Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég held að það sé óþarfi að eyða tíma eða kröftum í þessa forkönnun vegna þess að okkur vantar ekki þessa herstöð sem forkönnunin beinist að að reist verði. Og það stendur ekki til að byggja fleiri hernaðarmannvirki í þessu stjórnarsamstarfi, þannig að þegar af þeirri ástæðu, eins og hv. 2. þm. Austurl. greindi hér frá, stemmir þetta ekki saman við áætlanir ríkisstjórnarinnar eða þann samning sem liggur til grundvallar þessu stjórnarsamstarfi.
    Hér er auðvitað um hernaðarmannvirki að ræða og menn eiga ekki að vera að spauga með einhver bréf frá generálunum um að svo sé ekki. Hönnunarforsendur þessa vallar, eða þær kröfur sem lagðar eru til grundvallar byggingu svona vallar, sanna það að hér er um hernaðarmannvirki að ræða og ekkert annað en hernaðarmannvirki. Svo er náttúrlega, hvað sem þeim bláeygðustu hérna í salnum kann að finnast, Mannvirkjasjóður NATO ekki nein góðgerðarstofnun og hann leggur auðvitað ekki fé í mannvirki sem ekki koma NATO til góða sem hernaðarmannvirki. Þegar af þeirri ástæðu er það sönnun fyrir því að um hernaðarmannvirki er að ræða.
    Það sem okkur vantar hér á landi er varaflugvöllur sem þjónar íslensku flugi og íslenskum flugfélögum og íslenskum flugrekstri. Slíkur flugvöllur er á Akureyri. Að vísu eru fjöllin ansi nærri þannig að þar eru ekki æskilegustu aðstæður. Ég ætlast ekki til að utanrrh. fari að standa fyrir því að moka þeim burtu, ekki samgrh. heldur. Slíkan flugvöll er verið að leggja á Egilsstöðum og hann verður vonandi tekinn í notkun áður en langt um líður. Slíkur flugvöllur er á Sauðárkróki og vantar bara á hann slitlagið.