknir muni sameinast í þessari einu stofnun. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um slíkt, en það er hugmynd sem ég tel alls ekki fráleita og að sjálfsögðu verður hún könnuð þegar verður fjallað um þessa stofnun samhliða því að farið verður í þá vinnu að undirbúa frv. til laga um umhverfisvernd.
    Ég mundi svo kannski að lokum vilja tala um einn málaflokk enn sem ég tel að sé mikilvægt að hið nýja ráðuneyti komi til með að sinna af festu, en það er uppfræðsla á sviði umhverfismála. Ég tel að það sé mjög þýðingarmikið að fram fari almenn fræðsla í öllum skólum um umhverfismál og mér þykir vænt um að segja frá því að til mín hafa komið fjölmargir áhugamenn og margir fulltrúar
ýmissa félagasamtaka sem hafa lýst áhuga sínum einmitt á þessu verkefni, að það verði efnt til fræðslu í öllum skólum um umhverfismál, og m.a. fékk ég í morgun hugmynd um það að einu sinni á ári verði haldinn dagur jarðarinnar, þannig að þá verði sérstaklega fjallað um umhverfið og gróðurinn í skólum landsins og öllum skólabörnum og unglingum í grunnskólum og framhaldsskólum landsins verði þá gert að fjalla um umhverfismál þann dag. Síðan hafa komið upp ýmsar hugmyndir um að veita verðlaun á sviði umhverfismála og þar vil ég nú minna á að meðan ég var formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ræddum við mikið umhverfismál og m.a. beittu þessi samtök sér fyrir því að fá sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu til þess að sameinast um það verkefni að girða höfuðborgarsvæðið fjárheldri girðingu. Það er nú eitt það merkilegasta verkefni sem þessi blessuðu samtök hafa unnið því að þau hafa ekki komið nálægt neinum sérstökum verkefnum síðan, en þetta var leyst með miklum ágætum.
    Annað skemmtilegt viðfangsefni sem samtökin gengust fyrr meðan ég var formaður stjórnar þeirra var að koma á sérstakri viðurkenningu á sviði umhverfismála, en þeirri viðurkenningu, eða nokkurs konar verðlaunum, hefur verið úthlutað fyrir merkt framlag til umhverfismála á höfuðborgarsvæðinu á hverju ári síðan 1983. Fjölmörg sveitarfélög hafa fengið viðurkenningu fyrir sérstakt framlag á sviði umhverfismála. Ég minnist þess að Hafnarfjörður fékk held ég síðasta árið sem ég var formaður stjórnarinnar viðurkenningu fyrir það framlag til umhverfismála að hafa fegrað Hamarinn svo að það þótti markvert og ástæða til þess að verðlauna Hafnarfjarðarbæ fyrir það framtak.
    Ég hef fjallað í nokkru máli um frv. til laga um umhverfismál og skal ekki hafa um það fleiri orð að

sinni, virðulegur forseti.