Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Mér finnst gæta svolítils misskilnings í þeirri umræðu eða hluta þeirrar umræðu sem hér hefur verið. Ég held það blandist ekki nokkrum manni hugur um að þörfin fyrir varaflugvöll, fyrir alþjóðaflug, er mikil og brýn en hins vegar fjallar þessi fsp. um hvernig viðræður gangi, viðræður utanrrh. við Mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins. Þar sem hér er verið að tala um Mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins verðum við að ræða málið út frá því. Mér finnst með ólíkindum ef menn tengja Mannvirkjasjóðinn ekki við hernaðaruppbyggingu því það er nákvæmlega hans hlutverk og því finnst mér meiri tvískinningur í máli þeirra er vilja tengja þetta mál almennri þörf á varaflugvelli. Þetta er heruppbygging og ber að líta á hana sem slíka.