Fæðingarorlof
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég mun nú reyna að gera grein fyrir svari við þessari fsp. en óneitanlega hefði verið betra fyrir alla að það hefði verið skriflegt því þetta er mest talnaupplestur, en það er sjálfsagt að lesa þessa talnarunu hér yfir þingheimi og það kemur þá auðvitað inn í þingtíðindi.
    Fyrsta spurningin frá hv. fyrirspyrjanda er: ,,Hver var heildarfjöldi fæðinga hér á landi árin 1986, 1987, 1988 og fram til 1. okt. 1989?``
    Svarið við því samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands sem fengnar eru hjá Guðna Baldurssyni, og eru aðeins upplýsingar um lifandi fædda, er að árið 1986 eru fæðingar 3881, árið 1987 eru þær 4193, árið 1988 eru þær 4673 og það sem af er þessu ári fram til 30. sept. voru þær orðnar 3441.
    Önnur spurningin er síðan: ,,Hvað voru greiðslur fæðingarorlofs háar árin 1986, 1987, 1988 og fram til 1. okt. 1989?``
    Þar er því til að svara að árið 1986 voru samtals greiddar 238 millj. 57 þús. 110 kr. Reyndar skiptist þetta annars vegar í fullar greiðslur upp á rúmar 205 millj. kr., til þeirra sem fengu 2 / 3 hluta greiðslna voru rúmar 22 millj. kr. og til þeirra sem fengu 1 / 3 hluta voru rúmar 10 millj.
    Árið 1987 nema þessar greiðslur samtals 328 millj. 835 þús. 804 kr. Og það skiptist þannig að til þeirra sem fá fullar greiðslur, það er að sjálfsögðu langstærsti hlutinn, fóru 288 millj. kr., til þeirra sem fá 2 / 3 hluta greiðslna fóru tæpar 28 millj. kr. og til þeirra sem fengu 1 / 3 hluta greiðslu tæpar 13 millj. kr.
    Árið 1988 hækkar þessi upphæð hins vegar mjög verulega, enda taka þá gildi ný lög um fæðingarorlof, fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga. Þá er heildargreiðslan 606 millj. 608 þús. 203 kr. Þar af eru fæðingarstyrkirnir 290 millj. 591 þús. 75 kr., en fæðingardagpeningar skiptast þannig að þeir sem fá fulla fæðingardagpeninga, þ.e. mæður, hafa fengið 301 millj. kr. en feður 1 millj. 407 þús. kr., og af þeim sem hafa fengið hálfa fæðingardagpeninga hafa mæður fengið 12 millj. 570 þús. kr. en feður 36 þús.
    Sams konar upplýsingar fyrir það sem af er árinu 1989 eru að greiðslurnar hafa samtals numið nú þegar 569 millj. 500 þús. 825 kr. Þetta er frá 1. jan. til 30. sept. í ár. Skiptingin er þannig að fæðingarstyrkur hefur numið 310 millj. 638 þús. kr. Fullir fæðingardagpeningar hafa verið greiddir mæðrum 320 millj. 760 þús. kr. og feðrum 2,4 millj. kr., hálfir fæðingardagpeningar hafa verið greiddir mæðrum 12 millj. 846 þús. kr. og feðrum tæp 55 þús. kr.
    Þriðja fsp. er síðan: ,,Hve margar konur fengu greitt fæðingarorlof frá Tryggingastofnun ríkisins þetta tímabil?``
    Þar segir: Tölurnar eru eins nákvæmar og unnt er að fá þær hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þeir sem fá greiðslur yfir áramót eru tvítaldir eða þar lenda greiðslurnar hjá þessum einstaklingum beggja vegna áramóta. Árið 1986 hafa fengið fullar greiðslur 2920

aðilar, 2 / 3 hluta greiðslu 478 og 1 / 3 hluta greiðslu 453. Árið 1987 hafa fengið fullar greiðslur 3240 einstaklingar, 2 / 3 hluta greiðslu 456 og 1 / 3 hluta 455. Árið 1988 er síðan breytingin og þá fá fæðingarstyrk 4603 einstaklingar, fulla fæðingardagpeninga 3820 og hálfa fæðingardagpeninga 333. Og árið 1989 frá 1. jan. til 30. sept. eru tölurnar þær að fæðingarstyrki hafa fengið 3897, fulla fæðingardagpeninga 3199 og hálfa fæðingardagpeninga 256.
    Síðan er í 4. tölul. spurt: ,,Hve margir karlar fengu fæðingarorlof á sama tíma?``
    Þar segir í svarinu: Tölurnar eru eins nákvæmar og unnt er að fá hjá Tryggingastofnun. Þeir sem fá greiðslur yfir áramót eru tvítaldir eins og í hinu svarinu. Árið 1986 eru engar greiðslur bókaðar til feðra og ekki heldur árið 1987, en árið 1988 hafa 38 feður fengið fulla fæðingardagpeninga og þrír fengið hálfa fæðingardagpeninga. Árið 1989 á þessu umrædda tímabili 1. jan. til 30. sept. hafa 40 feður fengið fulla fæðingardagpeninga en aðeins einn hálfa fæðingardagpeninga.
    Fimmti liður fsp. er síðan: ,,Hvernig skiptust greiðslur fæðingarorlofs í flokka eftir atvinnuþátttöku foreldra, eftir fjölda bótaþega og fjárhæðum greiðslna?``
    Þar segir: Upplýsingar um þetta atriði hefur Tryggingastofnun ekki, en e.t.v. má lesa út úr liðum 2, 3 og 4 að ofan nokkrar upplýsingar eins og það að árið 1986--1987 var fullt fæðingarorlof greitt þeim sem höfðu unnið 1032 dagvinnustundir sl. 12 mánuði fyrir töku fæðingarorlofs. 2 / 3 hlutar fæðingarorlofs voru greiddir þeim sem höfðu unnið allt að 516 dagvinnustundum, einnig námsmönnum, og 1 / 3 hluti fæðingarorlofs var greiddur heimavinnandi. Eftir 1. jan. 1988 fengu heimavinnandi konur fæðingarstyrk. Foreldri sem fékk fulla fæðingardagpeninga hafði unnið 1032 dagvinnustundir eða meira sl. 12 mánuði fyrir töku fæðingarorlofs, þar með taldir námsmenn, og þeir sem fengu hálfa fæðingardagpeninga höfðu unnið allt að 516 dagvinnustundum.
    Síðasti liður fsp. var síðan: ,,Hve mörgum konum hefur verið synjað um greiðslu fæðingarorlofs frá Tryggingastofnun ríkisins framangreint tímabil?``
    Því miður er svarið það frá Tryggingastofnun að upplýsingum um það atriði sé ekki haldið saman í Tryggingastofnuninni.
    Aðeins að lokum, hæstv. forseti, út af því sem fyrirspyrjandi sagði í upphafi máls síns, þá er það rétt að nú er unnið að endurskoðun á lögum um fæðingarorlof. Það tók nokkuð langan tíma að koma þessu nefndarstarfi af stað, fá tilnefningar frá öllum þeim sem ætlað var að koma að málinu en nefndin hefur nú verið skipuð og vænti ég þess að hennar störf geti gengið fljótt og vel fyrir sig.