Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 14. þm. Reykv. fyrir þessa fsp. sem hann hefur hér beint til hæstv. utanrrh. Eins og við vitum er þetta mjög mikið mál. Ég held því að nauðsynlegt sé að við hugum vel að því hvað hér er að gerast. Ég fagna því sem hæstv. utanrrh. segir, að hann muni láta fara fram forkönnun hér á þessu máli þannig að við getum gert okkur grein fyrir því hvar slíkur flugvöllur megi vera á landinu og hvað hann muni væntanlega kosta. Hitt er annað mál að það kom ekki fram hvort hafnar hefðu verið neinar viðræður um Mannvirkjasjóðinn, enda, ef ég man rétt varðandi fsp. sem ég flutti hér í fyrra til hæstv. utanrrh., erum við ekki aðilar að Mannvirkjasjóði NATO og þurfum að vera það til þess að við getum rætt við það stjórnsýsluapparat sjálfir.
    En ég þakka fyrirspyrjanda aftur fyrir fsp. og tel ljóst að það muni verða farið út í þessa forkönnun fljótlega og fagna því.