Fæðingarorlof
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Lára V. Júlíusdóttir):
    Virðulegi forseti. Árið 1988 tóku gildi hér á landi ný lög um fæðingarorlof. Helstu ákvæði laganna voru þess efnis að fæðingarorlof var lengt verulega frá því sem áður var, úr þrem mánuðum í sex mánuði í áföngum. Þegar núgildandi fæðingarorlofslög voru sett komu fram fyrirheit um samræmingu á rétti foreldra til fæðingarorlofs og skyldi unnið að slíkri samræmingu í framhaldi af lagasetningunni. Samræma skyldi rétt foreldra til fæðingarorlofs þannig að hann yrði sá sami fyrir fólk á almennum vinnumarkaði og fólk í störfum hjá hinu opinbera.
    Þann tíma sem liðinn er frá því að lögin voru sett hefur enn dregið í sundur hvað réttindi þessara tveggja hópa varðar.
    Til að fylgja eftir því sjónarmiði að samræma rétt fólks til fæðingarorlofs gaf ríkisstjórnin fyrirheit í tengslum við kjarasamninga sl. vor um að hér skyldi bætt úr. Til að átta sig á verkefninu er nauðsynlegt að hafa upplýsingar um tölulegar staðreyndir málsins. Því ber ég fram svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. á þskj. 83 um fæðingarorlof:
,,1. Hver var heildarfjöldi fæðinga hér á landi árin 1986, 1987, 1988 og fram til 1. okt. 1989?
    2. Hvað voru greiðslur fæðingarorlofs háar árin 1986, 1987, 1988 og fram til 1. okt. 1989?
    3. Hve margar konur fengu greitt fæðingarorlof frá Tryggingastofnun ríkisins þetta tímabil?
    4. Hve margir karlar fengu fæðingarorlof á sama tíma?
    5. Hvernig skiptust greiðslur fæðingarorlofs í flokka eftir atvinnuþátttöku foreldra, eftir fjölda bótaþega og fjárhæðum greiðslna?
    6. Hve mörgum foreldrum hefur verið synjað um greiðslu fæðingarorlofs frá Tryggingastofnun ríkisins framangreint tímabil?``