Álag á óunninn fisk til útflutnings
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegi forseti. Hér er vissulega allstórt mál til umræðu og ég tek undir það sem hér hefur komið fram í svörum hæstv. ráðherra að við þurfum að standa fast á rétti okkar til þess að setja takmarkanir eins og gert hefur verið í sambandi við útflutning á óunnum fiski. Hins vegar finnst mér nauðsynlegt jafnframt að menn horfi til framtíðarinnar og fari rækilegan ofan í saumana á því hver er okkar staða í hugsanlegum frekari samningum. Þá er ég ekki að tala um það sem liggur fyrir hér og nú og hefur verið í reynd. Hver er okkar staða í frekari samningum í sambandi við fríverslun með fisk? Við hverju megum við búast frá gagnaðilum? Hver er okkar réttarstaða ef svo færi sem flestir draga nú í efa að það verði miklar undirtektir af Evrópubandalagsins hálfu við óskum EFTA-ríkjanna og Íslands um fríverslun með fiskafurðir? Þetta eru tvö mál, finnst mér. Annað er staðan í dag, hitt horfir til framtíðar.